Færsluflokkur: Lífstíll
Gjafir myrkursins
13.12.2023 | 10:38
Sól, sól! Komdu aftur sól! Þriggja ára dóttursonur minn sat í aftursætinu og fannst myrkrið vera allt of snemma á ferðinni. Og því var ekki hægt að neita. Það væri svo sannarlega vel þegið að fá lengri daga á þessum dimmasta tíma ársins. Svo ræddum við um það hvað myrkrið er líka mikilvægt og að nóttin færir okkur svefninn sem er svo sætur þegar við verðum þreytt.
Þessir stuttu dagar geta reynt á. Margir finna fyrir þreytu og skort á bjartsýni í skammdeginu. En myrkrið hefur líka sína kosti. Á þessum dimmasta tíma ársins færist það sem venjulega hvílir í undirvitundinni, nær yfirborðinu. Það er sagt að skilin á milli heima verði gegnsærri og að við getum betur nálgast það sem annars liggur í dvala í undirvitundinni. Á þessum árstíma höfum við eðlislæga tilhneigingu til að leita inn á við. Ef við hlustum á hana og látum ekki heiminn fyrir utan dáleiða okkur um of, þá getum við nýtt þennan tíma til að tengja við uppsprettuna innra með okkur og til að endurnærast. Við getum treyst því að ljósið kemur alltaf aftur. Þangað til getum við boðið ljósinu innra með okkur að lýsa okkur leiðina.
Í annríkinu sem ríkir í ytri heiminum, ekki síst þessa dagana, getur það gleymst að taka stund til að vera með okkur sjálfum. En sá tími skilar sér fljótt til baka. Við verðum einbeittari og eigum auðveldara með að hvíla í andartakinu sem er að líða. Hvað gerir þú til að næra þig?
Eftir áramótin verður í boði námskeiðið Stærri en streitan hjá okkur í Andartaki, þar sem við ætlum að skoða hvernig við getum betur lifað með álagi og verið í góðu sambandi okkur sjálf.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að husta a lifið innra með okkur
andartak@andartak.is
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Krónos og Kairos: Tvö andlit tímans
13.6.2023 | 12:14
Við vöknum á morgnana og segjum, ég svaf ekki nóg og við leggjumst á koddann og segjum, ég kom ekki nógu í verk, segir Brené Brown
Við eyðum miklu af okkar daglega lífi í línulegum tíma, sem gefur okkur tilfinningu fyrir skorti, og þessa nagandi hugsun að sama hvað við reynum þá séum við aldrei nóg og gerum ekki nóg. Þessi upplifun okkar á tíma sem stefnir í eina átt, fylgir vinstra heilahvelinu og verður til þess að við erum sífellt að keppast við að sanna að við séum einhvers virði, að sýna að við höfum gert eitthvað sem skiptir máli.
Náttúran og árstíðirnar sýna okkur aðra leið til að upplifa tíma. Við getum kallað það flæði. Forn Grikkir voru með tvö orð yfir tíma, Krónos og Kairos. Krónos, er línulegur, mælanlegur tími, mínútur, klukkutímar, ár. Krónos mælir magn. Kairos mælir gæði. Gæðastundir, ferska upplifun. Hjá Grikkjum snérist hann um rétta andartakið, hið fullkomna andartak. Heimurinn andar inn og í kyrrðinni sem fylgir, áður en hann andar frá, getur allt breyst. Krónos er klukkur, áfangar, dagatöl, áætlun, vekjarar. Kairos er dýpt, óendanleiki, lotning, ástríða, kærleikur, helgi. Við lifum í Krónos og við þráum Kairos. Þar liggur okkar togstreita, segir rithöfundurinn Sara Ban Breathnach sem skrifaði mjög áhugaverða bók um að njóta þess sem lífið gefur.
Það er mismunandi hvernig aðstæður vekja þessa tilfinningu fyrir flæði innra með okkur. Þegar við leikum okkur, förum í langa gönguferð, lesum bók, eldum góðan mat, dönsum, spilum á hljóðfæri, tökum þátt í djúpum samræðum, þegar við hugleiðum. Krónos er allt það sem fær þig til að gleyma þér og heiminum, af því þú ert inni í honum af lífi og sál.
