Jólameltingin

Á jólunum komum við saman til að njóta samvista við okkar nánustu, styrkja böndin sem tengja okkur og borða góðan mat. Hér á eftir fara nokkrir punktar úr viskubrunni jóga og ayurveda til að hjálpa okkur að melta betur jólamatinn, sem stundum er dálítið þungur í maga. Þá getum við betur notið hans með góðri samvisku. 

Engifer fyrir ónæmiskerfið og meltinguna
Á þessum árstíma erum við gjarnari á að fá kvef. Það er góð venja að byrja daginn á volgu vatni til að vökva likamann eftir nóttina og síðan bolla af fersku og kraftmiklu engifertei. Ef þú lætur engiferið sjóða í vatni í nokkrar mínútur þá verður það kraftmeira. Engiferte styrkir ónæmiskerfið og meltinguna.
Þú gætir síðan fengið þér annan bolla rétt fyrir stórar máltíðir. Ég ferðast stundum með te á hitabrúsa með mér þegar ég fer í heimsóknir. 
Annað gott ráð er að skera þunna sneið af fersku engiferi á stærð við nögl á þumalfingri og setja 2 kristalla af grófu salti (eða dálítið af venjulegu salti) ofan á og 3-5 dropa af sítrónusafa. Settu þetta svo í munninn og tyggðu eins lengi og þú getur. Drekktu nokkra vatnssopa og borðaðu svo matinn beint á eftir. Þetta örvar meltinguna og maginn verður ánægður. 

Vænn skammtur af grænmeti
Grænmeti er auðmeltara en kornmeti, kjöt og fiskur. Það blandast líka vel með öllum mat. Hálfur diskur af grænmeti og hálfur diskur af öllu hinu er fínt hlutfall.

Þú þarft ekki að klára allt á diskinum
Það er stundum erfitt að hætta þegar maturinn er góður. En þegar við borðum yfir okkur þá myndast ama (eiturefni) í líkamanum. Ama sést á tungunni sem skán á morgnana. Ég mæli með að eiga tungusköfu. 

Drekktu volgt eða heitt vatn
Ekki drekka kalt vatn í kring um máltíðir. Best er að drekka volgt eða jafnvel heitt vatn. Og að dreypa á volgu vatni gegn um daginn. Það er mikilvægt að gefa líkamanum nægan vökva til að halda meltingunni gangandi og heitt vatn er þúsund sinnum betra en kalt vatn. 
Hvað gerist ef við setjum vatn á eld? Eldurinn deyr út. Það sama gerist í meltingunni. Meltingareldurinn slokkar ef við drekkum of mikið í kringum máltíðir og ef við drekkum ískalda drykki. Þá sitjum við uppi með lélega meltingu og illa meltan mat (sem aftur leiðir af sér meira ama).
Ef þú drekkur vín með matnum, fáðu þér þá glas af volgu vatni (stofuheitt) fyrir hvert glas af víni sem þú drekkur. Og fáðu þér fennelte yfir daginn til að minnka sýruna í líkamanum.
 
Ef þú borðar yfir þig
Eftir stóra máltíð er gott að tyggja teskeið af fennelfræjum eins lengi og þú getur til að auka framleiðslu á munnvatni. Drekktu svo 1-2 sopa af vatni (ekki meira). Þú getur líka fengið þér fennelte háftíma eftir matinn. Fennel hjálpar meltingunni.  
Næsta dag geturðu byrjað á að drekka engiferte. Best er að borða ekki fyrr en þú finnur til svengdar. Það gæti þýtt að þú þurfir að sleppa einni eða tveimur máltíðum. Og borða síðan létta súpu eða ávexti. 

Ef þú hefur tilhneigingu til að finna til streitu á jólunum, er gott að muna að tilfinningar hafa gríðarleg áhrif á meltinguna. Til að forðast streitu og til að róa tilfinningarnar er gott að huga að önduninni. Til dæmis gera öndunaræfingar, eins og að anda hægt og djúpt og tæma alveg á fráöndun. Dagleg hugleiðsla er líka dásamlegur félagi að eiga í lífinu. Og gerðu svo allt sem gerir þig hamingjusama(n). Jóga, tónlist, söng, dans, hitta vini, hlæja, lesa, fara í göngutúra eða sund. Það sem virkar fyrir þig. Taktu frá tímann og leyfðu þér að eiga þessar stundir! Það er þess virði. Það græða allir á því ef það er ró, hamingja og fríður í hjarta þínu og í kringum þig. 

Gleðilega hátið! 

Guðrún Arnalds, jógakennari, heildrænn heilsuráðgjafi og markþjálfi. Leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Þakklæti bætir lífið

Í dag er þakkargjörðardagur haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum. Þakklæti er sú dyggð sem hefur einna mest áhrif á hamingju okkar. Þakklæti hjálpar okkur að upplifa jákvæðar tilfinningar, lifa við betri heilsu, takast betur á við streitu og byggja upp sterkari sambönd. Hugmyndin um dag til heiðurs þakklæti er því mjög vel viðeigandi. 

Undanfarin ár hefur þakklæti mikið verið rannsakað og áhrif þess á lífshamingjuna. Rannsóknir sýna að þeir sem finna fyrir þakklæti eiga auðveldara með að takast á við álag, búa yfir ríkara sviði jákvæðra tilfinninga og eiga auðveldara með að ná markmiðum sínum. Vísindamenn hafa fundið beina tengingu á milli þakklætis og góðrar heilsu. Að tjá þakklæti er því einföld og aðgengileg leið til að bæta líðan okkar. 

Með þakklæti erum við að meta það góða sem við höfum í lífinu. Þegar við þökkum fyrir verðum við meðvituð um að við erum hluti af stærri heild. Hvort sem það er tenging við annað fólk, við náttúruna eða við æðri máttarvöld.

Við getum upplifað þakklæti í tengslum við fortíðina með því að rifja upp góðar minningar og þakka fyrir það liðna. Við getum líka þakkað fyrir það sem er hér og nú. Sem minnir okkur á að taka ekki neinu sem sjálfsögðum hlut. Og við getum þakkað fyrir framtíðina. Og þannig dregið fram viðhorf bjartsýni og jafnvel vitund um að við getum skapað okkar eigin framtíð.

Góð leið til að uppskera jákvæð áhrif þakklætis er að halda þakklætisdagbók eða lista yfir það sem þú þakkar fyrir daglega. Í einni rannsókn kom fram að þeir sem héldu þakklætisdagbók upplifðu meiri hamingju í lífinu. Þeir stunduðu meiri líkamsrækt og þurftu sjaldnar að leita til læknis.

Þegar við höldum þakklætisdagbók er aðalatriðið að geta fundið eitthvað til þess að þakka fyrir á hverjum degi. Jafnvel þegar dagurinn hefur verið erfiður. Stundum er það meira augljóst hvað við höfum til að þakka fyrir og aðra daga getum við þurft að leita aðeins meira og finna lítil atriði sem okkur myndi annars yfirsjást. 

Við í minni fjölskyldu tökum stundum hring við kvöldverðarborðið og tölum um það sem við erum þakklát fyrir þann daginn. Það er líka hægt að gera þetta við morgunverðarborðið og tala um tilhlökkunarefni dagsins. Og svo mætti líka taka stund þegar við erum komin upp í rúm, eða með börnunum okkar um leið og við bjóðum góða nótt. 

Þakklæti er eiginleiki sem við getum byrjað að rækta í okkur sjálfum hvar og hvenær sem er. Hvað hefur þú til að þakka fyrir hér og nú? 

 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Að kveikja ljósið í skammdeginu

Skammdegið er skollið á. Það er misjafnt hversu vel það fer í okkur. Flestir finna fyrir einhverjum breytingum á líðan eftir árstíðum. Þegar dagarnir styttast og skuggarnir lengjast getur verið átak að kveikja bjartsýnisneistann á morgnana. Þá er dýrmætt að eiga aðgang að leiðum til að nálgast ljósið innra með okkur. 

Rannsóknir sýna að myrkrið getur skapað ójafnvægi í starfsemi hormóna og þá sérstaklega þeim sem tengjast svefni og upplifun á gleði. Samkvæmt Ayurveda, systurvísindum jógafræðanna er haustið tími sem við þurfum að vinna í að jarðtengja okkur, finna takt í tilverunni og kyrra og næra hugann.

Jóga býr yfir ótal verkfærum þegar kemur að því að takast á við skammdegið. Við komum jafnvægi á innri kerfi líkamans og finnum lífsorkunni farveg. Í kundalini jóga leggjum við sérstaka áherslu á innkirtlakerfið og hormónana með taktföstum hreyfingum í takti við andardráttinn og með öndunaræfingum sem endurnæra og slaka.

Einn vinur minn og jógi segir að til að lifa í takti við okkar sanna eðli, þurfum við að vera með klókan nafla, opið hjarta og tómt höfuð. Það getur svo sannarlega verið gott að geta tæmt hugann og fyllt hjartað, eins og gerist til dæmis þegar við fáum gott hláturskast. 

Í jóga og hugleiðslu erum við í raun ekki beinlínis að að tæma hugann heldur má kannski segja að við séum að beina huganum úr því að vera eins og óreglulegur vindur eða geysandi stormur af hugsunum, eins og gerist þegar við verðum stressuð, yfir í að vera eins og hjalandi lækur eða niðandi fljót.

Klókur nafli vísar til þess að við séum með vakandi samband við visku naflans. Naflinn er miðja líkamans. Kjarninn okkar. Allar orkubrautir líkamans liggja í gegn um naflann. Þegar orkubrautirnar opnast  kemur það fram í líkamlegu og andlegu jafnvægi og við finnum aukna gleði og vellíðan. Í jóga erum við því að veita lífsorkunni og huganum í farveg þar sem þau geta flætt mjúklega.

Í skammdeginu er sérstaklega mikilvægt að hlúa vel að okkur sjálfum. Mér finnst það hjálpa mér ef ég passa að grípa birtuna þegar hún gefst og fara í góðan göngutúr. Mér finnst líka mikilvægt að hafa eitthvað til að hlakka til og að njóta samvista við þá sem mér þykir vænt um. Að tendra ljósið í sjálfri mér og halda neistanum vakandi. Bæði í samskiptum við aðra og ekki síst við sjálfa mig.

 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Naflinn og rætur lífsorkunnar

Þegar haustar og laufin eru fallin af trjánum verður það svo sýnilegt að lífsorka trésins býr ekki í laufum þess. Trén eiga sér heilan heim sem við sjáum ekki. Það er sagt að heilbrigði trés endurspeglist í rótarkerfi þess. 
 
Í hávaða heimsins og hraða tímans virðast flestir vera að glíma við einhvers konar þreytu eða streitueinkenni. Og fylgifiska á borð við einbeitingarskort, óþolinmæði og skort á gleði. Lífsorka er held ég það sem við þráum mest að finna meira af.
 
Jógafræðin kenna okkur að lífsorka mannsins búi í naflanum. Naflinn er þungamiðja líkamans, miðja vegu milli hvirfils og ilja. Þegar við tengjum við naflann þá fáum við líka samband við kjarnann í okkur sjálfum, visku sem leiðbeinir okkur. 
 
Þessi miðja líkamans á sér ýmis heiti. Í austrænum bardagalistum er talað um Tanden eða Hara sem merkir hafsjór af orku. Megingjörð, belti Þórs gaf honum yfirnáttúrulegan styrk. Í jóga tölum við um naflann eða naflapunktinn. Allar orkubrautir líkamans liggja þarna í gegn. Gott jafnvægi í naflanum hefur áhrif á allt orkuflæði líkamans og heilbrigði bæði í huga og hjarta. Þegar við setjumst inn í miðjuna fáum við rými frá flækjum hugans og hjartans og getum hvílt í okkur sjálfum. 
 
Barn í móðurkviði fær lífsorkuna frá móðurinni í gegn um naflann. Naflinn er það fyrsta sem þroskast hjá fóstrinu. Eftir það þróast hjartað og síðar heilinn. Naflinn er því eins konar kjarni. Miðpunktur sem allur líkaminn vex upp frá. Naflinn er ræturnar og önnur líkamskerfi verða að stofnum og greinum trésins. Ef við viljum finna kyrrð er gott að setjast við rætur trésins, við rætur okkar sjálfra. 

Auk þess að vera uppspretta lífsorkunnar er sagt að naflinn geti vísað okkur á sálina. Indverski kennarinn Osho, segir um naflann: „Mikilvægasta svæðið í líkama mannsins er naflinn. Blóm þekkingar blómstra í heilanum. Blóm kærleikans blómstra í hjartanu. Það eru þessi blóm sem ginna okkur og fá okkur til að halda að þau séu allt. En rætur mannslíkamans og lífsorka eru í naflanum. Þar blómstra engin blóm. Ræturnar eru ósýnilegar. Naflinn er hins vegar eina hliðið sem vísar að sálinni“.
 
Osho heldur áfram: „Menntun barna snýr að mestu að heilanum frá upphafi skólagöngu. Það er hvergi í heiminum boðið upp á menntun um naflann. Öll menntun snýst um heilann því blómin blómstra þar, svo hann verður stærri og stærri. Og rætur okkar halda áfram að minnka. Lífsorkan flæðir því af sífellt veikari mætti og sambandið við sálina verður veikt". 

Þegar ég sest við rætur trésins innra með mér skynja ég djúpa kyrrð. Þögn sem er á hreyfingu. Tón sem ómar á bak við allt sem er. Þessi ómandi kyrrð er þarna alltaf. Líka þegar ég tek ekki eftir henni. Líka þegar ég er týnd í hraða nútímans. Eftirá kem ég til baka endurnærð og í traustara sambandi við veruna í mér. 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Styrkur þagnarinnar

Þögn á sér marga liti og tóna. Stundum er þögnin þrúgandi og stundum spyrjandi. Stundum er hún full af innra skvaldri, og öðrum stundum fylgir henni einmanatilfinning. En þögnin getur líka verið djúp og full af kyrrð. 

Við getum styrkt kyrrðina innra með okkur eins og við styrkjum vöðva. Samskipti okkar við aðra verða mun ánægjulegri þegar við ræktum þessa kyrrð sem er okkur í raun eðlislæg. Í okkar háværa heimi er það bæði erfiðara en líka nauðsynlegra en nokkru sinni að eiga aðgang að djúpri alltumlykjandi þögn. 
 
Í kundalini jóga lærum við að rækta með okkur innri stöðugleika, vellíðan og kyrrð í gegnum það að hreyfa okkur í takti við öndunina þangað til hugurinn hefur hægt á sér. Þá getum við farið að njóta þess að vera með okkur sjálfum.
 
Hugleiðsla eftir jóga hjálpar okkur að finna þessa djúpu þögn sem nærir okkur og verndar fyrir neikvæðni hugans og utanaðkomandi áreiti. Hún gerir okkur kleyft að hreinsa undirvitundina svo við getum sleppt því sem við höfum ekki náð að vinna úr í lífinu. Hvort sem er af völdum áfalla eða álags. Hugurinn verður meira skapandi og við förum að geta betur stýrt venjum okkar. 
 
Við þurfum ekki að vera liðug eða sérstaklega þolinmóð til þess að njóta  þess að fara í jóga. En árangurinn er sátt og vellíðan,  aukinn styrkur bæði hið ytra og innra.  

Þegar ég baða mig í þögninni verður hugurinn móttækilegri fyrir fegurð og gleði. Lífið verður áhugaverðara, veröldin stækkar og það birtir til.  

 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Samkennd

Hluttekning eða samkennd er hæfileikinn til að sjá hvernig öðrum líður. Að finna til með öðrum og vera til staðar fyrir fólkið í kring um okkur. Ólíkt vorkunnsemi sem er örlítið dæmandi þá er samkennd ekki með fordóma. Moshim Hamid rithöfundur, orðaði það svona: "Hluttekning er að finna bergmál af annarri manneskju í sér." Til að finna sanna hluttekningu þurfum við að rækta með okkur hæfileikann til þess að mæta öðrum þar sem þeir eru.

Þegar við sýnum samkennd hefur það jákvæð áhrif, ekki bara á fólkið í kring um okkur heldur hefur það djúp áhrif á okkur sjálf. Rannsóknir sýna að samkennd getur bætt sambönd og að hún styrkir sömuleiðis sköpunarkraftinn, almenna heilsu og vellíðan. Rannsóknir sýna líka að minnkuð samkennd stafar oft af þáttum sem draga úr mannlegum samskiptum. Til dæmis tækjanotkun.
 
Það er beint samband á milli streitu og hæfileika okkar til að sýna samkennd. Þau svæði í heilanum sem stýra streituviðbrögðum hafa líka að gera með samkennd og tengsl. Streita gerir okkur erfitt fyrir að hugsa skýrt og bregðast við hlýlega. Mikil streita lokar þróaðri svæðum í heilanum. Krónísk streita breytir í raun líkamsstarfsemi okkar og er rót ýmissa sjúkdóma. Þeim mun meira sem streitan eykst, því meira dregur úr hæfileika okkar til þess að sýna samkennd og að vera skapandi.  
Þegar við iðkum jóga erum við að efla hæfileikann til að vera tengd okkur sjálfum og þar af leiðandi getum við átt dýpri tengingu við aðra.
 
"Hluttekning er að koma þessum mikilvægu skilaboðum til skila. Þú ert ekki ein / einn." Brene Brown. 
 
Það hversu mikla samkennd við sýnum öðrum er yfirleitt nátengt því hversu vel okkur gengur að sýna okkur sjálfum samkennd og mildi. Sjálfsgagnrýni er oft mjög falin og ómeðvituð. Það er svo mikilvægt að minna okkur sjálf á að við erum ekki ein. Og að við erum ekki ein um að líða svona eins og okkur líður. Að við getum leitað stuðnings hjá öðrum. Að við þurfum ekki að vera fullkomin til þess að vera elskuð og meðtekin. Við gerum oft mun meiri kröfur til okkar sjálfra en til annarra. Sjálfsmildi er dýrmætur eiginleiki sem nýtist bæði okkur sjálfum og öðrum. Hvernig gengur þér að hafa þolinmæði gagnvart þér þegar álagið eykst? Að taka eftir þegar innri gagnrýnandinn tekur yfir? Og að hafa samkennd með þér þegar erfiðar tilfinningar skjóta upp kollinum? 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Jafnvægi

Ég bý svo vel að eiga matjurtagarð. Á þessum árstíma er svo dásamlegt að geta hlaupið út í garð og sótt mér ferskt brokkolí og nýsprottnar gulrætur í soðið. Mér finnst það mikil forréttindi að geta notið gjafmildi jarðar svona milliliðalaust. 
 
Á föstudaginn kemur eru jafndægur að hausti. Þá skín sólin beint á miðbaug og dagur er nokkurn veginn jafn langur nótt alls staðar á jörðinni. Birta og myrkur hafa fundið sér jafnvægispunkt. Yin og yang dansa saman í jöfnum styrk.
 
Hér áður fyrr skiptist árið í fjórar mikilvægar hátíðir, vetrar- og sumarsólstöður og jafndægur að vori og hausti. Árið skiptist í misseri veturs og sumars. Haustjafndægur voru á norðurhveli hátíð uppskeru og allsnægta og tími til að fagna fræjum lífsins, fræjum sem yrði sáð fyrir uppskeru næsta árs. Þau voru þannig í nánum tengslum við vonir og drauma um lífvænlega framtíð. Þetta var tími til að safna forða fyrir veturinn og bóndinn gerði áætlun um það hversu mikið fé hann gat haft á húsi, byggt á heyforða sumarsins. 
 
Við sem búum í malbikaðri borg og upphituðum húsum finnum ekki jafn sterkt fyrir hringrás ársins eins og forfeður okkar. En á haustin fara nú samt börnin aftur í skólann og hlutirnir færast í fastari skorður. Við hér á norðurhveli finnum fyrir vindum haustsins og skuggum sem taka að lengjast. Við tökum til í garðinum, kaupum vetrargalla á börnin og gerum okkur klár til að taka á móti fyrstu lægðum vetrarins.  
 
Haustið er góður tími til að búa okkur undir veturinn og meta hversu mikla krafta við höfum fyrir verkefnin framundan. Að velja vel í hvað við eyðum orkunni og hlúa vel að okkur. 
 
Haustjafndægur minna okkur á að finna jafnvægi í lífinu. Við getum ræktað með okkur jafnvægi með því að gefa jafnan gaum að framkvæmd og slökun, með því að borða næringarríka fæðu og gefa meltingunni hvíld þess á milli. Með því að hlusta á þarfir okkar til að vera ein með okkur sjálfum og að hlusta um leið á þörfina fyrir félagsskap. Að nærast hið innra sem ytra. 
 
Í jóga erum við alltaf að vinna í að koma á jafnvægi. Jafnvægi á milli prana og apana, prana er lífsorkan og apana er sú orka sem við þurfum að hafa til að hreinsa út og losa okkur við úrgang. Jafnvægi á milli ida og pingala sem eru tvær orkubrautir sem liggja upp hryggsúluna. Ida stendur fyrir innsæi og sköpun, móttækileika og flæði. Fyrir slökun og dýpt kyrrðar. Eiginleikar sem eru stundum sagðir minna á tunglið. Pingala stendur fyrir framkvæmdakraft og hita, einbeitingu, útrás fyrir umframorku og skýra stefnu. Eiginleikar Pingala eru sagðir tilheyra sólinni. Allt jóga gengur út á að koma jafnvægi á milli andstæðra póla, sólar og tungls, himins og jarðar, ljóss og myrkurs. Að virkja krafta okkar svo við getum hljómað saman sem ein heild. 

Námskeiðið Lífið í jafnvægi er ferðalag í gegn um orkustöðvarnar þar sem við vinnum í að koma jafnvægi á hverja og eina þeirra í gegn um jóga, hugleiðslu og Gong slökun.

Orkustöðvarnar endurspegla mismunandi þætti lífsins og starfsemi innkirtlanna. 

  • Rótarstöðin stendur fyrir jörð og öryggi og tilfinningu fyrir að tilheyra. Streita og áföll geta haft djúp áhrif á tilfinningu okkar fyrir öryggi og gert okkur eirðarlaus og úr tengslum við líkamann og jörðina. 
  • Magastöðin tengist sköpun og flæði. Hún endurspeglar kynorkuna okkar og hæfileikanum til að tilfinningarnar okkar og vera með þeim í líkamanum. 
  • Þriðja orkustöð gefur okkur sjálfsöryggi og styrk. Ef við gefum henni gaum og nærum hana getur hún  leitt okkur út úr kvíða og þunglyndi og inn í framkvæmdakraft og sjálfstraust. 
  • Hjartastöðin er stöð kærleika og allsnægta. Og djúprar öndunar. 
  • Hálsstöð gefur okkur opna tjáningu og hlustun. Við lærum að tjá sannleikann og vera tilbúin að heyra hann. 
  • Ennisstöð gefur okkur innsæi og kyrrð. Og skýra sýn. 
  • Hvirfilstöð færir okkur einingu og samtal við andlegar víddir.

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Að virkja uppsprettu lífsorkunnar

Gott jafnvægi, seigla í lífsins ólgusjó, lífsgleði og sátt. Friðsælt hjarta. Öll viljum við geta höndlað hamingjuna þó ekki sé nema einstaka sinnum inn á milli. Það er svo margt sem hefur áhrif á það hvort okkur líður vel og hvernig okkur gengur að takast á við álag og erfiðu kaflana í lífinu. 
 
Þegar ég fór fyrst að stunda kundalini jóga þá fann ég mjög fljótt aukið sjálfstraust og innri styrk. Ég tengdi þessa breytingu við tilfinningu fyrir að tilheyra einhverju stærra en ég. Ég upplifði aukið orkuflæði í líkamanum og mér fannst ég fá samband við kjarnann í sjálfri mér, miðjuna, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þungamiðja líkamans er í naflanum og þar fáum við aðgang að orkuuppsprettunni okkar. Þegar ég fór að vinna með þetta samband við naflann og að styrkja miðjuna færðist jörðin nær og heimurinn stækkaði. Ég fór að finna fyrir seiglu og stöðugleika. Lífið stækkaði og varð dýpra. 
 
Í jóga tölum við um naflann eða naflapunktinn. Í austrænum bardagalistum er talað um Tan Den eða hara sem merkir hafsjór af orku. Megingjörð, belti Þórs gaf honum yfirnáttúrulegan styrk. Í jóga er talað um að við sækjum kraftinn okkar í naflapunktinn. Ef við ætlum að beita okkur rétt og hlýða lögmálum líkamans þá er mikilvægt að eiga samband við naflann. Allar orkubrautir líkamans liggja þarna í gegn. Gott jafnvægi í naflanum hefur áhrif á allt orkuflæði líkamans. Í móðurkviði fáum við næringu í gegn um naflastrenginn. Þegar klippt er á hann missum við sambandið við þessa mikilvægu orkuuppsprettu. Það má segja að naflinn sé ósýnilegt líffæri sem hefur alltaf verið innra með þér. Kjarni sem stækkar ef þú sýnir honum athygli. Þessi orkuuppspretta er sofandi nema þú virkir hana. 
 
Naflinn er hluti af þriðju orkustöðinni. Hún tengist sjálfstrausti og innri styrk. Og hæfileikanum til að melta. Ef hún er í ójafnvægi getur það til dæmis birst í fullkomnunaráráttu og tilhneigingu til að vantreysta sjálfum sér og í sjálfsgagnrýni. Við gætum átt erfitt með reiðistjórnun. Lágt sjálfsmat, erfiðleikar við að taka ákvarðanir, þörf fyrir að stjórnast í öðrum eða þegar við leyfum öðrum að stjórna okkur eru allt merki um ójafnvægi í þriðju orkustöð. 
 
Við erum öll miðja alheimsins. Kjarninn í okkur er aðeins til sem hluti af stærri heild og stærri heild er aðeins til sem hluti af kjarnanum. Þetta er leyndardómur sem ekki er hægt að leysa. Aðeins að upplifa. 


Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Augu líkamans

Það eru til ótal margar bækur um orkustöðvarnar. Margir listar yfir það hvað tilheyrir hverri orkustöð. En þær segja þér ekki hvernig þú skynjar lífið. Ef þú vilt koma jafnvægi á þínar eigin orkustöðvar þá þarftu að fara inn á við og upplifa. Að tengja við lífið sem þú hefur lifað og hvernig það hefur leitt þig á þann stað sem þú ert á núna. Orkustöðvarnar eru fyrir mér eins og mismunandi víddir sem við getum horft á líf okkar í gegn um, eins og prismi sem sýnir okkur hina mörgu liti lífsins og hvar má fægja betur glerið sem við horfum á heiminn í gegn um. Hvernig áföllin í lífinu hafa mótað okkur og skekkt myndina. 
 
Fyrsta orkustöðin stendur fyrir jörð. Öryggi, stöðugleika, næringu. Eins og rætur trésins sem skapa grunn að heilbrigði þess. Hvar liggja þínar rætur og hvernig er samband þitt við þær? Hvernig hafa áföllin þín veikt ræturnar og hvernig breyttist viðhorf þitt til lífsins við það? Hvernig tilfinning er það að hvíla í sterkum rótum og finna til öryggis? Kannski áttu minningar úr æsku þar sem þú upplifðir öryggi og stöðugleika. Kannski geturðu tengt við náttúruna og beðið hana að hjálpa þér að muna hvernig tilfinning það er að hvíla í sér, að vera stöðug og treysta lífinu. Hvernig gengur þér að vera þitt eigið foreldri og vera til staðar fyrir þig á uppbyggjandi hátt? Allt þetta eru spurningar sem geta hjálpað okkur að skoða samband okkar við fyrstu orkustöðina.
 
Þegar ég hlusta og skynja ræturnar mínar þá fer ég ósjálfrátt niður lærin og í mjaðmirnar. Mjaðmirnar eru eins og skál sem heldur utan um lífið. Utan um ævintýrið og öryggiðUmgjörð utan um lífið. Ég finn konu sem er dugleg og sterk. Jörðin kemur upp á móti henni. Hún gefur takt og dansar taktinn. Hún gengur og finnst gaman að framkvæma. Ég finn líka litla stelpu með sterka fætur. Hún á sér stað í líkamanum. Hún horfir á heiminn, ekki bara gegn um augun heldur allan líkamann. Hún er ekki mikið að velta fyrir sér hlutunum. Hún er bara hér og nú. Hún á heiminn.
 
Streita er í raun form af ótta. Óöryggi og skortur á jörð. Við missum sambandið við náttúruna. Förum að aðskilja okkur frá henni og finnast við vera ein og þurfa að gera allt án hjálpar. Um leið og ég skynja öryggið sem býr í líkamanum þá fylgir því forvitni. Löngun til að kanna heiminn og tengja við annað fólk. Ég kem út úr því að vera frosin yfir í að flæða. Kem úr því að vera hrædd yfir í að finna styrk og tilgang og nýja möguleika. Ég anda að mér fersku lofti, tilbúin að takast á við áskoranir lífsins. 
 
Um leið og ég tengi við veruna í mér, þessa sem veit hvað hún á að vera - eins og birkitréð sem veit hvernig á að vera birkitré þá verður allt svo einfalt og skýrt. Þegar við tengjum við kjarnann tengjumst við um leið verunni í okkur sjálfum. Við förum að horfa út, ekki bara um augun í höfðinu heldur líka augun í maganum og í öllum líkamanum. Þegar við skynjum heiminn á þennan hátt færist jörðin nær. Heimurinn verður einfaldari og meira til í að leika sér. Við upplifum okkur örugg og nærð og vitum að við tilheyrum náttúrunni og lífinu. 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 

 


Regnbogabrúin milli himins og jarðar

"Jógaheimspekin kennir okkur að snákagyðjan Kundalini standi fyrir þróun lífsorkunnar innra með hverri manneskju. Hún vaknar af svefni sínum í jörðinni til að dansa sér leið í gegn um hverja orkustöð og endurreisa regnbogann sem yfirnáttúrulega brú milli efnis og vitundar." (Anodea Judith)

Allt jóga miðar að því að vekja Kundalini orkuna sem annars liggur í dvala við rætur hryggjarins. Kundalini er vitundin okkar, tengingin við sálina. Við getum sagt að hún sé "lifandi brunnur hins andlega seims", uppsprettan sem nærir okkur og lýsir okkur leið. Andleg vakning er ekki endilega eitthvað sem við getum valið eða stýrt. Við getum búið til góðar og öruggar aðstæður fyrir hana með því að skapa jafnvægi og opna flæði lífsorkunnar um líkama og huga og tengingu okkar við andann. Á leiðinni getum við notið viskunnar sem fylgir því að fara inn á við og vera í nærveru okkar sjálfra. Í nærveru stóra og stöðuga sjálfsins sem býr innra með okkur.

Flestir fara í jóga til að kyrra hugann og finna friðsæld. Og til að styrkja og koma jafnvægi á líkamann. Andleg vakning er eitthvað sem ekki margir hafa tíma fyrir í dag. En hún er vissulega bónus sem getur fylgt með. Hún getur komið á margs konar formi en hjá flestum fylgir henni tilfinning fyrir að tilheyra einhverju stærra, aukinn friður og jafnaðargeð í gegn um átök lífsins. Og endurheimtur hæfileiki til að njóta þess sem er. Við vitum að við erum í núinu þegar við erum farin að brosa ósjálfrátt og án tilefnis.

Orkustöðvarnar eiga sér samsvörun í vestrænni læknisfræði í innkirtlunum. Líkamlegt svið hverrar orkustöðvar endurspeglast í samsvarandi innkirtli. Um leið og við komum jafnvægi á orkustöðvarnar komum við líka jafnvægi á innkirtlana sem eru stundum kallaðir verndarar heilsunnar. Hljómsveitarstjórar líkamans sem stýra líðan okkar og innra jafnvægi.

Að fara yfir Regnbogabrúna er myndlíking fyrir þróun vitundarinnar.

Við þekkjum söguna um gullið við enda regnbogans, sem stundum er sagður vera tákn fyrir Heilagan kaleik sem geymdi endurnýjun og fyllingu.

Regnboginn er í flestum menningarsamfélögum tákn fyrir von, tenging milli himins og jarðar, tákn um samhljóm og frið. Á tyrknesku merkir orðið regnbogi brú. Í norrænni goðafræði tengir regnbogabrúin Bifröst heim Goða og manna. Á dómsdegi er sagt að Bifröst muni brotna niður og eyða að eilífu tengingunni milli himins og jarðar. Dómsdagur verður þegar Þór nær að drepa Miðgarðsorm, sem hringar sig utan um jörðina. Eins og snákagyðjan Kundalini, liggur hann í dvala í rúmsjó vitundarinnar og bíður færis.

Kundalini orkan er eitthvað sem við nálgumst af varúð og um leið er hún lífsnauðsynleg uppspretta, tær möguleiki sálarinnar. Í kundalini jóga vinnum við í að koma jafnvægi á orkustöðvarnar, innkirtlana og taugakerfið og bæta heilsuna á heildrænan hátt. Árangurinn er aukin lífsorka og friðsæld.

 

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati, markþjálfi og  leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.  

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband