Að hlaða batteríin fyrir veturinn

Lífsorkan þín er undirstaðan að heilun og jafnvægi líkama og hugar. Við þurfum að fylla reglulega á tankinn til að hún næri veruna sem erum við sjálf. Eins og með batteríið á símanum þurfum við líka að hlaða okkar eigið orkubatterí og hleypa orkunni út reglulega. Við gerum þetta meðal annars í gegn um öndun, hreyfingu, svefn, hlátur og nærandi samveru. 

En með tímanum fer hleðslan á batteríinu okkar úr jafnvægi. Það getur verið vegna þess að við höfum gefið of mikið frá okkur án þess að hlaða á milli og við erum komin í þurrð. Eða við erum orðin ofhlaðin. Til dæmis ef við höfum tekið inn of mikið af upplýsingum eða við höfum staðið frammi fyrir aðstæðum í lífinu og eða tilfinningum sem við höfum ekki náð að vinna úr. Eða við höfum hreinlega borðað of mikið af mat sem hentar okkur ekki eða setið of lengi kyrr. Og við höfum ekki gefið okkur rými til að losa um orku og fá útrás fyrir hana. Áföll og langvarandi álag hafa slævandi áhrif á lífsorkuna svo hún lokast inni á ákveðnum stöðum og verður óaðgengileg.

Ein leið til að skoða og skilja orkuflæðið okkar er í gegn um orkustöðvarnar. Þær eru eins konar kort sem getur gefið okkur upplýsingar og leiðarvísi að því að finna jafnvægi. 

Kundalini jóga er mjög heildrænt form af jóga og hefur bein áhrif á orkustöðvarnar og á alla okkar líðan. Eitt af því sem gerir kundalini jóga svona áhrifaríkt eru kraftmiklar og nærandi öndunaræfingar sem styðja líkamann í að hlaða lífsorkuna á öllum sviðum og hleypa henni í réttan farveg. Hugleiðsla er líka mikilvægur partur af kundalini jógatíma. Regluleg hugleiðsla tengir okkur við óendanlega orkuuppsprettu innra með okkur sjálfum. Árangurinn er aukinn lífskraftur og friðsæld, meiri skilningur á okkur sjálfum og öðrum og nýjar leiðir til að lifa lífinu lifandi. 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Stefnumót við tímann

Sumir hlutir teygja á tímanum og færa mig nær óendanleikanum. Eins og þegar ég hlusta á fuglasöng. Á þytinn í trjánum. Djúpt og innilegt faðmlag getur líka gefið tilfinningu fyrir tímaleysi. Við þekkjum öll tilfinninguna og einhvers staðar innst inni vitum við að þetta er það eina sem skiptir máli í lífinu. Að njóta andartaksins. Að vera með því sem við upplifum af heilum hug. Ekkert annað er í raun nær lífinu. 
 
Stundum, þegar ég ætla að koma miklu í verk í vinnunni, heima hjá mér eða fyrir fólkið í kring um mig, þá dreg ég úr iðkuninni minni. Ég geri minna jóga, hætti að gera skapandi hluti eins og að dansa, syngja eða skrifa og ég hugleiði minna. Stundum tel ég mér trú um að skapandi tjáning og sjálfsnæring séu léttvægari en önnur verkefni og að þau verði að bíða þess að ég hafi meiri tíma. Ég sannfæri sjálfa mig um að hvorki ég né aðrir taki eftir því ef ég sleppi þeim.
 
Ég fer að einbeita mér að því að fara í gegn um verkefnalistana mína og nýt þess að tikka í boxin. En til lengdar finn ég alltaf að það vantar eitthvað. Það verður allt svo innantómt ef ég er á sífelldum hlaupum á eftir tímanum og gef mér ekki tíma til að finna hann umlykja mig. 

Þegar ég hugleiði þá fylgir oft tilfinning fyrir tímaleysi. Stundum bara í stutta stund. En það hvetur mig til að halda áfram að eiga stefnumót við sjálfa mig og við uppsprettuna innra með mér. Það geta allir lært að hugleiða og það eru til form af hugleiðslu sem eru mjög aðgengileg fyrir þá sem hafa litla eða enga reynslu af hugleiðslu. 

Ég býð þér að taka þátt í hugleiðsluferðalagi með mér yfir sumarmánuðina. Hugleiðslan sem við gerum hentar vel fyrir óvana og er um leið djúp iðkun fyrir bæði vana og óvana. Hún byggir á nærandi öndunaræfingu og möntrusöng. Þú færð aðgang að upptökum í  mismunandi tímalengd til að fylgja eftir því hversu mikinn tíma þú ætlar að gefa þér þann daginn. Rannsóknir sýna  að það er ekki lengd hugleiðslunnar sem skiptir aðalmáli heldur hversu oft og reglulega við hugleiðum. Hugleiðsla í 3 mínútur hefur mjög djúp áhrif ef hún er gerð daglega. 

 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.  

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Hvernig er þín forgangsröðun?

Hljómar þetta kunnuglega?
 
Kaupa fisk og kartöflur í matinn
Borga reikninga
Senda hamingjuóskir til afmælisbarns dagsins
Brjóta saman þvottinn
Sækja börnin
Elda kvöldmatinn
Byrja á verkefninu sem er búið að sitja á hakanum
Taka til
Gera við vaskinn
Fara með bílinn í smurningu
Bóka flugið
Laga girðinguna
 
Og SÍÐAN...
Fara í gönguferð (ef tími vinnst til)
Hvílast (ef tími vinnst til)
Hugleiða (ef tími vinnst til)
Skapa (ef tími vinnst til)
Vera (ef tími vinnst til)
 
Getur verið
að við þurfum að endurskoða
forgangsröðunina
hjá okkur? 
 
Kærleikur til þín
Guðrún

Ég býð þér að taka þátt í hugleiðsluferðalagi með mér yfir sumarmámuðina. Dagleg hugleiðsla er gott akkeri að hafa í annríki dagsins, hvort sem er heima eða á ferðalagi. Hún gefur okkur færi á að hlaða batteríin, finna friðsæld og koma heim til okkar sjálfra aftur og aftur. 


Leiðbeinandi: Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.  

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


 


Galdurinn við góða ákvörðun

Kannastu við að ákvörðun sem gæti hafa virst vera sú besta sem þú hefur nokkru sinni tekið gæti 15 mínútum seinna virst vera sú versta? Ef þú kannast við þetta gæti hugsast að þú sért að taka ákvörðun í gegn um jákvæða eða neikvæða hugann og átt eftir að bera þær undir hlutlausa hugann. 

Þrjár hliðar hugans: Kundalini jóga kennir okkur að hugur okkar sé þrískiptur. Í jákvæða-, neikvæða- og hlutlausa hugann.

Neikvæði hugurinn á ekkert skylt við neikvæðni. Hann er stundum kallaður verndarhugurinn. Hann minnir okkur á að hlusta eftir því sem gæti misheppnast eða verið óhollt fyrir okkur. Neikvæði hugurinn sér möguleika á sársauka, stöðnun, óþægindum og óstöðugleika. Neikvæði hugurinn er sá hluti hugans sem er fljótastur að bregðast við. Enda þurfum við alltaf fyrst að meta hættuna í hverjum aðstæðum. 

Til dæmis ef þú færð boð um að taka þátt í stóru verkefni, þá fær neikvæði hugurinn þig til að skoða hvort þetta sé of mikið fyrir þig. Og hvort þú þurfir þá ekki að sleppa einhverju öðru. Eða ef þú ert að íhuga að hugleiða daglega gæti hann sagt sem svo: "Ef ég skuldbind mig til að hugleiða daglega og fylgi því síðan ekki eftir þá finnst mér ég vera misheppnuð manneskja."  

Jákvæði hugurinn stígur næstur inn og bendir okkur á það sem er jákvætt við aðstæðurnar. Hann sér ekki lífið í hindrunum og vandamálum. Hann sér alls staðar tækfæri, áskoranir og verkefni til að leysa. Jákvæði hugurinn er ekki sterkur sjálfkrafa. Við þurfum að rækta hann og styrkja. Við þurfum að velja að sjá tækifærin. 

Hann gæti sagt "já en þetta er svo spennandi verkefni og það gæti opnað fleiri dyr". Ef við höldum áfram með dæmið um daglega hugleiðslu þá gætu hans skilaboð verið: "Ég hef heyrt að það hafi svo jákvæð áhrif að hugleiða daglega. Það færir mér örugglega þá kyrrð og ró sem mig langar að upplifa. Ég get hugleitt í 1000 daga ef ég ákveð að gera það. Ég hlakka til að sjá þær breytingar sem ég á eftir að upplifa." 

Jákvæði og neikvæði hugurinn gefa okkur ekki hlutlaust svar heldur eina hlið á málinu. Næsta skref er að leggja það í hendurnar á hlutlausa huganum. Stundum er nóg að taka nokkur djúp andartök eða að hugleiða í þrjár mínútur. Eða að fara í gönguferð í náttúrunni, skrifa eða tala við einhvern sem hlustar með kætleika.

Hlutlausi hugurinn spyr hvort verkefnið færi þig nær kjarnanum þínum. Hvort það sé í takti við gildin þín að taka þetta skref. Í dæminu um daglega hugleiðslu gæti hann sagt: "Ég finn innblástur til að hugleiða daglega í 40 daga. Ég geri mér grein fyrir að það verður upp og niður ferðalag. Ef ég missi úr dag þá ætla ég ekki að túlka það sem mistök heldur halda áfram að velja að hugleiða fyrir mig." 

Hlutlausi hugurinn styrkist þegar við hugleiðum daglega. Þannig fáum við smátt og smátt greiðari aðgang að þeirri visku og innsæi sem við búum yfir.

Mér hefur fundist mjög gagnlegt að hafa þessa þrjá huga í augsýn og ráðfæra mig við þá meðvitað. Það hjálpar mér að hlusta dýpra og að taka góðar ákvarðanir. Það er jafn mikilvægt að kunna að segja nei og að geta sagt já í fullri bjartsýni. Og síðan að leggjast undir feld og sofa á ákvörðuninni. 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Meltingareldurinn

Ég fór í mína árlegu vorhreinsun um helgina. Mér finnst ég léttari og glaðari í alla staði og hugurinn skýrari. Ég sef betur á nóttunni og morgunhugleiðslan mín verður dýpri. Ég var komin með nokkrar venjur sem ég vissi að væru ekki að þjóna mér. Ég sótti t.d. í snakk þegar hugurinn varð eirðarlaus og sætt þegar ég var orkulaus. Núna finnst mér auðveldara að hlusta á líkamann og velja það sem hann langar í en ekki það sem hugurinn kallar eftir. Ég hvatti manninn minn til að taka þátt í þessu með mér. Hann var ekkert yfir sig spenntur við tilhugsunina en ákvað samt að slá til. Á öðrum degi fór hann að tala um hvað honum liði ótrúlega vel og að hann væri fullur af orku. Hann viðurkenndi að þetta væri miklu auðveldara en hann hefði búist við. 

Minn innblástur til að fara í vorhreinsun kemur frá Ayurveda, systurvísindum Jógafræðanna. Ayurveda kennir okkur að lifa í takti við árstíðirnar og okkur sjálf. Orðið Ayurveda þýðir “vísindin um verundina." Ayurveda er sögn. Að gera Ayurveda er að skuldbinda þig til þess að gefa sinni æðstu vellíðan, tíma og orku. Á eigin forsendum, skref fyrir skref. Til dæmis að velja ávöxt í staðinn fyrir súkkulaðiköku. Að lesa eitthvað skemmtilegt frekar en að horfa á hrollvekju. Að fara snemma að sofa í stað þess að horfa á sjónvarpið fram á nótt. Að gera minna og vera meira. Bæði í einu.
 
Jóga og ayurveda leggja mikla áherslu á Agni, hinn innri eld. Agni þýðir umbreytandi afl. Við erum ekki að tala um eld í eiginlegri merkingu heldur hæfileika líkamans til að melta. Agni er konungur meltingarinnar og lykill að heilsu og vanheilsu. Allt kemur frá meltingunni og meltingin stýrist af því hvað og hvernig við borðum. Fæðan er grunnur lífsins. Allt er fæða. Ekki bara maturinn sem við borðum heldur líka allt sem við tökum inn úr umhverfinu. Fæða handa líkama, huga og sál. Agni nær yfir öll þessi svið.

Agni er eldurinn sem stýrir svengd og matarlyst og því hvernig þú vinnur úr fæðu. Hann verður fyrir áhrifum af fæðunni sem þú borðar, en líka hugsunum, tilfinningum, streitumagni, hvar þú borðar, árstíð og veðri. Ef agni er ekki í jafnvægi þá myndast ama. Ama er það sem við náum ekki að melta. Það sest á botn magans, truflar meltinguna og veldur meiri myndun á ama. Ama þornar á endanum og ferðast til annarra líkamshluta og veldur sjúkdómum. 
 
Til að hreinsa út ama er mælt með því að létta á meltingunni á um það bil sex mánaða fresti, á vorin og haustin. Það eru til nokkrar leiðir til þess að taka vor- og hausthreinsun. Við getum fastað eða bara borðað auðmeltari fæðu. Á Indlandi er oft notaður réttur sem heitir Kitchari og er búinn til úr Mungbaunum og hrísgrjónum. Þegar mungbaunir og hrísgrjón eru soðin saman myndast prótein sem líkaminn á auðvelt með að melta. Fyrir þá sem vilja prófa er hér uppskrift að Kitchari.Það er til dæmis hægt að setja sér að borða graut á morgnana, kitchari í hádeginu og súpu á kvöldin í eina til þrjár vikur.  

Ég hvet þig til að prófa. Það getur verið smá áskorun en er alveg þess virði. Ef þú vilt fá aðstoð við að finna út hvað þú þarft og hvatningu til að fylgja því eftir er velkomið að hafa samband. Ég býð upp á einkatíma fyrir þá sem vilja stuðning við að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu á heildrænan hátt og finna lífsorkunni farveg. 

Þegar mataræðið er rangt gerir meðalið ekkert gagn. Þegar mataræðið er rétt er meðalið óþarft. Ayurvedískur málsháttur. 

Guðrún Arnalds

Jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing,aðferð til að hlusta á visku líkamans

andartak@andartak.is

 


Vorhreinsun

Vorið er endurfæðing náttúrunnar. Um leið og náttúran byrjar að senda græna sprota upp úr moldinni býður hún okkur líka að endurnýja samband okkar við lífið. Við getum gert þetta í gegn um líkamlega hreinsun, gegn um tiltekt í huganum og í viðhorfum okkar til lífsins. Við getum skoðað venjurnar okkar, hverju við getum sleppt og hvernig við getum betur nært okkur sjálf. Vorið er dásamlegur tími til að endurnærast og til að endurnýja skuldbindingu okkar við okkur sjálf, við heilsu og hamingju.

Einföld vorhreinsun getur verið til dæmis að borða léttara fæði og hjálpa okkur þannig að taka léttari á móti sumrinu. Það eru ýmis te sem geta stutt okkur í að létta á líkamskerfunum, eins og Tulsi te, sem er mjög nærandi fyrir taugakerfið og hreinsar blóðið, Fennel og Engifer styðja við meltinguna og hjálpa okkur að næra meltingareldinn. Svo er líka hægt að taka þetta einu skrefi lengra og fasta eða taka eina viku þar sem við borðum Kitchari, sem er búið til úr mungbaunum og hrísgrjónum. Hér má finna uppskrift: Kitchari. Tilgangurinn með því að borða léttara fæði er að þá fer ekki eins mikil orka í meltinguna og líkaminn getur notað þessa orku til að endurnýja og byggja upp styrk. Lifrin fær hvíld sem aftur getur dregið úr pirringi og létt á skapinu. 
 
Allt ójafnvægi byrjar í huganum. Hugurinn er í raun hluti af líkamanum, ekki aðskilinn. Allt sem við gerum til að létta á líkamanum hefur áhrif á hugann og öfugt. Regluleg hugleiðsla og jógaiðkun er ein besta gjöfin sem við getum gefið okkur sjálfum til að styðja við innra jafnvægi. Dagleg hugleiðsla getur verið allt frá þremur mínútum. þriggja mínútna hugleiðsla, ef hún er gerð daglega, getur haft mjög djúp áhrif á huga og líkama. Og svo er alltaf hægt að lengja smám saman. Þegar við finnum áhrifin þá fer okkur oft að langa til að lengja hana. 

Á námskeiðinu Vorið kallar, færðu stuðning við að hreinsa og létta á huga og líkama og við að koma sér upp daglegri hugleiðslu. Auk þess sem við gerum jógaæfingar sem styðja við hreinsun og endurnæringu. 

Nánar hér: Vorið kallar!

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.  

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Upplyftandi vorvenjur

Vorið er tími töfra og umbreytinga. Náttúran kemur úr klakaböndum og köldum raka vetrarins og inn í vorið. Lífspúlsinn tekur kipp, jörðin fer að hlýna og grænir sprotar taka að teygja sig upp á móti ljósinu. 

Náttúran virðist eiga svo auðvelt með þetta en fyrir okkur manneskjurnar er það oft ekki eins áreynslulaust að taka á móti nýjum árstíðum. Ferðalagið úr vetri yfir í vor getur tekið sérstaklega á. Oft finnum við fyrir þunga og drunga eins og úrillur björn sem kemur hikandi út úr vetrarhýðinu. 

Jóga og ayurveda, systurvísindi jógafræðanna og elsta heilunarkerfi heimsins, sýna okkur að lykillinn að því að halda í taktinn við náttúruna er að fylgja hennar fordæmi og dansa í sama takti. Hér eru nokkur góð ráð úr viskubrunni ayurveda og jóga.  

Taktu daginn snemma. Eitt það besta sem við getum gert fyrir okkur sjálf á vorin er að vakna snemma og taka inn létta og tæra orku morgunsins. Og byrja þannig að létta á þunga og drunga vetrarins.

Fáðu hreyfingu á orkuflæðið. Hressandi gönguferð, sundsprettur eða kraftmikið jóga kemur orkunni í farveg. Góður tími til að hreyfa sig er milli 6 og 10 á morgnana og kvöldin. Öndunaræfingar eru eitt það besta sem við getum gert til að vekja lífsorkuna. Og til að losa um staðnað orkuflæði og slím úr lungunum. 

Borðaðu létt. Á veturna sækjum við í að borða fæðu sem vegur upp á móti þurrum og léttum eiginleikum kuldans. Á vorin þurfum við að létta fæðið og gefa meltingunni rými til að virkja krafta sína. Grænt og ferskt er málið. Og létt grjón eins og kínóa, bygg og hirsi. Í jóga tölum við um að tendra meltingareldinn. Hann getur verið sérstaklega viðkvæmur á vorin og haustin og mikilvægt að hlúa að honum og gefa honum frí inn á milli. 

Sæktu innblástur í náttúruna. Náttúran er svo góður kennari. Við getum lært mikið af því að fylgjast með henni vakna úr dvala. Vorið er upplagður tími til að að leita inn á við og gefa rými fyrir ný fræ, nýjar venjur, nýjar hugmyndir og endurnærandi stundir. Og til að fara út og horfa á brumið vakna á trjánum og litina fjölga sér í umhverfinu.

 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.  

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Einfalt líf í flóknum heimi

dreamstime_m_84644254Ég hef verið að upplifa þrá eftir einfaldleika undanfarið. Að lifa einfaldara lífi. En það er ekki einfalt að einfalda í flóknum heimi nútímans. Samskipti okkar fara meira og meira fram í gegn um tölvur og síma. Við erum orðin háð tækjum og rafrænni veröld. Rafræn samskipti eru mun minna nærandi en að hittast og snertast.

Þegar ég hugleiði á einfaldleika koma upp minningar úr æsku. Ein af þeim er úr sumarbústaðnum hans afa míns. Ég sé hann fyrir mér beran að ofan að raka sig og hlusta á veðurfréttir. Ég heyri í huganum suðið í gasinu og finn kyrrðina sem umlykur húsið. Ég man hvernig það tók mig oft tíma að aðlagast þessum hæga takti og hvernig ég fór svo að finna öryggið sem fylgdi.

Líkami minn man hvernig einfaldleiki lítur út. Hann finnur bilið á milli þess sem er og þess sem gæti verið. Ég finn í líkamanum að ég er stöðugt að bregðast við áreiti. Ég les fréttirnar, ég sé fólk sem mér þykir vænt um takast á um ólíkar skoðanir og ólíka sýn á það sem við stöndum frammi fyrir. Það ríkir óvissa sem við erum öll að reyna að höndla.

Ég get ekki breytt þessum ytri aðstæðum. Og samt er margt sem ég get haft áhrif á. Ég finn það svo vel núna þegar jólafríinu lýkur hvað rútína er mikilvæg. Taktur í deginum, rútína er ein af undirstöðunum að öryggiskennd og einfaldleika. Hugrekki er líka mikilvægt. Hugrekki til að finna hvernig mér líður, án þess að gera aðra ábyrga. Að þora að berskjalda mig og tala um tilfinningar mínar. Hugurinn segir mér að það sé ekki öruggt. Ef ég anda djúpt nokkrum sinnum þá finn ég að hugurinn veit ekki allt, bara sumt. Hann veit ekki það sem hjartað veit. Ef ég hlusta vel og djúpt þá segir hjartað mér hvað ég þarf.

Einfaldleiki er að gera eitt í einu og hafa hugann við það. Að hvíla í mér þrátt fyrir að umhverfið sé á hraðferð. Þrátt fyrir að vindurinn blási úti og allt um kring. Vindurinn getur verið á svo mörgum stöðum í einu. Hann getur hrist eina grein hér og og einn glugga þar og hann virðist oft koma úr öllum áttum. Þannig er líka stundum innra með mér. Ég er þá með hugann út um allt eins og vindurinn og get ekki tekið einföldustu ákvarðanir. Ég reyni að hugsa um margt í einu. Að hrista eitt verkefni hér og annað þar. En vindurinn er hluti af stærri heild. Jörðin heldur í hlutina og vindurinn hristir þá til. Jörðin er svo mikilvæg. Að stíga fast til jarðar og segja nei þegar það á við. Að ætla mér ekki of mikið. Það er svo mikilvægt að muna að ég er líka hluti af stærri heild. Eins og vindurinn. Að ég þarf ekki að gera allt sjálf. Ég get beðið um aðstoð. Þetta eru auðvitað verkefni sem við glímum öll við út lífið.

Ef ég ætla að velja einfaldleika þá finn ég að það er gott að byrja á að taka til. Að henda því sem ég þarf ekki. Ég byrja í huganum. Ég tek út það sem er búið að hlaðast upp. Hvað stendur í veginum fyrir því að mér líði vel? Að ég geti notið andartaksins? Ef ég hlusta djúpt og vel þá birtast gestir hugans einn af öðrum. Þeir tala um verkefnin sem þurfa að komast í verk, um áhyggjur af því hvert heimurinn er að fara og um það hvað ég ætli að hafa í matinn í kvöld. Þeir eru allir mikilvægir og ég get gefið þeim rými til að tjá sig. Svo get ég boðið þeim að setjast við hliðina á mér, úti í garði eða jafnvel að fara í fjallgöngu á Esjuna. Ég fullvissa þá um að ef þeir þurfi meiri áheyrn þá muni ég gefa mér tíma til að hlusta þegar ég er tilbúin. Þannig fæ ég næði til að hvíla mig um stund í gestalausu húsi. 

Það sem styður mig í að velja einfaldleika er fyrst og fremst reglulega iðkunin mín. Þegar ég hugleiði styrki ég þessa kyrru miðju innra með mér sem getur valið að bjóða gestum hugans að draga sig í hlé. Ég rifja það upp í líkamanum um leið og ég iðka jógað mitt, hvernig það er að líða vel og njóta andartaksins. Ég rækta hæfileikann til að vera til staðar fyrir mig, að muna að ég er ekki hugsanirnar mínar, að ég er ekki vindurinn, ekki hraðinn, ekki erfiðleikarnir sem stundum blasa við allt í kring. Ég á mér kjarna sem stendur kyrr í vindinum eins og trén í garðinum mínum.

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans. 

 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 

 


Litrík seigla

Þegar haustar er nóg að gera við að koma öllu í skorður og finna taktinn upp á nýtt. Ég þarf að hafa mig alla við að að setja tímanum mörk og ætla mér ekki of mikið. Að ýta til hliðar og forgangsraða. Ég tala við verkefnin og segi þeim að þau þurfi að bíða aðeins lengur og minni sjálfa mig á að ég er eitthvað meira og stærra en hugsanirnar mínar og verkefnin sem bíða. Ef ofvirkur hugurinn nær að stilla mér upp við vegg að nóttu til þá getur verið erfitt að halda honum í skefjum. En líka þá á ég mínar leiðir. Öndunaræfingar eru til dæmis að mínu mati ómissandi ferðafélagi í lífinu. Regluleg jógaiðkun er mín besta bólusetning gegn álagi.

Sumarið er fyrir mér tími til að safna fegurð og fjöllum í sinnið. Eins og íkornarnir safna hnetum og fræjum í sitt forðabúr og björninn borðar vel yfir sumarið svo hann geti lagst í hýði yfir veturinn. Ég bý mér til forða af friðsæld og náttúru, af sól og hita (ef heppnin er með mér), af ljúfum og nærandi minningum. Af þeim skilningi sem ég öðlaðist við það að stíga út úr borgarhraðanum og inn í takt náttúrunnar. Skilningi á lífi mínu, á fólki í kring um mig, á því hvað skiptir mig máli, hvernig ég vil forgangsraða, hvað það er sem ég þarf mest á að halda í lífinu og hverju ég vil sleppa. Þessi brunnur er eins konar áttaviti sem beinir mér í rétta átt þegar vetrarþokan verður sem þykkust.

Eitt af því sem ég hef hugleitt í sumar er hvernig ég tekst á við streitu. Eins og allir aðrir verð ég að horfast í augu við þá staðreynd að hraði og streita í heiminum eru frekar að aukast heldur en hitt. Ef ég ætla að lifa innihaldsríku lífi þá þarf ég að vera stærri en álagið. Stærri og bjartari, vitrari og seigari, með sköpunargleðina á lofti. Litrík seigla. Seigla er fyrir mér ákveðið viðhorf. Að taka lífinu án þess að dæma, án þess að kvarta. Seigla er kyrrð. Kyrr hugur sem staldrar við þegar þarf og horfir aftur á málið. Sem forgangsraðar vel og er ekki fastur í of djúpu fari. Það að festast í djúpu fari er að vera með venjur sem eru ómeðvitaðar og þjóna mér ekki. Stöðugur hugur sem tekur ekki hlutina of persónulega. Seigla er að vera stór. Hún kallar eftir sjálfsmildi. Að ég sé vinsamleg við mig. Að ég búist við að ég hafi það sem til þarf. Litrík seigla er full af gleði og sköpunarkrafti. Ég setti mér það markmið inn í veturinn að koma mér upp litríkri seiglu.

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Vorleysingar á huga og líkama

Þó vetur konungur sé enn ekki farinn að gefa okkur mjög skýr merki um að hann ætli að fara að láta af völdum þá vitum við samt í hjarta okkar að vorið er á næsta leiti.  Bjartir morgnar eru mjög kærkomnir eftir allt myrkrið og innan um snjóbreiðurnar má sjá í grænt gras sem heldur sjálfsagt að það sé að villast þegar það lítur í kringum sig. 

En á meðan getum við að minnsta kosti farið í gönguferðir, hlustað eftir nýjum fuglahljóðum og látið okkur dreyma um vorið og sumarið. Þegar vorið bræðir veturinn nærumst við á birtunni og græna litnum - stundum fáum við ofbirtu í augun til að byrja með.

Þó við flest okkar tökum vorinu fagnandi þá getur verið átak að hrista af sér vetrardoðann og margir eiga erfitt með að taka á móti vorinu af sama krafti og hugurinn myndi óska sér.  Það er ekki óalgengt að fólk fái kvef og alls kyns ofnæmiseinkenni á vorin og þunglyndi tekur stundum aukadýfu einmitt á vorin þegar síst varir.

Mér fannst það mjög gagnlegt þegar ég kynntist heildrænni visku jógafræðanna að heyra að þetta ætti sér eðlilegar skýringar.  Jóga og systurvísindi þeirra – ayurveda kenna okkur um mikilvægi þess að lifa í takti við okkur sjálf og árstíðirnar og hlusta á líkama, huga og sál. Þau fjalla um það hvernig veturinn getur safnast upp innra með okkur. Vetrinum fylgir kuldi og raki og við speglum þessa eiginleika innra með okkur. Við höfum tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Á vorin þurfum við að varpa af okkur þessari kápu. Annars eigum við það á hættu að fá vorkvef og frjókornaofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum.  Vetrinum fylgir ákveðinn drungi, dofi gagnvart lífinu og það geta myndast stíflur innra með okkur. Eins og í vorleysingum getur allt farið að losna þegar vorið birtist og stöku klakar geta strandað á steini úti í miðri á áður en þeir bráðna. Orkuflæðið okkar getur farið skrykkjótt af stað og drunginn getur verið búinn að koma sér þægilega fyrir og verið tregur að standa á fætur.

Á vorin þurfum við að hugsa sérstaklega vel um flæðið innra með okkur. Þegar við erum í jafnvægi finnum við styrk okkar og stöðugleika.  Skortur á innra jafnvægi á vorin lýsir sér oft í því að við erum syfjuð eða með sljóan huga og jafnvel þunglynd. Það gæti líka fylgt því aukið slím í lungum eða kinnholum, ógleði og vatnssöfnun eða þungi í útlimum.  Þeir sem þekkja til ayurveda kannast kannski við að þetta er lýsing á of miklu kaffa.

Í ayurveda er meðalið ekki bara eitthvað sem þú tekur inn heldur líka lífsstíll og taktur í deginum. Meðalið eða mótvægið fyrir vorið er þá að búa sér til takt og rútínu fyrir daginn sem hjálpar okkur að létta okkur líkamlega og tilfinningalega án þess að trufla stöðugleikann innra með okkur. Best er að nálgast þetta frá mörgum hliðum; borða létt fæði, hreyfa sig – fara út í náttúruna. Jóga er mjög gagnlegt á þessum tíma og þá ekki síst öndunaræfingar og hugleiðsla. Í kundalini jóga er fullt af kríum sem hreyfa við orkunni og opna fyrir orkuflæðið.

Daglegar reglubundnar venjur eru nauðsynlegar til að halda góðri heilsu og til að okkur líði vel. Þær hjálpa okkur að lifa í takti við innbyggða líkamsklukku okkar og við náttúruna og að hlusta á okkur sjálf. Daglegar venjur gefa okkur sjálfstraust, sjálfsaga, innri frið, hamingju og langt líf.

Það er til dæmis himneskt að byrja daginn á að nudda líkamann upp úr olíu og fara svo í sturtu. Morgunganga eða örstutt jóga gefur okkur færi á að opna hugann fyrir nýjum degi og þeim tækifærum sem hann færir okkur. Og stutt hugleiðsla á eftir. Þriggja mínútna hugleiðsla hefur ótrúlega mikil áhrif ef hún er gerð daglega.

Létt  hreinsun er af hinu góða. Og ekki síður að sleppa öllu þessu sem íþyngir okkur – eins og gömul ágreiningsmál við aðra, sorgir sem við eigum eftir að vinna úr eða fyrirgefning sem bíður eftir að koma fram í dagsbirtuna. Við höfum tilhneigingu til að halda í gamlar sögur, oft erfiðu sögurnar okkar - að segja þær aftur og aftur – og þannig halda þær áfram að lifa. Á þennan hátt erum við jafnvel að endurskapa þær. Það er mikill léttir að sleppa gömlum höftum.

Vorið er tími til að fæðast upp á nýtt og njóta þess að sjá lífið vakna í kringum okkur. Tími til að sá fræjum og skjóta rótum svo við getum nærst í gegnum sumarið og haldið stöðugleika okkar. Þetta er upplagður tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur og koma okkur upp nýjum siðum sem þjóna okkur og næra.

Jákvæð hlið vorsins er kærleikur, samkennd og breytingar – sem geta leitt af sér djúpa umbreytingu. Við getum notað vorið til að sá nýjum fræjum og tekið meðvitaða ákvörðun um að rækta með okkur gleði, samkennd og þakklæti og opnað þannig fyrir birtunni í hjartanu.

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband