Færsluflokkur: Bloggar

Að muna hver þú ert

Þegar ég hef mikið að gera kemur það fyrir að ég hætti að muna hvað ég er sterk og stöðug. Ég fer að samsama mig með streitunni og öllum þessum verkefnum sem verður að sinna NÚNA. En sem betur fer hef ég fengð góða þjálfun í jógaiðkuninni minni og þegar ég sest niður við að hugleiða man ég aftur “hver ég er”. Þessi stutta stund sem ég man - hjálpar mér við að takast á við álagið af meira æðruleysi. 

Þegar við búum við mikið álag, langvarandi eða skammvinnt og þegar við lendum í áföllum þá eru það eðlileg viðbrögð líkamans að fara í streituástand, að frjósa eða búa sig undir átök, líkt og það væri hættulegt dýr að ráðast á okkur. Við erum byggð til þess að lifa af og líkaminn setur allt sem hann á í það að hjálpa okkur út úr hættunni. Þetta er nauðsynlegur eiginleiki fyrir lífshættulegar aðstæður. En líkaminn gerir ekki greinarmun á lífshættu og álagi eða áfalli. 

Regluleg iðkun jóga og hugleiðslu hjálpar okkur að takast á við áföll og álag á áreynslulausari hátt. Með meiri meðvitund og nærveru með okkur sjálfum. Þegar áfallið eða mesta álagið er liðið hjá er mikilvægt að hafa réttu tækin til að komast aftur í jafnvægi. Að losa um líkamleg eða andleg “spor” sem eftir sitja eftir aðstæðurnar sem upp komu svo þau hafi ekki áhrif á heilsu okkar og andlega líðan í framtíðinni. 

Áhrifin sem stafa af streitu eru heilsufaraldur okkar tíma. Hæfileikinn til að bregðast við hættu er mikilvægur til að lifa af en þegar streita verður krónísk þá getum við þurft að takast á við heilsuvandamál eins og bólgur, háan blóðþrýsting, meltingarvandamál, andleg og tilfinningaleg vandamál. 

Það eru til ýmis konar form af jóga. Jóga nidra er markviss, umbreytandi djúpslökunariðkun. Í sinni enföldustu mynd, hjálpar jóga nidra að róa niður taugakerfið með því að kveikja á slökunarviðbragðinu og losa um spennu í líkama, huga og tilfinningum á kerfisbundinn hátt. 

Að virkja slökunarviðbragðið

Þegar streita kemur upp hækkar blóðþrýstingurinn, við förum að anda hraðar. Meltingarkerfið og önnur mikilvæg kerfi hafa ekki lengur forgang. Þetta er gagnlegt þegar við erum að glíma við hættulegar aðstæður en ef streituástandið varir í langan tíma getur það orðið að heilsuvandamáli. Dr Herbert Benson, sem setti fram heitið “slökunarviðbragð” sagði: “Bara það að sitja í rólegheitum, til dæmis að horfa á sjónvarp er ekki nóg til að snúa þessu ferli við. Það er nauðsynlegt að nota slökunartækni sem brýtur upp hugsanamynstrin okkar og dregur úr virkni drifkerfisins í taugakerfinu."

Slökunarviðbragðið er líkamlegt ástand djúprar slökunar sem breytir líkamlegum og tilfinningalegum streituviðbrögðum okkar. Þegar slökunarviðbragðið fer af stað þá slaknar á vöðvum, öndun okkar verður hægari og sömuleiðis hjartslátturinn og bruni líkamans og blóðþrýstingur lækkar. Slökunarviðbragðið snýr við “flótta- eða árásarviðbragðinu” og gefur öllum líkamskerfum færi á að stilla sig aftur saman og vinna sem heild.

Að þróa með sér vitni

Jóga og hugleiðsla kenna okkur að þróa með okkur hæfileikann til að vera eins og vitni að lífi okkar og bregðast ekki við hvað sem á dynur. Með þjálfun, förum við að geta nýtt okkur þennan hæfileika í daglegu lífi svo við getum hvílt betur í því sem kemur upp án þess að samsama okkur með aðstæðum eða viðbrögðum okkar. Þetta getur hjálpað okkur að horfast í augu við erfiðleika af meira jafnvægi og gefið okkur rými til að bregðast við ótta eða öðrum tilfinningum sem kunna að koma upp og geta átt rætur sínar í áföllum sem við höfum orðið fyrir eða erfiðum aðstæðum sem við höfum upplifað. Þannig getur hugurinn losað um hugsanir sem annars myndu sitja fastar innra með okkur. Hæfileikinn til að vera vitni er grundvallaratriði í jóga. 

Jafnvægi og heilun eftir áföll

Regluleg iðkun jóga og jóga nidra hjálpar okkur að endurforrita heilann svo við getum haldið jafnvægi jafnvel þegar erfiðleikar steðja að. Rætur margra líkamlegra, andlegra og tilfinningalegra vandamála er að finna í undirvitund okkar og dulvitund. Í jóga eru þessi fótspor í huga okkar kölluð “samskaras”. Ef við sinnum þeim ekki getur það haft áhrif á heilsu okkar, ákvarðanir og það hvernig við lifum lífinu. Þegar áföll eiga sér stað þurfum við oft að bæla tilfinningar og líkamlegar upplifanir til að komast í gegnum erfiðleikana. En ef þessar rætur eru ekki teknar upp geta þær valdið annars konar ójafnvægi og geta leitt af sér meira langvarandi vandamál. Eða þær geta leitt til ótta eða einhvers konar hindrana innra með okkur sem koma í veg fyrir að við getum verið alveg til staðar og notið lífsins. Hugleiðsla og jóga nidra hjálpa huganum að sleppa fortíðinni og um leið ímyndaðri framtíð. Nýleg rannsókn á jóga nidra sýndi jákvæð áhrif á fólk sem hafði lent í áföllum, sérstaklega áfallasttreitu (PTSD), og sömuleiðis við þunglyndi, kvíða, svefnleysi og krónískum sársauka. Með því að færa iðkandann inn í ástand þar sem hann er vakandi en um leið með virkar alfa bylgjur (slökunarbylgjur) og þeta bylgjur (draumbylgjur), fær iðkandinn tækifæri til að mæta minningunum í slökunarástandi og sleppa þeim. 

Að halda áfram eftir áföll

Eitt af lykilstigum í jóga nidra er kallað “Sankalpa” eða meðvituð endurtekning jákvæðrar staðhæfingar eða ásetnings þar sem hugurinn er í slöku og móttækilegu ástandi. Hugur okkar býr yfir eiginleika sem fær hann til að benda á allt sem getur skaðað okkur og halda okkur þannig öruggum. Eftir áföll er taugakerfið í uppspenntu ástandi og við það bætist að hugur okkar leitar stöðugt eftir mögulegum hættum. Margt sem hugurinn upplifir sem hættu er það ekki í raun. Þetta er oft orsökin að kvíða og þunglyndi sem eru algeng einkenni eftir áföll. Vitnið sem var nefnt hér að ofan er mikilvægur þáttur í að hjálpa okkur að sjá hlutina í stærra samhengi. Auk þess getum við “gróðursett” jákvæðan ásetning í vitund okkar í jóga nidra. Þessi ásetningur er eitthvað sem við tengjum við sem við viljum sjá vaxa og blómstra í lífi okkar. 

Við þurfum ekki að lifa við króníska streitu eða sitja uppi með afleiðingar erfiðra aðstæðna þó við lendum í langvarandi álagi eða áfalli. Jógaiðkun er mjög gagnleg leið til að gera okkur hæfari til að takast á við það sem lífið færir okkur og muna að við erum ekki áföllin okkar, álagið eða fortíðin. Jóga og jóga nidra getur hjálpað okkur við að virkja slökunarviðbragðið þegar við lifum við álag, þjálfa með okkur hæfileikann til aðv era vitni í lífi okkar og velja viðbrögðin, að halda jafnvægi. Að heila fótspor áfalla í lífi okkar og skapa von fyrir jákvæða og gefandi framtíð. 

 

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati


Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Lífið í sínum mörgu litum


Við erum búin að vera að fjalla um orkustöðvarnar í jógatímunum okkar undanfarnar vikur. Þær eru mjög skemmtilegt viðfangsefni og eitthvað sem allir geta tengt við. Orkustöðvarnar eru eins og prismi sem við getum notað til að horfa á líf okkar og upplifun í mismunandi ljósi og litum. Og skoðað hvort við erum sátt á öllum sviðum.
 
Í jóga tölum við um orkustöðvarnar sem eins konar hringiður af orku sem eru dreifðar um líkamann. Aðalorkustöðvarnar eru stundum sagðar 7 og stundum 8. Hver orkustöð stendur fyrir ákveðið svið í lífinu og hver þeirra á sér sína tíðni, sinn lit. Allt sem við upplifum og hugsum í lífinu er skráð í frumurnar okkar og þessa bók lífs okkar má lesa út úr orkustöðvunum. Ef lífið setur okkur út af laginu þá endurspegla orkustöðvarnar hvar ójafnvægið liggur. Þetta innra jafnvægi hefur síðan áhrif á það hvernig við hugsum, á orkuna sem við höfum til að fylgja hugsunum okkar eftir og birta það sem við stefnum að.
 
Orðið Chakra (orkustöð) kemur úr sanskrít og þýðir “hjól” og þær  raða sér upp eftir hryggsúlunni. Neðstu orkustöðvarnar þrjár tilheyra efninu og hinar þrjár efstu eru orkustöðvar andans. Mitt á milli þessara tveggja heima er hjartastöðin. Eins konar brú á milli himins og jarðar. Uppspretta kærleika og tengingar.
 
Jóga getur hjálpað okkur að koma jafnvægi á öll þessi mismunandi svið í lífi okkar og gert okkur meðvitaðri um það sem upp á vantar.
 
Rótarstöðin er undirstaðan, ræturnar. Hún er eins og grunnurinn að húsinu þínu, rætur trésins. Húsið þitt þarf traustan grunn og réttan jarðveg til að geta verið griðarstaður og undirstaða fyrir gleðiríkt heimilislíf.
 
Rótarstöðin minnir okkur á að tengja við ræturnar og gefur okkur samband við kraftinn sem býr í okkur. Það hvort þú upplifir öryggi í heiminum er nátengt því hversu mikið öryggi þú upplifðir í æsku. Ef hún er í ójafnvægi gætum við upplifað að við tilheyrum ekki - eigum okkur ekki rætur sem næra okkur. Það getur líka birst í stöðugu óöryggi um lífsafkomu - svo við slökum ekki á - heldur erum alltaf með hugann við að lifa af eða erum í krónísku streituástandi. Eins getur ójafnvægi í rótarstöð birst í stöðugum veikindum og alls kyns kvillum.  
 
Önnur orkustöðin heitir “Svadistana” á sanskrít sem þýðir  sætleiki eða dvalarstaður sjálfsins. Hérna tengjumst við flæði - eða skorti á flæði, sköpunarorkunni og leikgleðinni. Og hæfileikanum til að takast á við breytingar. Gremja eða gleði.
 
Þriðja orkustöðin gefur okkur sjálfstraust og meltingareldinn. Kraftinn til að melta bæði matinn og allt sem við upplifum. Sjálfstraust gefur okkur tilgang og sterk þriðja orkustöð gerir okkur kleyft að setja okkur markmið og ná þeim skref fyrir skref.
 
Hjartastöðin heitir “anahata” á sanskrít sem þýðir “ósnortin / ósærð”. Hún minnir okkur á að undir öllu sem hefur sært okkur í lífinu býr tær staður innra með okkur, tært hjarta sem haggast ekki hvað sem á dynur. Við getum valið að halda í það sem særði okkur eða sleppa því. Það að sleppa er samt ekki alltaf auðvelt og getur þurft tíma og þolinmæði. Hjartastöðin er eins og bolli sem heldur utan um lífið. Þegar við vöxum í hjartanu þá stækkar bollinn og rúmar meira, bæði gleði og sorg.
 
Efstu þrjár orkustöðvarnar eru meira andlegs eðlis. Þær tengja okkur við aðra vídd innra með okkur og gera okkur kleyft að upplifa ljósið sem við búum yfir. Við ræktum þær fyrst og fremst í gegnum hugleiðslu. Fimmta orkustöðin gefur okkur hæfileikann til að tjá æðri sannleika og hlusta í samkennd. Sjötta orkustöðin er líka sjötta skilningarvitið. Innsæið og hæfileikinn til að treysta okkar innri leiðsögn og visku. Sjöunda orkustöðin er svið sameiningar og tærleika.
 
Við búum yfir hæfileika til að leiðrétta og finna aftur jafnvægi. Ef við hlúum vel að garðinum innra með okkur þá verður lífið miklu ríkara, blómin ná að blómstra og ávextirnir verða sætari. Lífið öðlast dýpri tilgang og verður meira þess virði að lifa því.
 

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati


Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Töfraheimur líkamans og hjartans

Gleðilegt sumar! Það er svo skemmtilegt að sjá fuglana fylla himininn og heyra aftur líf í móanum. Ég er búin að njóta þeirra forréttinda að vera í jógaferð í sveitinni eftir páska. Það er ákaflega upplyftandi og endurnærandi að vera í samfélagi með öðrum sem eru líka að næra andann og finna fyrir lífinu í hjartanu.

Við lifum flesta daga í samfélagi þar sem allt gengur út á að hugsa og skipuleggja og komast niður listann af verkefnum. Þetta getur orðið til þess að við fjarlægjumst líkamann og gleymum hvernig það er að finna og hvíla í núinu.
 
Eftir góðan jógatíma eða nærandi stund í náttúrunni þá erum við vel tengd líkamanum og munum hvernig það er að njóta andartaksins. Það má segja að þetta sé eins og að fara á milli tveggja heima. Í þeim heimi sem samfélagið kallar okkur inn í, eigum við það til að gleyma því hvað skiptir okkur máli í lífinu. Þetta er heimur hugtaka og hugsana. Dvölin þar er oft hvorki nærandi né gefandi. En við komum heilmiklu í verk.
 
Þegar við náum að hvíla í andartakinu og njóta þá byrjum við að tengja við líkamann og hlusta á hvað er að gerast innra með okkur. Við hlustum betur á hvað það er sem við þurfum og eigum líka oft kærleiksríkari samskipti við okkar nánustu.
 
Ég finn það hjá mér að ef ég vil gefa því meira rými að njóta og vera þá þarf ég að velja það meðvitað því samfélagið hvetur mig ekki til þess. Ég þarf að gefa mér tíma til að standa upp frá því sem ég er að gera og hlusta eftir því hvað ég þarf.
 
Heimur líkamans og andartaksins kennir mér að hlusta á innsæið og njóta leiðsagnar kennarans innra með mér. Hann kennir mér að skapa og sleppa takinu á fullkomnunarpúkanum. Að sleppa takinu á spennu sem ég held í í líkamanum og í huganum. Líkaminn er svo ótrúlega spennandi staður að hvíla í. Hann býr yfir svo mörgum leyndardómum og ævintýralegum ókönnuðum löndum. 

Ég býð þér að koma og kanna þinn ævintýraheim. Að njóta og finna það sem líkaminn þinn vill segja þér. Nú eru að byrja ný námskeið hjá okkur í Andataki. Allir velkomnir!

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati
Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Santosha - að gera sér lífið að góðu

Í jóga erum við með hugtakið Santosha - sem þýðir ánægja, að gera sér hlutina að góðu.

Iðkun Santosha snýst um að rækta með sér þakklæti og að læra að meta það sem er.

  • Að horfa innan við girðinguna en ekki yfir hana. Að taka eftir hvað gerist innra með mér frekar en að vera upptekin af umhverfinu og viðbrögðum annarra.
  • Að draga úr þeirri venju að sækja í þægindi og það sem mér líkar vel og að forðast það sem mér finnst óþægilegt eða það sem mér líkar illa.
  • Að gefa ekki öðrum vald yfir eigin tilfinningalífi.
  • Að rækta með mér þakklæti.
  • Að næra friðsæla miðju – til dæmis í gegnum hugleiðslu.

Það að velja sátt og hamingju framyfir sveiflurnar þýðir samt ekki að við afneitum því hvernig okkur líður. Það er líka miklvægt að gefa tilfinningunum rými hvernig sem þær birtast. Til að halda í friðsældina gætum við þurft að stækka rýmið innra með okkur. Og hafa þannig pláss fyrir að líða ekki vel og vera samt sátt. Að hafa pláss fyrir erfiðu tilfinningarnar og jafnvel þakka fyrir þær og það sem þær eru að kenna okkur.

Ég hef sett mér þetta verkefni yfir páskana. Að skoða hvernig ég get búið til rými fyrir meira "Santosha" og notið allra litlu og stóru hlutanna sem lífið færir mér, hvernig sem þeir birtast. Ég býð þér að taka þátt í þessari áskorun með mér. Það væri gaman að heyra frá þér hvernig gengur.

Gleðilega páska!

 

Guðrún Darshan - jógakennari, hómópati og markþjálfi

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is


Veröldin í mjöðmunum

_DSF8772 copyJóga er ekki bara líkamsrækt. Við getum líka nýtt okkur jóga til að skoða veröldina innra með okkur og heimsækja staði og tilfinningar sem eru ekki alltaf aðgengileg í daglegu lífi. Við höfum undanfarið verið að skoða mjaðmirnar í jógatímunum okkar.

Stundum er sagt að mjaðmirnar geymi okkar viðkvæmustu tilfinningar. Þær sem við erum kannski síst til í að mæta og deila. Þess vegna kallar það á ákveðið hugrekki að setjast inn í mjaðmirnar og hlusta.

Við geymum oft ótta við framtíðina í mjöðmunum. Það að mæta framtíðinni með opinn og óttalausan huga kallar á góða jarðtengingu og samband við okkur sjálf og dýpstu hlutana af okkur sjálfum. Líka við óttann. Ef við reynum að bægja honum frá þá fær hann bara meira vald.

Sambandið okkar við aðra getur endurspeglast í mjöðmunum. Erum við tilbúin að mæta öðru fólki og koma til dyranna eins og við erum klædd eða viljum við fela þá hluta af okkur sem við höldum að þeim geðjist ekki að? Kynorkan okkar er í mjöðmunum. Krafturinn okkar. Erum við tilbúin að hleypa kraftinum okkar út og taka afleiðingunum? Hvaða tilfinningar hindra okkur í því að leyfa kraftinum okkar að flæða fram? Áföll geta setið í mjöðmunum. Meðganga og fæðing hefur djúp áhrif á mjaðmirnar og erfið fæðing getur setið í mjöðmunum.

Mjaðmirnar tengjast sambandinu þínu við aðra - en ekki síður sambandinu við okkur sjálf. Stífar mjaðmir geta bent til þess að við eigum erfitt með að opna okkur gagnvart öðrum og að elska okkur sjálf.

Mjaðmirnar tengjast annarri orkustöðinni. Svadistana. Önnur orkustöðin tengist kynorku, sköpun, gleði og hæfileikanum til þess að njóta og hvíla í núinu. Þegar önnur orkustöðin er stífluð hefur það áhrif á hæfileika okkar til að sleppa og leyfa hlutunum að flæða. Þegar við gerum jógastöður sem opna mjaðmirnar þá höfum við oft tilhneigingu til að spenna á móti og eiga erfitt með að gefa eftir inn í stöðuna. En ef við sýnum mjöðmunum þolinmæði og kærleika þá gefa þær eftir og geta opnað upp fyrir okkur nýjar víddir. Í gegnum það að opna mjaðmirnar getum við skoðað hvar mörkin okkar liggja, við getum skoðað hvaða tilfinningar koma upp og gefið þeim rými. Við getum skoðað hvað er að hindra okkur í að vera til staðar og njóta og við getum opnað stærri dyr inn í núið - inn í það að finna, njóta og vera.

Hvað leynist í þínum mjöðmum?

Jógatímarnir okkar í Bústaðakirkju eru opnir öllum að koma og prófa. Hér er hægt að lesa meira um tímana. Lífsorka, hamingja og hugleiðsla.

Guðrún Darshan, jógakennari, hómópati og markþjálfi

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is


Vökvaðu draumana þína

_DSF8870 copyNýtt ár 2019 er framundan með ný ævintýri og ný verkefni að takast á við. Ný tækifæri og ný fyrirheit. Ég settist niður á gamlárskvöld með fjölskyldunni minni og við skoðuðum hvað okkur fannst standa upp úr fyrir nýliðið ár og hvað við vildum hafa að leiðarljósi fyrir komandi ár.

Ég ákvað að hafa hjartað mitt að leiðarljósi á þessu komandi ári. Að gefa mér tíma til að hlusta á hjartað þegar ég er of hörð við sjálfa mig. Áður en ég svara án þess að hugsa og segi eitthvað sem ég sé eftir seinna. Að sýna sjálfri mér samkennd og hlýju og þá um leið get ég átt upplyftandi samskipti við aðra í kringum mig.

Talnaspeki ársins 2019 fjallar um mikilvægi þess að vera skapandi og að sjá möguleikana og tækifærin í kringum okkur. Að brosa í gegnum erfiðleikana og velja það hvernig við bregðumst við þeim aðstæðum sem lífið færir okkur. Og í stað þess að bíða eftir að hutirnir gerist, að koma okkur að verki, láta draumana rætast og skapa frið í verki - innra með okkur sjálfum og í heiminum í kringum okkur. Að hlusta djúpt og heyra leiðsögnina innra með okkur sjálfum.

Mér hættir stundum til að fresta draumunum mínum af því ég er hrædd um að mistakast. Eða mér finnst draumurinn of stór eða of venjulegur. Eða af því ég gef mér ekki tíma til þess. En ég veit líka að það er ekkert annað sem til þarf en að byrja, eitt skref í einu, eitt ófullkomið skref í einu. Að það er undir mér komið að eitthvað gerist í málunum og að það sem ég gef athygli vex og dafnar.

Það að elska sjálfa mig þýðir líka að ég geri mitt til að fyrirbyggja að ég festist í viðjum vanans. Samkennd með sjálfri mér kallar á líka á staðfestu. Að gefast ekki upp þó að á móti blási. Að halda áfram að vökva draumana mína í gegnum súrt og sætt.

"Lifðu með ásetning að leiðarljósi. Farðu út að mörkunum. Hlustaðu djúpt. Ræktaðu heilsuna. Leiktu þér af öllu hjarta. Hlæðu. Veldu án eftirsjár. Heiðraðu vini þína. Haltu áfram að læra. Gerðu það sem þú elskar. Lifðu fyrir þetta líf." Mary Ann Radmacher.

Námskeiðið "Vökvaðu draumana þína 2019" er stutt námskeið í byrjun árs þar sem við hlustum inn á við og skoðum hvað skiptir okkur máli og hvernig við ætlum að gefa því rými. Nánar um námskeiðið: Vökvaðu draumana þína

Guðrún Darshan - jógakennari, hómópati og markþjálfi

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is


Dýrmæt skref

Skjáskot-4Eitt af því sem ég hef lært í gegnum mína jógaiðkun er að þrátt fyrir áskoranir og erfiðleika þá á ég alltaf það sem þarf til að standast álagið. Ég þarf bara að muna eftir að nýta mér þær leiðir sem ég kann. En eins skrýtið og það virðist þá er það samt ekki alltaf auðvelt að koma mér á staðinn, að taka skrefið og fara í jóga, að setjast niður og hugleiða. Algengasta afsökunin sem hugurinn minn gefur mér er: "Ég hef ekki tíma." Þegar streitan og álagið eykst og þegar ég þarf mest á því að halda er stundum eins og hugurinn taki yfir og gefi mér upp allar mögulegar ástæður fyrir því að gera ekki það sem ég veit að hjálpar mér.

Ég hef oft séð það í mínu eigin lífi og annarra hvernig streita getur læðst aftan að okkur mjög hljóðlega. Þegar við erum ekki með skýr mörk á milli vinnu og heimilis. Þegar við erum alltaf að skjóta verkefnum inn á milli þegar það er laus stund. Þá fer það að verða munaður að eiga tíma fyrir okkur sjálf og njóta líðandi stundar. Ég fer að fá samviskubit þegar ég er ekki að "koma einhverju í verk". Þetta er oft mjög ómeðvitað en ég veit að það hefur djúp áhrif á mig. Að gera marga hluti í einu gæti virst spara tíma en rannsóknir sýna að það er mjög skaðlegt fyrir heilann. Það veikir minnið og eykur streitu.

Þegar ég næ ekki að höndla vel streitu fer hún að valda alls konar vandamálum eins og svefnleysi og meltingartruflunum. Hún getur valdið samskiptaerfiðleikum og jafnvel kvíða. Og venjur sem eru ekki að næra mig fara að taka yfir.

Jógaheimspekin gefur okkur mjög gagnlega sýn á streitu sem mér hefur fundist hjálpa mér mikið þegar lífið verður erfitt. Þegar álagið eykst eða þegar ég upplifi andlega eða líkamlega vanlíðan. Í grunninn á öllu jóga liggur sú trú að innra með okkur öllum sé kjarni sem er alltaf friðsæll, bjartur, fullur af gleði, kærleika og samkennd. Þessi kjarni býr yfir óendanlegri visku og hann getur ekki skaðast. Þessi kjarni er tæra sjálfið okkar, okkar sanna eðli eða Sálin.

Jóga þýðir eining. Að tengja saman mismunandi hluta af okkur sjálfum svo við upplifum okkur ekki tvístruð eða aðskilin frá öðrum. Í jóga og í djúpslökun fáum við að upplifa þessa uppsprettu innra með okkur. Um leið og við lærum að höndla betur álagið fáum við líka tækifæri til að skilja okkur sjálf í nýju ljósi og endurskoða hvernig við nálgumst lífið, hvað er mikilvægt og hvað ekki.

Ég hef í gegnum mína jógaiðkun lært að vera minn eigin sálfræðingur, lært að hlusta á sjálfa mig og fengið tækifæri til að vinna úr erfiðum hlutum. Lífið er ekki alltaf auðvelt en það er ómetanlegt að hafa aðgang að leiðum til að takast betur á við erfiðleika og finna eigin styrk. Og enn ómetanlegra að taka skrefið og nýta sér þær leiðir sem bjóðast. Hverjar eru þínar leiðir?

Ég býð þér að koma og prófa. Það er að byrja nýtt námskeið í Djúpslökun í dag. Enn eru örfá pláss laus. Sjá nánar hér. Og svo er námskeiðið Lífsorka, hamingja og hugleiðsla opið fyrir nýjum iðkendum. Þar erum við að skoða leiðir til að takast á við álag og streitu. Þetta eru tímar í Kundalini jóga og Gong slökun - fyrir innri styrk og jafnvægi. Nánar hér. Vertu hjartanlega velkomin-n að koma í prufutíma og upplifa af eigin raun.

Guðrún Darshan - jógakennari, hómópati og markþjálfi

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is

 


Ævintýri hversdagsins

_DSF8678 copyEin af mínum uppáhaldsfyrirmyndum er Lína Langsokkur. Hún kann þá list að að gera hvern dag að ævintýri og finna töfrana sem leynast undir hverjum steini ef vel er að gáð. Mér finnst mjög heillandi að skoða hvað það er sem fær okkur til að lifa lífinu til fulls og á sama tíma að halda jafnvægi. Hamingja er ekki endilega stöðug gleði heldur tengist hún líka hæfileikanum til að njóta þess sem er.

Við lifum á tímum sem einkennast af hraða og miklum breytingum. Það má segja að það sé lífsnauðsynlegt í dag að læra að lifa með álagi og streitu. Þetta er örugglega meginástæðan fyrir vinsældum jóga í dag og sem jógakennari hef ég vissulega kynnst þessari þörf. Eitt af því sem ég hef lært í gegnum jógaiðkun er að hæfileiki okkar til að standast álag vex til muna þegar okkur finnst við vera við stjórn.
 
Við búum í heimi sem að mörgu leiti kennir okkur að hlusta ekki á okkur sjálf, að hamingjuna sé að finna utan við okkur sjálf, að verðleikar okkar séu metnir í frammistöðu á prófum eða í verkefnum lífsins. Líf flestra í dag er komið úr takti við hjartsláttinn, við flæði lækjarins og óendanleika himinsins. Samt erum við að uppgötva meira og meira að þar liggja svörin. Djúpt í rótum okkar sjálfra.
 
Rithöfundurinn og félagsfræðingurinn Bréne Brown orðar þetta þannig: “Við lifum í menningarsamfélagi þar sem ríkir sterk tilfinning fyrir skorti. Við vöknum á morgnana, og við segjum “Ég svaf ekki nóg”. Og við leggjumst á koddann og segjum “ég kom ekki nógu miklu í verk”. Við erum aldrei nægilega grönn, nægilega stórkostleg eða nægilega góð – þangað til við ákveðum að við séum það.”

Ekkert fyrir utan okkur getur gefið okkur þá næringu sem við þurfum mest á að halda. Hún kemur innanfrá. Viska er ekki bara eitthvað sem við vitum og kunnum að segja frá – heldur að gera það sem þarf að gera og sækja orkuna innra með okkur – að kunna að tengja við uppsprettuna hið innra. Það er gjöfin frá þér til þín.

Guðrún Darshan, jógakennari og markþjálfi

Andartak - jóga og heilsa

gudrun@andartak.is

 


Gjafir sumarsins

4084594_mÞað er að koma haust. En sumarið er samt enn að senda geisla sína inn í hjörtu okkar og hlýja okkur og stríða á víxl. Ég er búin að njóta þess að vera í sveitinni undanfarið. Að fara í feluleik í skóginum, sækja salat í matjurtagarðinn og baka brauð með krökkunum yfir eldi á veröndinni á kvöldin. Að sitja úti eins og núna og skrifa, lesa og drekka í mig sólargeislana. Þegar sólin skín er eins og allt verði auðveldara. Líka það að finna fyrir kyrrðinni og heyra þytinn í laufinu. Og í rigningunni hjúfra ég mig bara lengra undir skyggnið og held áfram að njóta og anda og skrifa.

Þessar stundir eru svo verðmætar og halda áfram að næra mig inn í veturinn. Þegar ég fæ svona góða fjarlægð á verkefnin sem þarf að klára og tímapressuna sem fylgir álagi vetrarins þá man ég hvernig það er að hvíla svona vel í mér. Og þá geri ég mér grein fyrir því að þrátt fyrir góðan ásetning þá á ég það til mitt í álaginu að telja mér trú um að hraðinn innra með mér og eirðarlaus hugur séu óaðskiljanlegur hluti af mér.

Og í álaginu hætti ég að taka eftir því hvernig streituröddin innra með mér tekur völdin. Þessi sem ýtir mér áfram og segir mér að ég þurfi að koma meiru í verk, að þetta sé ekki nóg, að það sé ekki tími fyrir neitt slór. Þessi ósýnilegi yfirmaður sem aldrei virðist sáttur við frammistöðu mína. Ég hætti að taka eftir honum og bara hlýði.

Og nú þegar hugurinn er viðráðanlegur, þá sé ég skýrar en áður hvernig þessi fókus á árangur kemur úr mínum eigin huga. Og stafar af því að ég fer að trúa hugsunum mínum. Og þá finn ég líka hvernig það er jógaiðkunin mín og hugleiðslan sem halda mér gangandi í gegnum álagið. Sem minnir mig á að finna mig í stærra samhengi. Kennir mér smátt og smátt að vera ekki alveg svona auðtrúa á hugsanirnar mínar.

Við búum við sífellt meira álag. Meiri hraða. Allt þarf að gerast strax í gær og helst fyrr. Og af því það eru flestir í kringum okkur að glíma við þetta sama förum við að ímynda okkur að það sé eðlilegt og sjálfsagt að vera alltaf á hlaupum og að vera í streituástandi. En það þarf ekki að vera þannig.

Í því samfélagi sem við erum búin að skapa okkur er blátt áfram nauðsynlegt að kunna leiðir til þess að slaka á og næra andann. Og ég veit ekki hvar ég væri ef ég kynni ekki leiðir til að kyrra hugann og beina honum í nýjan farveg. Ég veit ekki neina gjöf sem er betri til að gefa sjálfri mér.

Andartak jóga- og heilsustöð

Guðrún Darshan - gudrun@anadartak.is


Að eignast andardráttinn

dreamstime_m_39899517"Þegar þú eignast andardráttinn þinn þá getur enginn rænt friðsæld þinni.”

Andardrátturinn er eitthvað sem flestir hugsa sjaldnast um í daglegu lífi. Hann bara er þarna. En samt getum við ekki lifað án hans nema í örstutta stund.
 
Ég á minningu frá ferðalagi með fjölskyldunni. Við sátum í aftursætinu í bílnum og vorum búin að keyra langa leið þegar systir mín sagði allt í einu upp úr þurru: “Mamma. Ég gerði svona (og svo andaði hún djúpt inn og út) og núna get ég ekki hætt því.”  Mér sem stórusystur fannst þetta mjög sniðugt og hló mikið að henni. Hún var að uppgötva að hún andaði.

Í jóga lærum við að taka eftir andardrættinum og finna þannig meðvitað fyrir lífinu og andartakinu. Þegar við öndum meðvitað förum við að finna að öndunin snýst ekki bara um líkamlega öndun heldur líka hinn fínlega þátt öndunar sem fyllir okkur af lífsorku. Við lærum að brjóta upp þann vana að horfa fram hjá önduninni.

Öndunin er lykill að því að ná valdi yfir huganum og að því að glíma við streitu og álag.

Öndun og hreyfing hennar tengist hreyfingu allra tilfinninga og hugsana. Margar af þeim hugleiðslum sem kenndar eru í Kundalini jóga ganga út á að ná valdi yfir andardrættinum. Til dæmis með því að fá okkur til að anda hægar eða halda andanum inni eða úti. Þetta styrkir lungun, eykur úthald. Auk þess að gefa okkur meira vald yfir huga og líkama. Hugurinn fylgir önduninni. 
 
Grunnurinn að orkumiklu og skapandi lífi býr í önduninni

Öndunin er mælikvarði á það hversu mikla orku við höfum til afnota daglega og hversu mikinn aukaforða við höfum ef neyðarástand skapast.
 
Algengt er að anda grunnt og upp í efra brjóstið. Ef við lærum að anda djúpt og til fulls er það líklega öflugasta tækið sem við höfum af öllu því sem við getum gert til að rækta okkur sjálf. Til að hækka vitundina og til að auka heilbrigði, lífsorku og tengingu við annað fólk.

Löng djúp öndun eykur súrefnisupptöku og hreinsar lungun af eiturefnum sem geta valdið sýkingum og sjúkdómum.
 
Í langri djúpri öndun öndum við fyrst niður í kviðinn, svo í mitt brjóstið og endum á að fylla efsta hluta brjóstsins. Leyfðu kviðnum að víkka út í allar áttir eins og að fylla blöðru með lofti. Ef magavöðvarnir eru spenntir, reyndu þá meðvitað að slaka a þeim og leyfa þeim að þenjast út. Með því að þjálfa þig í þessu getur þú víkkað út lungnaþan þitt margfalt og öðlast úthald og þolinmæði.

Djúp öndun mýkir upp brynjuna sem við höfum myndað til að verja okkur. Við förum að finna betur hvernig okkur líður. Við eigum auðveldara með að njóta andartaksins og tengja við fólkið og aðstæðurnar í lífi okkar.

Tilfinningar koma og fara eins og ský á vindasömum himni. Meðvituð öndun er akkeri mitt. Thich Nhat Hanh.

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak - jóga og heilsa

gudrun@andartak.is


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband