Færsluflokkur: Lífstíll

Lífið í nýjum litum

Nýja árið er í startholunum og það gamla er ekki alveg farið úr kerfinu okkar. Þessi tími í byrjun árs er tilvalinn til þess að skoða hvað gamla árið kenndi okkur og hvernig við viljum fagna lífinu á nýjan hátt þetta árið. Í hvaða átt viljum við vaxa og blómstra? 

Ég hef tekið eftir því að um leið og ég fer að gefa því gaum hvert ég vil fara og hvernig ég vil ganga eftir stíg lífsins þá opnast ýmsir gluggar og ég fer að sjá möguleikana. Sem ég kannski tók ekki eftir áður. Þegar ég hlusta þá fer ég að heyra tónlistina og sjá litina sem ég vil hafa í lífi mínu. Það er svo dýrmætt að gefa sér tíma og rými til að hlusta og horfa út um gluggana sem opnast. Við getum haft miklu meiri áhrif á líf okkar en við höldum. 

Þegar við búum okkur til ásetning þá erum við að virkja ákveðinn hluta af heilanum. Ef við ákveðum ekki hvað er mikilvægt þá velur heilinn tilviljanakennt og byggir niðurstöðuna á því hvernig okkur líður þá stundina og þeirri orku sem við höfum. Þetta getur verið stöðugt að sveiflast frá einni stund til annarrar. Ef við erum ekki með ásetning þá fer heilinn að hluta til á sjálfstýringu. Þá erum við alltaf að endurtaka þau mynstur sem við höfum vanið okkur á. Sjálfsstýringin heldur okkur í sömu venjum og við svipaðar hugsanir. 

Ég heyrði einu sinni samlíkingu sem mér fannst mjög gagnleg til að skilja betur hvernig ásetningur virkar. Ímyndum okkur að heili okkar sé eins og vel þjálfaður leitarhundur sem getur leitað uppi þá sem hafa villst í óbyggðum. Fyrsta skrefið er að bjóða hundinum að þefa af einhverju sem tilheyrði þeim sem verið er að leita að. Ef þessu skrefi er sleppt þá hleypur hundurinn stefnulaust um víðáttuna og staldrar við allt sem vekur áhuga hans. Ásetningur er eins og lykt, stefna sem þú gefur heilanum þínum. Að hafa engan ásetning er eins og að senda hugann stefnulaust út í óbyggðir lífsins. Mörg okkar lifum lífinu þannig og veltum því fyrir okkur af hverju við höfum tilhneigingu til að festast í sama farinu. Ásetningur er eins og leið til að gefa alheiminum stefnu og tilgangurinn okkar fyrir lífið. Að gefa okkar innri heimi tón til að syngja út frá. Ef við erum ekki skýr hver við viljum vera, hvert við viljum stefna verður hugur okkar eins og hundur sem rásar stefnulaust.

Þegar ég fer inn á við og skoða hvað skiptir mig máli, hvaða drauma og venjur ég vil vökva þá kem ég aftur og aftur að tækninni. Sjónvarp, tölvur, símar. Ég finn fyrir þörf fyrir að setja skjánotkun meiri mörk. Að gefa lífinu í öllum sínum litum meira rými og vægi. Það að vinna heima getur haft sína kosti en líka galla. Skilin milli heimilis og vinnu verða óljósari. Streitan eykst og verður ósýnilegri. 

Um leið og ég fer að horfa á lífið í nýjum litum þá fer undirvitundin af stað og færir mér nýjar lausnir og hugmyndir. Myndir af stærra lífi. 

Og þegar ég horfi út um nýju gluggana sé ég meira rými til að rækta sambandið við mig sjálfa og mína nánustu. Ég sé hvernig þakklæti og gleði stækka mig. Og tlfinningin fyrir að tilheyra stærri heild. Einhverju sem er stærra en daglega sjálfið mitt. Þegar ég stækka þá verða vandamálin minni og viðráðanlegri. Streitan verður að gjöf sem fær mig til að gera mitt besta. Hvað sérð þú út um þína glugga?

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 

 

 


Að vera nóg

Við erum öll að glíma við streitu á einhverjum sviðum. Einn af streituvöldunum í nútímasamfélagi er stöðug samkeppni. Að finnast við þurfa að standa okkur til að sýna að við séum einhvers virði. Við berum okkur saman við aðra, við það sem virðist vera að ganga vel hjá öðrum og förum að ímynda okkur að við séum ekki nóg. Við eigum það jafnvel til að upphefja okkur á kostnað annarra til að líða betur. Við erum mörg hver gjörn á að hvetja okkur sjálf áfram í lífsbaráttunni með sjálfsgagnrýni. Þessu fylgir að við förum að gera ómannlegar kröfur til okkar sjálfra og rífa okkur niður ef okkur finnst við ekki standa okkur nægilega vel.

Ég á mér innri rödd sem ýtir mér áfram getur verið harðari en nokkur yfirmaður. Oft finnst henni ekkert vera nógu gott sem ég geri. Tvíburasystir innri gagnrýnandans er frú Fullkomin. Hún gefur mér þau skilaboð að fullkomnun sé verðugt markmið, nauðsynlegt til að passa inn. Vandinn er bara sá að fullkomnun er ekki raunhæfur möguleiki og ef ég geng þann stíg þá er ég alein og verð að standa mig án stuðnings. 
 
Þegar ég gef mér tíma til að setjast niður með þessum háværu innri röddum og hlusta, þá fer ég að heyra meira meðvitað hvað þær eru að segja og hvað þær eru ósanngjarnar við mig. Þá á ég líka möguleika á að bjóða þeim að fá sér sæti og taka því rólega. Ég þarf stundum að benda þeim á þetta oft á dag. Þá get ég valið að hlusta á umburðarlyndari raddir innra með mér og allt í einu fær lífið annan lit. Ég get farið að hlusta eftir því sem skiptir máli í andartakinu. 
 
Kærleikur og mildi til sjálfrar mín færir mér friðsælt hjarta í gegnum storma lífsins. Þegar ég vel að elska sjálfa mig með alla þá veikleika og galla sem fylgja því að vera manneskja, þá eru verðlaunin aukið sjálfstraust og innri friður. Ég get sest inn í uppsprettuna í sjálfri mér. Kjarnann sem veit að ég er hluti af stærri heild. Og sem veit að ég er fullkomin alveg eins og ég er.

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 

 


Að vera með því sem er. Hugrekki er líka að staldra við og hlusta

Nú er lífið að færast aftur í fastar skorður eftir ævintýri sumarsins. Eins og hægt er miðað við aðstæður. Þetta eru skrýtnir tímar og margt nýtt sem við þurfum að laga okkur að. Við vonum auðvitað öll að heimurinn komist aftur af stað og geti farið að rísa upp úr öldudalnum. Á sama tíma væri óskandi að við gætum fundið leið upp úr dalnum sem fær okkur til að lifa meira í sátt og í takti við náttúruna og aðra jarðarbúa. 

Þegar lífið tekur svona stakkaskiptum eins og undanfarna mánuði þá fáum við um leið það verkefni að skoða hvernig við tökumst á við breytingar. Lífið er alltaf að breytast. Við verðum foreldrar, börnin okkar fara að heiman, við missum okkar nánustu, við missum vinnuna og þurfum að lifa í óvissu um óákveðinn tíma, við eldumst og þurfum að læra að hlusta á það. Í okkar menningu er ekki mikil áhersla á að kenna okkur að takast á við og heiðra breytingar. Að gefa okkur tíma til að syrgja það sem var svo við getum umfaðmað það nýja. Að hlusta á það hvað gerist innra með okkur. Það er mjög verðugt verkefni að þjálfa þennan vöðva og geta tekist á við álag og breytingar af æðruleysi.

Þegar við gefum okkur tíma til að hlusta þá mætum við mismunandi hlutum eða stöðum í okkur sjálfum sem eru allir með sínar þarfir og toga okkur í margar áttir. Þegar allt er að breytast eins og núna getur ótti farið að gera vart við sig. Áhyggjur og kvíði eru form af ótta. Svo er kannski annar hluti sem knýr okkur áfram. Hann gæti verið með langan lista af verkefnum í eftirdragi og vill helst að við klárum þau strax. Enn einn hluti sem við eigum mörg sameiginlegan er innri gagnrýnandinn. Rödd innra með okkur sem er ötul við að rífa okkur niður eða kalla eftir fullkomnun. Sem finnst ekkert vera nógu gott sem við gerum. Þegar við hlustum dýpra getum við farið að eiga samtal við þessa hluta af okkur og gefa þeim rými til að tjá sig á heilbrigðari hátt svo lífið verði litríkara og þessir ýmsu hlutar okkar geti farið að syngja saman og lifa í meiri samhljóm.

Þegar ég hlusta fer ég að taka eftir því hvernig sólin glitrar í skýjunum. Hvernig andardrátturinn býður mér að finna lífið í allri sinni dýpt. Hann býður mér að slaka á öxlunum og faðma það sem er. Líka gagnrýnandann sem vill að eitthvað komist í verk. Og fæturna sem hvíla á jörðinni sem taka á móti stuðningi hennar. Þær segja mér að ég þarf ekki að kreista lífið til að eitthvað gerist. Jörðina sem gefur mér til kynna að ég er velkomin, að það er alltaf eitthvað sem er stöðugt undir fótunum. Líka þegar ég sé bara breytingar í kringum mig. Hún minnir mig á að gefa mér tíma til að næra sjálfa mig. Að hugrekki er ekki bara fólgið í að halda áfram í gegnum erfiðleikana. Hugrekki er líka að staldra við og hlusta.  

Jóga hefur kennt mér að hlusta og finna fyrir lífinu í gegnum storma lífsins. Að vera til staðar fyrir það sem hreyfist innra með mér. Jóga er sérstaklega gagnlegt ef við erum stirð og stíf. Og þegar við eigum erfitt með að slaka á og hægja á okkur. Þegar við gerum jóga í flæði, á hreyfingu með andardrættinum, þá finnum við hvernig við komumst smátt og smátt í meiri takt við okkur sjálf. Við förum að tengja við við einhvern djúpan kjarna í okkur. Í jóga erum við nefnilega ekki að nota líkamann til að komast inn í mismunandi jógastöður heldur að nota jógastöður til að komast inn í líkamann.

 

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 


Þögn hjartans


Ég glími við hugann minn alla daga. Hann er stundum eins og sólargeisli sem lýsir upp alla mína dimmustu kima. En það er bara stundum. Þess á milli er hann alls konar. Stundum rásar hann um allar trissur og engin leið að hemja hann. Þá á ég erfitt með að halda athyglinni við eitthvað eitt. Þá er ég líka stundum fljót að sjá það neikvæða í lífinu. Og hætti að njóta þess að vera með því sem er. Hætti að vera til staðar og er með hugann annars staðar. Samt er þetta annars staðar ekki til. Svo hvar er hugurinn þá? Í framtíðinni, að hafa áhyggjur af einhverju. Eða hann er að bregðast við einhverju sem hann heldur að sé mikilvægara en líðandi stund. Hann er alla vega ekki með mér.
 
Hugurinn er skrýtið fyrirbæri. Hann er öflugasta tækið sem við eigum til og getur fært okkur velsæld og hamingju. Hann getur líka orðið eins og villidýr í ham sem við ráðum engan veginn við. Til þess að ráða við hugann hefur mér fundist gagnlegt að læra að horfa á hugann. Virða hann fyrir mér án þess að gleyma mér alltaf í innihaldi hugans. 
 
Við sem lifum í hinum vestræna heimi höfum tilhneigingu til þess að vera alltaf með hugann virkan. Það má segja að við séum með einhvers konar fíkn í hugsanir. Við erum búin að gleyma því hvernig það var að lifa án orða. Þess vegna finnst okkur notalegt að vera nálægt dýrum og litlum börnum. Þau búa yfir þessum eiginleika að vera tengd líkamanum og verund án orða, án hugsana. Þegar við göngum í náttúrunni eða vinnum í garðinum okkar þá fáum við tækifæri til að ganga inn í þennan innsta kjarna, þennan helgidóm í okkur sjálfum, án orða.
 
Jógaiðkun og hugleiðsla hjálpa mér að komast nær kjarnanum. Uppsprettuna sem nærir mig, færir mér lífsgleði og tilgang. Ég styrki hæfileikann til að vera til staðar fyrir sjálfa mig og aðra. Dagleg hugleiðsla er minn besti vinur. Ég myndi ekki vilja vera án hennar. 

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Vinátta í raun

Þegar lífið ögrar mér á einhvern hátt - þegar ég lendi í erfiðleikum eða óvæntum áföllum þá á ég alltaf minn besta vin, sem er jógaiðkunin mín. 
 
Ég játa það samt að þó þessi vinur minn sé alltaf til staðar þá á ég það til einstaka sinnum að gleyma honum. Þetta getur einmitt gerst þegar ég þarf mest á honum að halda. Þegar álagið er mest. Þá fer ég að reyna að gera allt sjálf og berjast í gegnum skaflana. Ég verð þá stundum mjög hörð við sjálfa mig og gef mér ekki mikið hrós eða hvatningu. Ég veð áfram frekar stefnulaust og og það fylgir því stundum eirðarleysi og einbeitingarskortur sem gerir það að verkum að ég kem ekki nærri eins miklu í verk og ég myndi vilja. Sem aftur verður til þess að ég verð enn harðari við sjálfa mig. Svo loksins rennur upp fyrir mér að ég hef gleymt að hugleiða í nokkra daga í öllu álaginu. 
 
Þá loksins mæli ég mér mót við þennan besta vin minn og það er ótrúlegt hvað hann hefur djúp og hraðvirk áhrif á mig. Hugurinn byrjar að kyrrast og finna betri einbeitingu. Ég fer að hlusta meira eftir því sem innri röddin mín hefur að segja. Ég verð glaðari og sáttari og fer að njóta meira þess sem ég er að gera. Ég sef betur. Og ég fer að gefa mér tíma fyrir vini mína. 

Þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt. Ég þarf líka að halda áfram að passa að setja vinnunni minni mörk og vanda mig í samskiptum. Ég þarf sjálf að velja að gefa mér tíma fyrir vini mína og ég þarf að velja að taka jákvæða afstöðu til sjálfrar mín og annarra. Það breytist ekkert nema ég velji sjálf að virkja styrkinn minn. En jógaiðkunin mín og hugleiðslan hafa svo sannarlega stutt mig á þeirri leið. Þessi stund sem ég á með sjálfri mér daglega gefur mér færi á að eiga stund með sjálfri mér og rifja upp hvað er mikilvægt.
 
Jóga og alveg sérstaklega regluleg hugleiðsla hefur hjálpað mér að dýpka tenginguna við minn innsta kjarna og upplifa eigin innri styrk. Styrk sem kemur ekki frá huganum, ekki frá líkamanum, ekki frá því sem ég veit og ekki frá því sem ég á. Styrkurinn minn kemur frá miklu dýpri stað í mér sjálfri. Með því að rækta og virkja þennan stað í mér þá verð ég sterkari og nærðari sem manneskja.

 

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


Dansandi, litríkur sprengiásetningur

Nýtt ár markar ferskt upphaf fyrir óskir og drauma. Það er líka tilvalin stund til að horfa yfir farinn veg og taka eftir því sem við getum verið þakklát fyrir.

Mér finnst gott að byrja árið á því að fara inn á við og skoða hvert ég vil stefna og hvað skiptir mig máli í lífinu. Áramótaheit eiga það til að sitja aðeins of nærri fullkomnunarpúkanum. Stundum hef ég strengt áramótaheit út frá einhverju sem mér fannst vanta, eitthvað sem mér fannst að ég þyrfti að laga. Einhver hluti af mér ákvað að einhver annar hluti af mér væri ófullkominn. Og þyrfti að breytast. Þessi nálgun á sjálfa mig varð yfirleitt til þess að þessi hluti af mér sem átti að breytast fór í uppreisn. Og ekkert breyttist.

Ég ákvað að leggja áramótaheitin til hliðar og velja í staðinn að búa mér til ásetning. Ásetningur er eins og leiðarljós. Vörður sem geta vísað mér veginn í gegnum árið. Minnt mig á hvað það er sem skiptir mig máli. Og gefið mér tilgang.

Það er mikilvægt að setja sér markmið. Án þeirra verðum við stefnulaus. En markmið geta stundum orðið eins og langur listi af einhverju sem við ætlum að gera. Koma í verk. Ásetningur snýst meira um gildin mín, um það hver ég vil vera og hvernig ég vil lifa. Hann minnir mig á að njóta ferðarinnar. Að vera í stað þess að gera.

Ég gerði mér það að ásetningi um þessi áramót að sýna sjálfri mér og öðrum kærleika og umburðarlyndi. Að gefa gagnrýnandanum innra með mér frí. Bjóða honum að sitja í aftursætinu. (Hann heitir öðru nafni "Ótti"). Að velja það sem hjartað mitt þráir í stað þess að velja það sem ég held að aðrir ætlist til af mér. Og ég ákvað að gera sköpun og skapandi tjáningu að einni af vörðunum mínum fyrir þetta komandi ár. Ófullkomna gleðisköpun. Þetta er því nokkurs konar dansandi litríkur sprengiásetningur með hættulegu ívafi.

Um leið og ég set niður vörður fyrir árið mitt þá þarf ég líka að setja þær inn á kortið mitt. Ég þarf að setja þær í samhengi við mitt eigið líf. Annars er hann bara orð og gæti átt það til að gleymast mitt í öllu amstrinu. Það hjálpar að skrifa hann niður og segja hann upphátt. Og ekki er verra að lita hann, syngja hann og dansa. Og síðast en ekki síst - að taka hann með mér inn í jógaiðkunina mína.

Til að ásetningurinn minn nái að festa rætur og blómstra er auðvitað mikilvægt að rækta jarðveginn sem ég sái honum í. Minn eigin huga. Ef ég er ekki með virkt samband við hugann þá er ég eins og stjórnlaust farartæki. Eins og þegar við keyrum í djúpum snjó. Þá lendum við inni í hjólfari og alveg sama hvernig við reynum að sveigja bílinn til og frá. Hann er eins og með sinn eigin vilja og eltir bara hjólfarið. Daglega hugleiðslan mín gefur mér þetta samband við hugann. Og hjálpar mér að brjóta upp hjólförin mín. Að velja hvort ég samsama mig með tilfinningum mínum og hugsunum. Að velja þakklæti. Að dansa í gegnum vörðurnar mínar og njóta þess að horfa á garðinn minn blómstra.

Í febrúar verður námskeiðið "Vökvaðu draumana þína" þar sem við setjum niður ásetning fyrir árið og búum til mandölu með ásetningi. Auk þess er að byrja hugleiðslunámskeið hjá okkur, líka seinna í febrúar. Og jógatímarnir okkar eru áfram á sínum stað. Nánar hér: Andartak

 

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband