Vinátta í raun
25.2.2020 | 09:34
Þegar lífið ögrar mér á einhvern hátt - þegar ég lendi í erfiðleikum eða óvæntum áföllum þá á ég alltaf minn besta vin, sem er jógaiðkunin mín.
Ég játa það samt að þó þessi vinur minn sé alltaf til staðar þá á ég það til einstaka sinnum að gleyma honum. Þetta getur einmitt gerst þegar ég þarf mest á honum að halda. Þegar álagið er mest. Þá fer ég að reyna að gera allt sjálf og berjast í gegnum skaflana. Ég verð þá stundum mjög hörð við sjálfa mig og gef mér ekki mikið hrós eða hvatningu. Ég veð áfram frekar stefnulaust og og það fylgir því stundum eirðarleysi og einbeitingarskortur sem gerir það að verkum að ég kem ekki nærri eins miklu í verk og ég myndi vilja. Sem aftur verður til þess að ég verð enn harðari við sjálfa mig. Svo loksins rennur upp fyrir mér að ég hef gleymt að hugleiða í nokkra daga í öllu álaginu.
Þá loksins mæli ég mér mót við þennan besta vin minn og það er ótrúlegt hvað hann hefur djúp og hraðvirk áhrif á mig. Hugurinn byrjar að kyrrast og finna betri einbeitingu. Ég fer að hlusta meira eftir því sem innri röddin mín hefur að segja. Ég verð glaðari og sáttari og fer að njóta meira þess sem ég er að gera. Ég sef betur. Og ég fer að gefa mér tíma fyrir vini mína.
Þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt. Ég þarf líka að halda áfram að passa að setja vinnunni minni mörk og vanda mig í samskiptum. Ég þarf sjálf að velja að gefa mér tíma fyrir vini mína og ég þarf að velja að taka jákvæða afstöðu til sjálfrar mín og annarra. Það breytist ekkert nema ég velji sjálf að virkja styrkinn minn. En jógaiðkunin mín og hugleiðslan hafa svo sannarlega stutt mig á þeirri leið. Þessi stund sem ég á með sjálfri mér daglega gefur mér færi á að eiga stund með sjálfri mér og rifja upp hvað er mikilvægt.
Jóga og alveg sérstaklega regluleg hugleiðsla hefur hjálpað mér að dýpka tenginguna við minn innsta kjarna og upplifa eigin innri styrk. Styrk sem kemur ekki frá huganum, ekki frá líkamanum, ekki frá því sem ég veit og ekki frá því sem ég á. Styrkurinn minn kemur frá miklu dýpri stað í mér sjálfri. Með því að rækta og virkja þennan stað í mér þá verð ég sterkari og nærðari sem manneskja.
Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati
andartak@andartak.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.