Þegar við finnum kyrrð innra með okkur eigum við auðveldara með að sjá fegurð stundarinnar og njóta þess sem lífið býður hverju sinni. Að taka á móti af heilum hug. Þegar ég hugleiði þá fæ ég stund til að stíga út úr hringekjunni um stund, á meðvitaðan hátt. Ég get hlustað og melt og komið svo fersk aftur inn í daginn. Hugurinn verður viðráðanlegri og ánægjulegri félagi. Ekki lengur eins og stjórnlaus hestur sem rýkur í allar áttir með mig. Hann verður léttari og rúmar jákvæðari heimssýn og viðhorf. Og hefur meiri visku að færa mér.
Dagleg hugleiðsla gefur okkur færi á að hlaða batteríin, að finna friðsæld og koma heim til okkar sjálfra aftur og aftur. Í okkar háværa heimi er það bæði erfiðara en líka nauðsynlegra en nokkru sinni að eiga aðgang að djúpri alltumlykjandi þögn.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.
andartak@andartak.is
Lífstíll | Breytt 13.12.2023 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Möntrur og leyndardómar kyrrðarinnar
7.6.2023 | 12:03
Hefurðu einhvern tíma reynt að setjast niður að hugleiða og fundið eitthvað allt annað en kyrrð og frið? Ein leið til að hjálpa huganum að slaka á er að syngja möntrur. Möntrur geta virst mjög framandi, og þær eru það auðvitað við fyrstu kynni. Ég hef reyndar alltaf verið mjög heilluð af fjarlægum menningarheimum og framandi tungumálum. Í mínum huga eru möntrur leyndardómar til að kanna og kynnast betur. Og til að upplifa. Mantra þarf ekki að vera flókin til að hafa djúp áhrif. Hún getur verið bara eitt atkvæði. Hljóð tala beint til líkamans. Við þekkjum öll hvernig börn róast við söng.
Möntrur eru orð eða hljóð sem við endurtökum, í hljóði eða upphátt til að beina huganum í flæðandi farveg og hækka tíðni hugans. Og um leið lyftist öll skynjun okkar og verður skýrari. Hugleiðsla með möntru getur hjálpað til við að bæta andlega líðan og þar með líkamlega heilsu.
Man þýðir hugur og tra þýðir verkfæri eða vernd. Orðið mantra þýðir því vernd eða verkfæri hugans. Mantra er eins og lykill sem opnar víddir innra með okkur, lykill að óendanleikanum. Það hefur verið sagt að mantra endurómi eitthvað sem við þekkjum innra með okkur, kjarni eða viska sem býr í okkur og sem bergmálast í möntrunni. Þannig má segja að hún sé eins og endurómun á sjálfsöryggi.
Þegar við förum með möntru þá hægist á andardrættinum. Þannig er mantra líka öndunaræfing. Mantran kallar fram taktfasta öndun, við öndum djúpt inn og hægt frá. Taktföst öndun er róandi og nærandi.
Við virkjum sefkerfi taugakerfisins þegar við förum með möntrur. Flökkutaugin, meginþáttur sefkerfisins liggur í gegn um hálsinn, upp við raddböndin. Margar rannsóknir sýna að hún örvast við söng. Sefkerfið gefur heilanum skilaboð um að slaka á og melta. Við erum ekki bara að melta fæðu, heldur líka allt sem við erum að takast á við í daglegu lífi. Við fáum stund til að vinna úr og sortera. Og á sama tíma getum við notið þess að syngja og hvíla í andardrættinum.
Mantra kallar fram þögn. Eftir að við hættum að fara með hana kemur enn dýpri þögn en áður. Mér finnst stundum þegar ég kem til baka úr hugleiðslu, að ég hafi farið eitthvert. Eins og að stíga út fyrir heiminn í smá stund og inn í aðra vídd. Annan veruleika sem lýtur öðrum lögmálum. Sem er víður og stór og hefur stærri tilgang. Möntrur gefa eins og farveg fyrir hugsanir. Hugsanirnar raða sér betur upp og breyta um tón. Ég næ betur að forgangsraða hvað er mikilvægt og hvíla í sjálfri mér.
Það er mjög ljúf iðkun að syngja möntrur. Ég býð þér að taka þátt í sumarhugleiðslu með mér sem er í senn öndunaræfing og einföld mantra.
Dagleg hugleiðsla er gott akkeri að hafa í annríki dagsins, hvort sem er heima eða á ferðalagi. Hún gefur okkur færi á að hlaða batteríin, að finna friðsæld og koma heim til okkar sjálfra aftur og aftur. Dagleg hugleiðsla gefur mér ákveðna reglu í óreglunni, stund með sjálfri mér og stundum gæðastund með mínum nánustu.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.
Lífstíll | Breytt 13.12.2023 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árstíðirnar í líkamanum
24.4.2023 | 10:07
Náttúran umbreytist við hver árstíðaskipti. Hvalir ferðast langar leiðir, fuglar fljúga heimshorna á milli til að laga sig að umskiptum árstíðanna. Laufin falla af trjánum og hver einasta lífvera gerir breytingar í lífsháttum sínum, dvalarstað og rútínu. Allar lífverur, nema maðurinn. Við förum bara í meiri föt eða fækkum þeim og hækkum eða lækkum hitann í ofnunum.
Verslanir bjóða upp á sama matinn allt árið um kring og hvetja okkur þannig til að borða eins, sama hver árstíðin er. Þetta væri óhugsandi í náttúrunni. Nýjustu vísindi benda til þess að ef við borðum fæði sem er úr takti við árstíðirnar og ekki síst við það að borða mikið af unninni matvöru, þá hverfi mikilvægar bakteríur úr meltingarflórunni.
Við getum við lært að lifa meira í takti við okkur sjálf og náttúruna í kring um okkur. Ayurveda og jóga kenna okkur að lifa með árstíðaskiptum, að nota jurtir, te, krydd og mataræði til að tendra meltinguna og styðja hana í gegn um skilin á milli árstíða. Ef meltingin okkar virkar ekki vel þá er í raun sama hvað við borðum hollan mat. Við meltum hann ekki vel.
Vetrinum fylgir oft að við erum sólgin í þungan mat og sætmeti. Veturinn á það til að hanga í okkur fram eftir vori ef við gerum ekkert í því. Þá er líklegt að við fáum hreinsun í formi kvefs. Náttúran býður okkur að aðlagast. Ef við tökum stutta hreinsun á vorin þá förum við að elska fæðuna sem fylgir vorinu og sumrinu. Við fáum góða og sterka meltingu, blóðið og lifrin hreinsast og taugakerfið kemst í jafnvægi. Jógaiðkun styður okkur í að hreyfa nýja og ferska orku um líkamann, koma jafnvægi á taugakerfið og að kyrra hugann svo við getum notið þess sem lífið færir okkur.
Ég hef nýtt mér visku Ayurveda, systurvísinda jógafræðanna í um 30 ár og finn hvað það er mikilvægur áttaviti í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Jóga er akkerið mitt og minnir mig reglulega á það hver ég er og hvernig það er að finna friðsæld.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.
Lífstíll | Breytt 13.6.2023 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Birta
18.4.2023 | 08:50
Jógaheimspekin býr yfir hugtakinu Sattva sem er einn af þremur eiginleikum lífsins. Sattva merkir ljós eða léttleiki. Birta. Önnur orð sem túlka sattva eru samhljómur, tærleiki, sköpun, jákvæðni og friðsæld. Í jóga viljum við næra Sattva og kveikja ljósflæðið í okkur.
Hinir tveir eiginleikarnir eru Rajas og Tamas. Rajas er drifkraftur hreyfingar, virkni og ástríðu. Tamas stendur fyrir sinnuleysi, deyfð og óreiðu. Tamas og Rajas eiga sér líka sinn stað í tilverunni. Allt líf er blanda af þessum þremur eiginleikum, samkvæmt jógaheimspekinni. Gott líf byggir á góðu jafnvægi þeirra. Jafnvægi er meðal annars fólgið í því að sökkva ekki of djúpt í Tamas því þá verður svo mikið átak að lyfta okkur upp aftur.
Á þessum árstíma er oft búið að safnast fyrir mikið af Tamas í okkur. Veturinn og myrkrið gera okkur þung og værukær. Þegar vorið er handan við hornið getur verið átak að finna kraft og tilgang í tilverunni. Orkuflæðið er hægt í gang og við fáum frekar kvef og alls kyns stíflur. Við náum stundum ekki að taka á móti allri birtunni af heilum hug þar sem veturinn hangir enn í okkur og við erum orðin svo vön vetrarkápunni.
Til að finna Sattva; tærleika og friðsæld, þurfum við að byrja þar sem við erum. Við þurfum að ferðast í gegn um Rajas. Að hreyfa okkur til að finna kraftinn og eldinn innra með okkur. Að teygja á líkamanum og finna okkar eigin takt og fá þannig útrás fyrir staðnað orkuflæðið. Við þurfum að hlusta á þyngslin og gefa þeim færi á að finna sinn farveg. Þá fyrst getum við kveikt ljós og fundið friðsæld.
Jóga hjálpar okkur að finna þennan stað í okkur sem þráir lífið, sem elskar að vera til, sem skýtur út grænum sprotum af lífsorku. Í kundalini jóga iðkum við meðvitaða hreyfingu í takti við andardráttinn. Smátt og smátt kyrrast hugurinn og lífið verður bjartara. Jógaiðkun opnar fyrir löngun til að lifa ferskara og innihaldsríkara lífi. Og lífsstíll okkar og mataræði geta á sama hátt stutt við jógaiðkunina.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans.
andartak@andartak.is
Lífstíll | Breytt 13.12.2023 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að hugleiða á meðan heimurinn brennur
3.3.2023 | 20:05
Við eigum öll okkar stundir og tímabil þar sem okkur finnst heimurinn vera að brenna. Þar sem okkur finnst að við verðum að gera eitthvað í málunum. Bara eitthvað. Streita getur kallað fram ástand innra með okkur sem er mjög líkt því sem gerist þegar það verða hamfarir. Langvarandi streita og áföll birtast í líkama okkar á svipaðan hátt. Líkami okkar gefur okkur þau skilaboð að það sé hætta á ferðum, að við verðum að vera í viðbragðsstöðu. Okkur fer að finnast það vera munaður sem við bara getum ekki veitt okkur þá stundina, að setjast niður og slaka á. Hávær rödd innra með okkur minnir okkur stöðugt á sig. Nei þú mátt ekki slaka á. Það eru mikilvæg verkefni sem þarf að sinna.
Þetta geta verið tímabil þar sem náinn aðstandandi er að glíma við veikindi eða þegar börnunum okkar líður illa. Eða þegar við erum að takast á við fjárhagserfiðleika. Langir listar af verkefnum þar sem eitt tekur við af öðru. Ástandið í heiminum getur líka kallað fram þessi viðbrögð. Kannski bara við að lesa þetta ferðu að finna fyrir því að líkaminn spennist upp. Ef það gerist mæli ég með að anda djúpt inn og alveg frá. Og svo aftur. Anda djúpt inn og alveg frá. Kannski finnurðu að það slaknar aðeins á spennunni.
Það eru einmitt þessar stundir, þessi álagstímabil sem við þurfum mest á því að halda að slaka á. Á okkar tímum er það í raun lífsnauðsyn að gefa sér rými til að endurnýja taugakerfið. Það eru ýmsar leiðir til þess. Að eiga stundir í náttúrunni, að syngja í kór, að fara í sund eða að hlæja í góðum félagsskap. Jógaiðkun og hugleiðsla eru mjög góð leið til þess að styrkja og endurnæra taugakerfið. Ef ég iðka reglulega þá fer líkaminn að þekkja betur það ástand sem skapast þegar ég slaka djúpt á. Ég öðlast dýpra samband við kjarnann í mér og taugakerfið mitt fínstillist. Ég sýni mér meiri sjálfsmildi og verð meðvitaðri um hugsanir mínar og hvernig mér líður.
Ég þarf reglulega að minna mig á að nærandi tími með mér skilar sér í öll mín verkefni. Þegar mér finnst heimurinn vera að brenna kallar það á bæði sjálfsmildi og sjálfsaga að gefa mér samt sem áður rými til að endurnærast.
Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing (aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld)
andartak@andartak.is
Lífstíll | Breytt 13.6.2023 kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veisla bragðlaukanna
16.2.2023 | 09:32
Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna er mjög heillandi heimur sem kennir okkur að lifa í takti við náttúruna í kring um okkur og innra með okkur. Að fylgja árstíðunum og takti dagsins og að hlusta á líkamann. Við eigum það stundum til að borða með huganum og týna sambandinu við líkamann. Eftir því sem við öðlumst betra samband við hvað við þurfum þá fer hugurinn að fylgja með og við förum að sækja í það sem er gott fyrir okkur.
Nærandi og jafnvægisgefandi viska náttúrunnar birtist okkur í gegnum fæðu hennar. Bragð náttúrunnar er mismunandi tjáning á fjölbreytileika hennar og hver bragðtegund hefur mismunandi áhrif á okkur. Á sanskrít hefur orðið rasa sem merkir bragð margar fleiri merkingar eins og upplifun, eldmóður, safi og blóðvökvi. Rasa er eins konar kjarni lífsins og hefur áhrif á alla tilveru okkar, allt frá líkamsbyggingu og líkamlegum eiginleikum yfir i ástand hugans og vitundar okkar. Í Ayurveda er litið á bragð sem mikilvægan þátt í heilsu okkar.Það snýr ekki bara að því hvernig maturinn bragðast okkur heldur líka hvernig lífið "bragðast" okkur. Sama fæða getur haft mismunandi bragð eftir þvi hvar hún er ræktuð, hvernig staðið er að ræktuninni og hvort þarf að flytja hana langar leiðir.
Þegar bragð er notað í réttum hlutföllum, hvert um sig og saman, þá hefur það jafnvægisgefandi áhrif á líkamann. Bragðtegundirnar eru sex: Sætt, súrt, salt, sterkt, beiskt og samanherpandi. Mismunandi hópar af bragðlaukum á tungunni skynja bragð og senda skilaboð til heilans. Þaðan fara út skilaboð sem hafa bein áhrif á meltinguna og líka á allar frumur líkamans, vefi, líffæri og líffærakerfi.
Sætt er það bragð sem við á Vesturlöndum höfum tilhneigingu til að ofnota. Í hófi gefur sætt bragð okkur lífskraft og er mjög heilnæmt fyrir líkamann. Sætt er ekki bara sykur heldur eru td. hrísgrjón, hveiti og döðlur dæmi um mat sem gefur sætt bragð. Of mikið af sætu bragði gerir okkur kvefsækin, veldur hósta, stíflar nefið, gerir okkur þung á líkama og sál. Of mikið sætt gerir okkur löt og getur valdið offitu.
Súrt er frískandi, örvar matarlystina og bætir meltinguna. Of mikið súrt getur truflað meltinguna og þurrkað himnur líkamans. Salt gefur okkur stöðugleika, viðheldur vökvajafnvægi, losar um hægðir og gefur lífinu bragð. Of mikið salt kemur ójafnvægi á blóðið. Sterkt bragð er létt, þurrkandi og hitandi. Sterkt bragð örvar blóðrásina, opnar stíflur og drepur bakteríur. Það gerir okkur skýr í hugsun. Í of miklu magni er það þurrkandi og getur truflað taugakerfið. Beiskt bragð er það bragð sem vantar mest í vestrænu mataræði. Það er td. í aloe vera, fenugreek, klettasalati, fíflablöðum og túrmeriki. Það styrkir meltinguna og lifrina, kælir og hefur jákvæð áhrif á húðina. Beiskt bragð hjálpar líkamanum að hreinsa burtu óhreinindi. Of mikið beiskt bragð kælir og þurrkar og getur valdið næringarskorti. Samandragandi bragð er í granateplum, kjúklingabaunum og alfa alfa spírum. Það aðstoðar við að græða magasár og gefur okkur fókus ef notað í hófi. Of mikið af því þurrkar líkamann og getur valdið hægðatregðu.
Þegar við notum allar sex bragðtegundirnar í náttúrulegri, heilnæmri máltíð, þá nærist líkaminn vel. Við förum sátt frá borðinu og verðum minna fíkin í aukabita. Við byggjum upp heilbrigðan líkama, aukum orkuna og styrkjum ónæmiskerfið. Þegar þú borðar máltíð sem er með jafnvægi á öllum sex bragðtegundunum þá upplifirðu léttleika, vellíðan og innri frið.
Það er mjög gagnlegt að þekkja líkamsgerð okkar í ayurveda til að vita hvaða bragð við þurfum að leggja áherslu á og hvað við eigum að forðast. En ef við erum í sæmilega góðu jafnvægi þá segir líkaminn okkur hvað við þurfum. Við getum látið bragðlaukana vísa okkur veginn að góðri heilsu.
Megi líf þitt vera bragðmikið og gefandi á öllum sviðum.
Ég býð upp á heildræna heilsuráðgjöf og get boðið þér að koma og fá stuðning við að greina líkamsgerð þína og finna hvað þú þarft til að finna betra jafnvægi á huga og líkama. Velkomið að senda mér tölvupóst ef þú vilt fá nánari upplýsingar.
Guðrún Arnalds, jógakennari, markþjálfi, hómópati og heildrænn heilsuráðgjafi.
andartak@andartak.is
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að virkja vellíðunartaugina
5.1.2023 | 09:07
Við lifum í óstöðugum heimi sem á það til að gera ofurmannlegar kröfur til okkar. Heimi sem leggur megináherslu á að styrkja hugann og gera okkur hæf á því sviði, oft á kostnað líkamans og hæfileikans til að vera, njóta og slaka á.
Flestir hafa upplifað einhvers konar áföll. Þau þurfa ekki að vera stór til að hafa áhrif. Flestir eiga það til dæmis sameiginlegt að hafa ekki fengið nægan tilfinningalegan stuðning í uppvextinum. Öryggi og tengslamyndun eru eins og við vitum grunnþarfir hjá okkur mannfólkinu. Við gætum hafa alist upp við heimiliserjur, eða kannski fannst okkur við ekki fá rými til að þroskast á eigin forsendum. Of mikil fjarlægð eða ekki nægileg mörk geta líka haft þessi áhrif. Við höfum öll, bæði börn og fullorðnir, þörf fyrir að vera spurð hvernig okkur líður. Það hjálpar okkur að upplifa að við séum séð og heyrð og styður okkur í gegn um erfiða reynslu.
Líkaminn man það sem við höfum gengið í gegn um. Áföll sem taugakerfið okkar geymir geta við ákveðnar aðstæður dregið fram gamla tilfinningu fyrir öryggisleysi. Þá er ekki nóg að segja okkur sjálfum að við séum örugg. Við þurfum að sanna það fyrir líkamanum.
Polyvagal kenningin, sem hefur notið vaxandi fylgis í sambandi við áföll og streitu hjálpar okkur að skilja hvernig taugakerfið okkar skynjar og bregst við. Hún er þróuð af Stephen Porges, sálfræðingi og taugasérfræðingi. Hún kennir okkur að við getum haft áhrif á viðbrögð taugakerfisins í streituástandi með því að virkja flökkutaugina (vagustaugina). Ein besta leiðin til þess er að iðka jóga.
Flökkutaugin er lengsta og mikilvægasta heilataugin, liggur í gegn um allan líkamann og er hluti af sefkerfinu eða róandi hluta taugakerfisins. Sefkerfi og drifkerfi sem saman mynda ósjálfráða taugakerfið, vinna saman. Drifkerfið setur okkur í vökult ástand með streituhormónum. Stundum kallað "berjast eða flýja" ástand. Og sefkerfið eða flökkutaugin getur afvirkjað þessi hormón. Drifkerfið safnar upplýsingum í gegn um skynfærin og sendir þær til sefkerfisins. Drifkerfið spyr: Eru þessar aðstæður í lagi? Er hætta á ferð? Ef svo er þá er ég með adrenalín ef þú þarft á því að halda. Sefkerfið metur þessar upplýsingar og byggir á fyrri reynslu til að ákveða hvort það á að taka bremsuna af flökkutauginni. Ef það metur að það sé hættuástand þá losna streituhormón og taka að flæða um líkamann.
Flökkutaugin hefur tvær greinar. Eldri hlutinn er fyrir neðan þind og tengist því að frjósa eða lamast eins og dýr gera í hættu. Og yngri, þróaðri hluti sem er fyrir ofan þind og hefur að gera með félagsleg samskipti og samkennd. Þegar flökkutaugin er í góðu jafnvægi er meltingin góð og við eigum auðvelt með að skipta um gír milli álags og hvíldar. Við erum með gott tengslanet og leitum eftir stuðningi þegar á þarf að halda.
Flökkutaugin hefur áhrif á öndun, meltingu og hjartslátt. Breytileiki hjartsláttarins gefur vísbendingu um streitu og er til dæmis mældur hjá börnum í fæðingu. Í dag eru margir með úr eða önnur tæki sem mæla þetta, enda er mjög gagnlegt að fylgjast með streituástandi líkamans.
Jóga hefur djúp áhrif á jafnvægi þessarar taugar. Mörg form af jóga leggja megináherslu á að virkja sefkerfið og kenna okkur að slaka á. Sem er auðvitað afar mikilvægt. Það er hins vegar líka mikilvægt að skapa samhljóm á milli þessara kerfa, sefkerfis og drifkerfis og fá þau til að vinna betur saman. Kundalini jóga leggjum við áherslu á bæði, að virkja sefkerfið og að finna samhljóm í líkamanum og fá þessi kerfi til að vinna saman. Kundalini jóga kennir okkur að flökkutaugin sé eins konar stillingarniður fyrir líkamann. Líkaminn leitast við að stilla sig í samhljóm við flökkutaugina. Ef við höldum henni í jafnvægi þá er allur líkaminn í jafnvægi.
Hjartað með stuðningi flökkutaugarinnar er taktmeistari líkamans. Þegar margar gamaldags klukkur með kólf eru settar inn í sama herbergið þá stilla þær sig á endanum allar eftir stærsta kólfinum. Á sama hátt stilla öll líffærin sig í takt við hjartað. Við sjáum að hjartastöðin er einmitt þetta. Hjartslátturinn og líðan okkar sem endurspeglast í flökkutauginni. Traustið sem við höfum til heimsins, byggt á lífsreynslu okkar og hæfileika til að vinna úr henni. Og hæfileiki okkar til að finna til samkenndar.
Forfeður okkar skildu mikilvægi þess að vera í samhljómi við hjartað og æðri lögmál alheimsins. Sérstaklega þegar það var ekki á þeirra færi að stjórna aðstæðunum. Helgisiðir höfðu þetta hlutverk í gegn um tíðina. Þegar við förum í jóga erum við að virkja þennan helga stað í okkur sjálfum.
Jóga er mjög aðgengileg leið til að vinna úr áföllum í gegn um líkamann. Það er mín reynsla að fólk sem hefur lent í miklum áföllum finnur mikla hjálp í að stunda kundalini jóga. Þar erum við að vinna með þetta jafnvægi flökkutaugarinnar í gegn um allan jógatímann. Með taktföstum æfingum, með því að opna flæði upp hryggsúluna, í gegn um öndunaræfingar og möntrusöng. Kundalini jóga er sérstaklega áhrifaríkt þegar kemur að því að höndla streitu.
Jóga á sér meira en 5000 ára langa sögu. Sem manneskjur höfum við verið að takast á við svipaðar áskoranir í gegn um söguna og þurft leiðir til að komast út úr streituástandi. Og að finna þá öryggistilfinningu sem fylgir því að vera hluti af samfélagi fólks. Það felst mikil hvíld í því að koma í jógatíma. Að vera hluti af samfélagi en samt með sjálfum sér. Að bara vera og njóta andartaksins. Saman.
Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld
andartak@andartak.is
Lífstíll | Breytt 9.3.2023 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gerðu streituna að vini þínum
2.1.2023 | 11:37
Hvernig gerum við streitu að vini okkar? Það má auðvitað segja að það sé kannski ekki mjög aðlaðandi tilhugsun að vingast við hana yfirleitt. Við fáum þau skilaboð daglega að streita sé óholl. Streita er skrýtið hugtak. Hún er sögð vera valdur að helstu heilsuvandamálum nútímamanneskjunnar. Og á sama tíma er hún ómissandi hluti af lífinu. Streita virkar nefnilega hvetjandi í hæfilegum skömmtum.
Streita er hluti af daglegu lífi okkar hvort sem okkur líkar betur eða ver. Hún er eins og dálítið uppáþrengjandi félagi sem eltir okkur á röndum og gefst ekki upp. Hún er komin til að vera. Og þá er kannski eins gott að hætta að forðast hana og læra að lifa með henni.
Við getum sagt að streita sé mælikvarði á það hversu mikið við teljum okkur ráða við aðstæðurnar sem við erum í. Ef okkur finnst ákveðnar aðstæður vera yfirþyrmandi og að við höfum ekki það sem þarf til að ráða við þær þá upplifum við streitu.
Það geta verið ýmsir þættir sem valda því að okkur finnst við ekki ráða við þær aðstæður sem við erum í. Lífsorka er kannski mikilvægasti þátturinn. Að hafa næga orku til að glíma við áskoranir lífsins. Lífsorkan sem við höfum til taks hverju sinni er afleiðing af samspili hugar, líkama og sálar.
Það er margt sem getur tekið frá okkur orku. Það býr til dæmis hávær gagnrýnisrödd innra með mér, sem getur virkað yfirþyrmandi í miklu álagi. Oft án þess að ég taki eftir því. Um leið og ég verð meðvituð um hana þá verða hlutirnir aðeins auðveldari. Við erum öll með svona gagnrýnisrödd sem telur okkur trú um að við séum ekki nægilega sterk eða hæfileikarík eða sem laumar inn samviskubiti ef við ætlum að gera eitthvað fyrir okkur sjálf. Ef við samsömum okkur með þessari rödd þá er líklegt að við tökum ekki eftir henni. Og þá öðlast hún meiri mátt.
Streita tengist oft ofvirkum huga. Við getum orðið alveg ringluð og jafnvel ófær um að velja það sem nærir okkur eða setja mörk til að standa með okkur þegar hugurinn fer að tvístrast undir álagi. Áður en ég fór að stunda jóga gat svoleiðis ástand hæglega magnast upp í kvíða eða tilfinningu fyrir að vera ein í heiminum. Eða að ég missti mig í sykur og sælgætisát. Sem aftur setti meltinguna úr skorðum og ýfði upp taugakerfið. Ég glími stundum enn við tvístraðan huga undir álagi en nú hef ég reynsluna af leiðum sem ég get gripið til. Líkaminn minn man hvernig tilfinning það er að vera nærð og kyrr innra með mér. Svo ég er líklegri til að grípa í þær leiðir sem ég kann þegar þörf krefur. Best er ef ég næ að fyrirbyggja að fara á þennan stað. Regluleg iðkun er mín besta forvörn. Og góður skammtur af sjálfsmildi.
Ójafnvægi í huganum birtist í líkamanum og öfugt. Hugur og líkami speglast hvor í öðrum. Þegar við erum búin að borða yfir okkur verður líkaminn kraftlaus og við verðum þung í skapi. Léleg melting er ein af birtingarmyndum streitu og þá fer öll orkan í að reyna að melta. Þegar við fáum ekki útrás fyrir orkuna okkar, verðum við óþolinmóð og pirruð og þá náum við ekki að slaka á og finna frið. Streita dregur fram veikleika okkar. Jafnvægi er lykill að vellíðan.
Góðu fréttirnar eru þær að það er heilmargt sem við getum gert til að sækja okkur orku og til að finna henni farveg. Öndunin er ekki bara líflínan okkar heldur líka dásamlegur orkugjafi sem færir með sér kyrrð og friðsæld ef við lærum að beisla hana og virkja krafta hennar. Hreyfing er líka mikivæg þegar kemur að því að vingast við streitu. Og hugleiðsla getur stutt okkur í að bæta gæði hugans og hækka hann í tíðni.
Jóga- og hugleiðsluiðkun kennir okkur að vera ekki of trúgjörn á innihald hugans og þjálfar okkur í að eiga meðvitaðra samband við hugsanir okkar. Að stækka okkur svo við getum orðið vitni að hugsununum í stað þess að leyfa óstýrilátum huga að ráða ferðinni. Reynslan sýnir að þeir sem iðka jóga og hugleiðslu fara að sækja í heilbrigðari lífsstíl semhliða iðkuninni.
Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld
andartak@andartak.is
Lífstíll | Breytt 9.3.2023 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýársheit með mildum tón
31.12.2022 | 11:57
Nýtt ár er nýtt upphaf. Í minni fjölskyldu hefur skapast sú hefð að setjast niður og fara yfir liðið ár, að velja tóninn fyrir næsta ár og eitt eða fleiri orð sem við ætlum að nota sem áttavita þetta árið. Flest okkar tengja nýtt ár við að skapa sér nýjar venjur, að lyfta lífinu upp í nýja tóntegund. Áramótaheit endurspegla þessa ósk okkar um nýtt og betra líf.
Áramótaheit geta verið skammlíf. Oft er það vegna þess að þau eru óljós fyrir okkur. Það þýðir samt ekki að þau eigi ekki rétt á sér. Það er ekki auðvelt að umbreyta gömlum venjum og það getur verið gagnlegt að hafa stuðning við að setja niður hæfilega stór skref í einu þar til markmiðinu er náð.
Stundum eigum við það til að setja okkur óraunhæf markmið sem einkennast af fullkomnunaráráttu og verðum svo fyrir vonbrigðum með okkur sjálf ef það næst ekki.
Algeng áramótaheit eins og að vilja léttast, komast í form eða borða heilsusamlega eru góð markmið. En stundum eru þau lituð af óþolinmæði eða kröfu um að við eigum að líta út á einhvern ákveðinn hátt eða standa okkur betur en við erum að gera. Þegar þannig viðhorf með dæmandi undirtóni laumast inn í áramótaheitin okkar erum við komin í stríð við okkur sjálf. Fullkomnunarárátta kemur okkur sjaldan þangað sem við viljum fara. Sjálfsmildi er mjög mikilvægur grunntónn.
Orðið mitt fyrir þetta komandi ár er einfaldleiki. Ég áset mér að fagna ófullkomleikanum og vera opin fyrir björtum glugga einfaldleikans. Ég ætla að hlusta með fótunum á jörðina sem nærir mig og gefa flækjum hugans rými til að greiða úr sér í stað þess að leyfa þeim að skilgreina mig. Ég ætla að gefa unglingnum mínum færri góð ráð og hlusta meira á hann. Og mig langar til að sýna sjálfri mér og öðrum meiri mildi á nýju ári.
Hver er þinn ásetningur fyrir nýtt ár?
Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld
andartak@andartak.is
Lífstíll | Breytt 9.3.2023 kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)