Færsluflokkur: Bloggar

Shakti dans

shakti_web_minni.jpgÁ undanförnum árum hafa sprottið upp ýmsar aðferðir sem spegla leit okkar að kjarnanum í okkur sjálfum – mitt í öllu því áreiti og álagi sem við búum við. Við þurfum á því að halda að safna okkur saman og slaka á og um leið að gefa sköpunarkraftinum okkar lausan tauminn.
 
Shakti dans er form af dansi og jóga sem hefur notið vaxandi vinsælda víða um heim. Jóga sem hægt er að dansa við. Þetta form af dansjóga leiðir saman visku jógafræðanna annars vegar og skapandi dansflæði hins vegar. Með því að umbreyta dansi í jóga varð til form af jógaiðkun sem er full af skapandi lífsorku.

Dans fyrr og nú

Á vesturlöndum hefur dans aðallega verið stundaður sem afþreying og skemmtun, en í gegnum söguna hefur dans verið leið til að dýpka tenginguna við okkur sjálf og við hvort annað. Til að fagna og njóta samvista hvert við annað.  Í Shakti dansi er hægt að snúa aftur til þessara djúpu samskipta og gleðinnar yfir að dansa.  Hver tími er einstakur og þróast á sinn eigin hátt í skapandi flæði. Shakti dans eykur jafnvægi á milli sálar og líkama í gegnum flæðandi jógastöður og dans og hjálpar okkur að þróa vitund okkar og skilning á líkama, huga og tilfinningum.

Shakti dans á Íslandi

Við eru svo heppin að eiga von á Shakti danskennara frá Spáni í byrjun mars. Aragyua Simran Pal Kaur sem starfar ásamt því að kenna kundalini jóga og shakti dans sem dansari og “líkamsmálari”

Shakti dans var þróaður af Avtar Kaur sem er þjálfaður dansari og hefur kennt kundalini jóga í yfir 20 ár. Hún er auk þess söng- og leikkona og segist hafa dansað allt sitt líf. Hún hefur hlotið þjálfun í fimleikum, tai chi, chi gong, ballett, jassballett, salsa, austrænum -, indverskum og afrískum dansi og Shakti dans nærist á þessum ólíku hefðum hreyfingar. Avtar er fædd og uppalin í Englandi og búsett í Róm.

Shakti – táknmynd sköpunarkraftsins

Shakti er táknmynd kvenorkunnar í jógafræðunum. Shakti stendur fyrir sköpunarorkuna í heiminum – frumsköpunarkraft sálarinnar. Shakti þýðir orka, kraftur, hreyfing, breyting, náttúra. Öll sköpunin verður til í gegnum helgan andardrátt hennar.  Hún tjáir sig í gegnum sálina okkar og í gegnum hin mörgu mismunandi form lífsins. Shiva er hliðstæða hennar í formi karlorku. Shiva er hin tæra vitund sem ekki breytist. Óendanleg, ósveigjanleg, vitni alls sem við upplifum.

Tvær hliðar á shakti

Í fornum Vedískum ritum er talað um hin mörgu form Shakti. Maya shakti er blæja blekkingarinnar og fær okkur til að týnast í dansi heimsins svo við gleymum uppruna okkar og uppsprettu. Við það týnum við líka sambandinu við okkur sjálf, tilganginn í lífinu og uppsprettu lífsorkunnar. Önnur hlið á Shakti er Cit Shakti – ljós viskunnar, kraftur meðvitundarinnar sem býr í hjörtum okkar allra og hvetur okkur til þroska og andlegrar vakningar.

Að koma jafnvægi á orkubrautir í gegnum dans

Shakti dans hefur eins og kundalini jóga þann fókus að vekja og víkka út vitundina til þess að sálin nái að skína í gegn í daglegu lífi. Shakti dans fléttar saman austrænan og vestrænan dansstíl, bæði klassískan dans og nútímadans og um leið hvílir fókusinn á undirliggjandi lögmálum forms og hreyfingar. Mismunandi tjáning á “geði” eða “innra veðri” (bhavas) og hin ólíku form af dansi urðu þannig að aðgengilegum “verkfærum” til þess að velja á milli og sem hægt er að beita til að örva innri orku á nákvæman og jafnvægisgefandi hátt. Shakti dans opnar og kemur jafnvægi á fíngerðar orkubrautir líkamans í gegnum hreyfingu í takti við andardráttinn – í flæðandi jógastöðum.  Dansarinn öðlast hækkaða líkamsvitund og hugleiðsluástand ásamt tilfinningu fyrir léttleika, tærum huga og vellíðan.

Dans sem tjáning sálarinnar

Dans er eitt af tjáningarformum verundar okkar og getur verið eitt af hennar tærustu formum.  Sálin skín í gegn þegar við erum mest í náinni snertingu við okkur sjálf. Þegar flæði líkamans er opnað í gegnum hreyfingu og vakandi athygli, þá verður dansinn að jóga. Þegar við losum um líkamlega spennu þá víkkar hugurinn sig út handan líkamans. Sofandi líkamshlutar vakna í krafti meðvitundar og orka tónlistar og tilfinninga flæðir á skapandi hátt í gegnum okkur. Með því að dýpka samband okkar við orkustöðvarnar vaknar hjá okkur næmni og fínleiki á hærri tíðni en áður. Líkaminn verður þannig að hljóðfæri sem Guðlega sjálfið okkar tjáir sig í gegnum.

 

Guðrún Arnalds - Darshan - gudrun@andartak.is

Andartak - jóga- og heilsustöð        


Heilandi viska ayurveda og jóga

klippt-3.pngJóga og ayurveda eru systurvísindi - bæði upprunnin frá Indlandi og hafa þrátt fyrir háan aldur náð að afla sér mikilla vinsælda á vesturlöndum.

Jóga er leið til að tengja við birtuna innra með okkur og gefa henni rými. Nokkuð sem er mjög mikilvægt og dýrmætt einmitt núna í skammdeginu. Jóga gefur okkur verkfæri til þess að hlúa að okkur sjálfum og efla innri styrk.

Kundalini jóga getur stutt okkur í því að velja það sem nærir okkur í stað þess að leyfa huganum að ráða. Það getur hjálpað iðkendum að umbreyta neikvæðum hugsunum og mynstrum sem hindra þá í lífinu og koma sér upp heilbrigðari venjum og hugmyndum um sjálfa sig.

Ayurveda byggir á heildrænni sýn á manneskjuna og náttúruna og sýnir okkur hvernig maður og náttúra eru fléttuð saman í eina heild. Samkvæmt vísindum ayurveda eru frumöflin fimm – jörð, vatn, eldur, loft og ljósvaki (eter) til staðar í okkur öllum. Eldurinn sem brennur innan í jörðinni er lika í maganum á okkur, jörðin sem veitir líf er líka hluti af okkur, loftið umhverfis okkur er líka innra með okkur. Þessi fimm frumefni birtast í okkur í 3 megin orkuformum; VATA, PITTA OG KAFFA.

Vata er til sem allt loftið sem við geymum í tómum rýmum í líkamanum. Vata gefur okkur hreyfingu og jafnvægi bæði á huga, líkama og tilfinningar, aðlögunarhæfni, sköpun, áhuga og skilning.

Pitta þýðir kraftur meltingarinnar eða hitans – það sem fær hluti til að þroskast og meltast. Pitta hjálpar okkur að melta bæði mat, hugmyndir og tilfinningar og gefur okkur gáfur, hugrekki og lífsorku.

Kaffa er það sem fær hluti til að loða saman og er líkamlegt ílát fyrir pitta og vata eða orku og hita. Kaffa gefur okkur tilfinningu og tilfinningar, ást og umhyggju og tengir okkur við aðra.  Kaffa hjálpar okkur að halda í það sem við höfum eignast eða framkvæmt.

Hver manneskja er með sitt persónulega jafnvægi milli VATA, PITTA OG KAFFA. Það sem við borðum, drekkum, hugsum, hvernig daglegur taktur okkar er; allt þetta og margt fleira hefur áhrif á þetta jafnvægi. Með því að læra að þekkja grunnlíkamsgerð okkar og hvað við þurfum að gera til að halda jafnvægi getum við sjálf skapað okkur heilbrigðan líkama og hamingjusama sál.

Jafnvægi: Við erum eins og þrífótur – líkami, hugur og sál. Í vestrænum lækningum erum við með mismunandi lækna fyrir hvern líkamshluta. Hjartalæknirinn spyr okkur um kólesteról – ekki ástarmálin okkar. Ayurvedalæknirinn meðhöndlar alltaf heildina og sjúkdómsgreiningin er alltaf sú sama: “Ójafnvægi”. Það eru tvær megin ástæður fyrir ójafnvægi; ytri aðstæður –árstíðarbreytingar, mengun, sýking. Innri aðstæður – streita, tilfinningaójafnvægi, ójafnvægi í meltingu. Ytri aðstæður hafa ekki eins mikil áhrif ef við pössum upp á innri aðstæður.

Janúar er góður tími til að hlúa að þvi sem við höfum og skapa okkur nýja framtíð. Til þess að taka á móti nýjum venjum þurfum við að sleppa þeim gömlu sem oft getur verið átak. Ef við sjáum fyrir okkur að við séum að skuldbinda okkur til að sinna okkar eigin vellíðan, hamingju og tilgangi í lífinu þá verður það mun auðveldara en að hugsa um það sem okkur finnst neikvætt og þarfnast breytinga. Ef við viljum njóta lífsins í krefjandi heimi nútímans er gagnlegt að horfa heildrænt á okkur sjálf og finna leiðir sem styrkja okkur í heild - ekki bara einstaka parta.


Guðrún Arnalds - Darshan - gudrun@andartak.is

Andartak

Námskeiðið "Heilandi viska Ayurveda og jóga"

 


Dansaðu, lifðu, hlæðu, elskaðu - og slakaðu á.

darshan-tre_769_-c.pngNú er haustið byrjað að feykja okkur eins og laufum í vindi inn í gula og rauða litadýrð – og blauta rigningadaga. Lífið er að komast í fastar skorður aftur eftir langa daga sumarsins. Mér finnst svo stutt síðan ég byrjaði að forrækta grænmeti í eldhúsglugganum mínum og beið eftir vorinu með fiðrildi í maganum. Núna andartaki síðar er ég að borða af allsnægtum jarðarinnar – gulræturnar sem eru svo sætar og ég verð að hafa mig alla við að koma brokkolíinu ofan í fjölskylduna mína áður en það vex úr sér og fer að blómstra. Um leið og ég þakka fyrir alla þessa gnægt – reyni ég að leyfa ekki leiðanum yfir að sumarið skuli vera búið að yfirgnæfa þakklætisröddina. Þakklæti er svo yfirmáta gefandi tilfinning.

Á þessum árstíma er veðrið enn breytilegra en venjulega og meiri þörf á að hlúa vel að okkur svo við stöndum af okkur haustkvef og –flensur - og streitupúkann. Það er líka svo mikilvægt að muna að hlæja og geyma sumarsólina áfram í hjartanu – svo við getum lýst okkur sjálfum í gegnum veturinn.  Ég hef verið að vanda mig alveg sérstaklega við það þetta haustið að láta ekki daglegt amstur og streitu verða of hávær - og að halda í friðinn í hjartanu hvað sem á dynur. Það hefur gengið nokkuð vel hingað til. Og hæfilegt magn af streitu er jú bara af því góða. En ég þarf að vera mjög vakandi. Það er svo auðvelt að fara að trúa því að “þetta bara verði að gerast núna – þrátt fyrir að ég sé þreytt og hafi enga orku í að leysa verkið af hendi”. En þannig hefur streitupúkinn oft náð að plata mig út í tóma vitleysu – og áður en ég veit af er tankurinn tómur og ég hætti að geta sofið vel.

Ég er búin að vera að hugleiða það vandlega í sumar hvað það er sem gefur mér gleði. Hvernig ég missi sambandið við uppsprettuna innra með mér um leið og ég leyfi álaginu og þar með hávaðanum í huganum að komast upp fyrir ákveðinn styrk. Og af því ég kenni jóga þá er ég svo meðvituð um að ég vil vera jákvæð fyrirmynd – og þegar ég er það ekki finnst mér ég ekki alveg vera heil í því sem ég er að gera. Ég finn það svo sterkt hvernig ég verð að vera í sambandi við þorstann eftir sálinni minni til þess að finnast ég vera á lífi. Ég verð að trúa á það sem ég er að gera og gera það af heilu hjarta. Um leið og ég er hálfshugar og nýt þess ekki alveg að vera ég þá dofnar aðeins ljósið innra með mér – og ég fer að missa tengslin við uppsprettuna sem nærir mig.

Þegar tankurinn verður tómur þá getur orðið til vítahringur þar sem ég fer að keyra áfram á adrenalíni í stað lífsorku. Þá fer ég að leita í sykur eða einhvers konar spennu - eitthvað sem gefur mér falska tilfinningu fyrir orku – en sem í raun gengur enn meira á orkutankinn minn. Sumir leita í kaffi og sjónvarp og rifrildi geta líka verið afleiðingin þegar tankurinn verður tómur. Í jóga lærum við að hlaða batteríin í gegnum öndunaræfingar, jóga, djúpa slökun og hugleiðslu.

Kundalini jóga – sem er það form af jóga sem ég stunda og kenni býr yfir miklum fjársjóði af visku sem kennir okkur hvernig við getum lifað og tekist á við álag og haldið orkuflæðinu opnu. Ég þekki ekki neina leið sem virkar jafn hratt og kröftuglega og kundalini jóga. Galdurinn liggur í að opna kistuna og láta hana ekki bara liggja þarna ónýtta. Hver sem þín fjársjóðskista er – skora ég á þig að hafa hana áfram opna.

Guðrún Arnalds - Darshan  / gudrun@andartak.is

Jóga- og heilsustöðin Andartak


Er þinn hugur ótaminn eða takmarkalaus?

sjore_04092014_mg_7424_pp.jpgÞekkir þú þinn eigin huga? Kanntu að hafa hemil á honum? Veistu að meirihluta fólks skortir virkt og meðvitað samband við eigin huga? Og veistu að ef þú ert ekki með meðvitað samband við hugann þá er það hugurinn sem stjórnar þér - ekki öfugt?

Það þýðir að ef þér gengur illa að glíma við einhverja venju sem er farin að hafa neikvæð áhrif á líf þitt – þá er það hugurinn sem er búinn að taka völdin og þú ert ekki lengur við stjórnvölinn.  Og það veldur því að þú kannski reiðist óvænt – án þess að ætla það –eða þú fyllist af kvíða við ákveðnar aðstæður – eða kannski finnst þér lífið erfitt og alvörugefið. Þá er það reiðigusan, kvíðahnúturinn eða alvarleiki lífsins sem velja þig. Það ert ekki þú sem velur heldur hugurinn.

Hugleiðsla kennir okkur að byggja upp virkt samband við hugann. Og þá getum við farið að velja meira hvernig okkur líður, við hvað hugurinn dvelur og við getum farið að velja okkar eigin viðbrögð.

Hugurinn er eins og ótaminn hundur sem snuðrar um allt og er alltaf forvitinn. Ef við ákveðum að eignast hund þá þurfum við að þjálfa hann ef við eigum ekki að sitja uppi með hömlulausan hund sem geltir á allt og alla, Á sama hátt þurfum við að læra að temja hugann okkar ef hann á að geta starfað fyrir okkur á jákvæðan og uppbyggjandi hátt.

Hugurinn er margbrotið og heillandi fyrirbæri. Hann er stærsti fjársjóðurinn sem þú átt og hann býr yfir óendanlegum möguleikum. Ef þú lærir að eiga sterkt samband við hugann þá áttu þar öflugra tæki en þú getur ímyndað þér - og sem getur skapað þér bæði hamingju og velsæld eða bara hvað sem þú vilt.

Undanfarna mánuði höfum við í jóga- og heilsustöðinni Andartak boðið fólki að hugleiða með okkur - heima og eða í Andartaki og styðja þannig þá sem vilja koma sér upp daglegri hugleiðslu.

Nú er að byrja ný fjörutíu daga hugleiðsla hjá okkur og allir velkomnir að taka þátt. Hvort sem þú ert iðkandi í Andartaki eða ekki ertu velkomin-n að koma og hefja hugleiðsluna með okkur og fá leiðbeiningar til að halda áfram.

Guðrún Darshan, jógakennari og hómópati

Jóga- og heilsustöðin Andartak

gudrun@andartak.is


Hugleiðsla og hamingja

mudraiii_1254290.pngÞessa vikuna stendur tímaritið "Í boði náttúrunnar" fyrir skemmtilegum viðburði undir heitinu "Friðsæld í febrúar" þar sem verið er að gefa fólki kost á að prófa hugleiðslu á mismunandi formi út um allt land. Mjög skemmtilegt framtak. Jóga- og heilsustöðin Andartak tekur þátt í viðburðinum og býður upp á fjörutíu daga sameiginlegt hugleiðsluátak. 

Ég hugleiði daglega sjálf og finnst það alveg ómissandi hluti af deginum. Hér á eftir fara nokkrar hugleiðingar um hugleiðslu.

Hugleiðsla er tími með okkur sjálfum, til að endurnærast,finna kyrrðina hið innra og eiga stund með sálinni okkar. Tími til að hlusta, finna aftur taktinn innra með okkur og gefa heiminum fyrir utan frí á meðan. Hún kennir okkur að styrkja hlutlausa hugann svo við getum betur valið viðbrögð okkar og haldið í æðruleysið þegar á móti blæs.



Í hugleiðslu verður hugurinn hreinn og tær og við gefum óendanleikanum rými til að tala innra með okkur. Þannig fáum við fjarlægð á daglegt amstur um stund og í fjarlægðinni virðast þau ekki eins stór og yfirþyrmandi. Þá eigum við það til að sjá lausnir sem við sáum ekki áður.

Best er að hugleiða daglega. Ég mæli með því að byrja á að setja sér það markmið að hugleiða reglulega 40 daga. Þannig sköpum við nýjan vana. Fyrst mótum við vanann og svo mótar vaninn okkur. Samkvæmt jógafræðunum tekur það 40 daga að brjóta upp venjur sínar, 90 daga að búa til nýjan vana, 120 daga að festa nýja vanann í sessi og 1000 daga að verða meistari yfir nýja vananum.

Við erum öll mismunandi upplögð frá degi til dags, suma daga er meira álag en aðra, suma daga erum við sátt við lífið og aðra ekki, en ef við höldum áfram í gegnum allar þessar innri og ytri sveiflur að setjast niður, kyrra hugann og eiga samtal við sálina okkar þá sköpum við smám saman nýjan vana sem styður okkur þegar á reynir og þannig kennum við huganum að þjóna okkur – í stað þess að vera þrælar hans.

Í jóga- og heilsustöðinni Andartak bjóðum við reglulega upp á sameiginlega 40 daga hugleiðslu sem fólk gerir ýmist með okkur í jógatímum eða heima hjá sér. Hægt er að taka þátt í henni hvar sem er á landinu. Við erum einmitt að byrja á einni slíkri í þessari viku og það er ekki of seint að byrja núnasmile

Hugleiðsla hreinsar undirvitundina og áruna okkar. Okkur finnst öllum sjálfsagt að fara reglulega í bað.  Það er jafn mikilvægt að hreinsa  hugann – annars verður hann ofhlaðinn. Regluleg hugleiðsla er eins og góður vinur sem nærir okkur og gefur góð ráð.

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á jákvæð áhrif hugleiðslu og aukna hamingju þeirra sem hugleiða reglulega. Það hefur til dæmis verið sýnt fram á að við erum öll með ákveðna staði í heilanum fyrir jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Þeir sem hugleiða reglulega virðast virkja meira þann hluta heilans þar sem við upplifum jákvæðni og almennt finna fyrir meiri hamingju.

Í öllum hraðanum og áreitinu sem við flest búum við er ómissandi að geta átt nærandi stund með sjálfum sér og að hreinsa út úr huganum svo við getum komið fersk og ný að verkefnum líðandi stundar og átt innihaldsríkari samskipti við okkar nánustu.

“Njóttu hugleiðslunnar. Ef þú sinnir henni daglega og leyfir þér að upplifa hana þá verður hún að gullnum þræði sem tengir þig við óendanleikann.” Yogi Bhajan

Andartak jóga- og heilsustöð   gudrun@andartak.is


Fyrst skapar þú vanann og svo skapar vaninn þig

7360135_s.jpgFyrst skapar þú vanann og svo skapar vaninn þig. Þú ert það sem þú endurtekur. Það sem þú gerir aftur og aftur ómeðvitað styrkir “meðvitundarleysi" og “slæmu og óhollu” venjurnar þínar. Það sem þú endurtekur meðvitað og reglulega styrkir “góðu og hollu” venjurnar þínar. Góðu venjurnar styrkja þig í að verða betri manneskja, að vaxa og upplifa þig sem sterka manneskju.

Okkur hættir til að láta jólafríið setja okkur úr takti og þá missum við stundum út góðu venjurnar. það getur verið sérstaklega mikið átak að koma sér af stað og finna taktinn aftur í byrjun árs.

Það er átak fyrir flesta að breyta venjum sínum og mikilvægt að koma sér upp stuðningsneti og leiðum sem styðja og styrkja okkur í að viðhalda þeim. Mér finnst oft gott að byrja á að fjarlægja úr umhverfinu það sem viðheldur gömlu venjunum. Ef ég held til dæmis áfram að kaupa súkkulaði eftir jólafríið þá verður eiginlega ómögulegt fyrir mig að borða það ekki - sem er kannski ekki vandamál ef ég get stoppað.

Það er líka mjög gagnlegt að koma sér upp reglu í lífinu. Að vakna alltaf á svipuðum tíma og helst að fara snemma að sofa og vera ekki að vinna frameftir. Mér finnst líka mjög gott að koma mér upp ákveðinni rútínu. Ég er með ákveðna morgunrútinu sem hjálpar mér að fara endurnærð út í daginn,  Ég byrja daginn á hugleiðslu sem ég geri alltaf áður en ég fer fram úr rúminu. Svo ber ég á mig olíu og fer í sturtu áður en ég fæ mér morgunverð. Olíunuddið mitt á morgnana endurnærir mig alltaf - sama hversu þreytt ég er þegar ég vakna. Þegar ég fer þannig út í daginn verður dagurinn miklu auðveldari og skemmtilegri en annars. Og ég er líklegri til að sýna sjálfri mér og öðrum þá alúð sem við eigum öll skilið.

Ég hugleiði yfirleitt alla daga og mér finnst það vera akkerið í lífi mínu. Dagleg hugleiðsla gefur mér svör þegar mig vantar góð ráð - svona eins og að fara til góðs ráðgjafa sem allt veit. Hugleiðslan mín gefur mér líka tilfinningu fyrir því að ég tilheyri einhverju stærra - og ég verð hamingjusamari. Og mér finnst hún gefa mér stöðugleika í taugakerfið - svona eins og ég  verði stöðugri innra með mér. Auk þess sem öll samskipti við mína nánustu verða ánægjulegri. Semsagt ómissandi lífsförunautur. Ég hef samt ekki alltaf hugleitt daglega og þegar það hefur dottið út hefur það oft tekið dálítið á að byrja aftur.

Mér finnst það ómissandi að fara reglulega í jóga. Jóga kennir mér og minnir mig á að hlusta á sjálfa mig - að fara ekki fram úr mér - og fær mig til að langa til að koma mér upp heilnæmum venjum. Og þar finn ég líka félagsskap fólks sem hefur frekar uppbyggjandi áhrif á mig en hitt.

En aðalatriðið finnst mér að muna að vera ekki of hörð við sjálfa mig og skamma mig ekki þó ég falli í gamlar gildrur og missi sjónar á markmiðum mínum. Að gleyma ekki að elska og samþykkja sjálfa mig eins og ég er - þrátt fyrir alla mína bresti.

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð  gudrun@andartak.is

 


Vetrarsólstöður - Ljósið fæðist í myrkrinu

1335532_high.jpgÁ hverju ári þurfum við að mæta myrkrinu og á hverju ári fylgjumst við með því hvernig ljósið fæðist á ný um leið og sólin fer aftur að hækka á lofti. Vetrarsólstöður eru 21. desember og þá er lengsta nótt ársins.  Orðið sólstöður vísar til þess að sólin stendur í stað. Hún hættir að lækka á lofti, fer síðan að hækka aftur hægt og bítandi og ljósið sigrar myrkrið. 

Vetrarsólstöður eru á kaldasta tíma ársins. Í gegnum söguna hefur veturinn verið tími til að leggjast inn í hýði, tími kyrrðar, depurðar, hungurs, svefns, myrkurs og kulda. Á vetrarsólstöðum fögnuðu mennirnir endurkomu sólarinnar sem lífgjafa  og vonargjafa mitt í öllum kuldanum og myrkrinu. Í dag fögnum við fæðingu frelsarans og ljóssins í hjartanu. Í heiðni var þessi hátíð líka kölluð jól. Freyr var guð kærleika og frjósemi, guð árs og friðar. Óðinn átti sér mörg nöfn, þeirra á meðal voru jólafaðir og jólnir. Óðinn stendur fyrir visku og innri styrk, en hann var líka meistari hinna dauðu- drauganna.

Á vetrarsólstöðum og jólum erum við að takast á við myrkrið og tendra ljósið innra með okkur. Til þess þurfum við að horfast í augu við skuggahliðarnar okkar og draugana í lífi okkar. Mér finnst þessi tími ytra myrkurs kalla mig inn á við. Ég hugleiði daglega flesta daga ársins en á þessum árstíma verður það enn auðveldara og mér finnst ég vera nær kyrrðinni. En líka einmitt vegna alls annríkisins í lífi mínu og í kringum mig á þessum tíma þá finnst mér það alveg nauðsynlegt að hugleiða til að halda einbeitingu í verkefnunum og til að halda sjálfri mér í jafnvægi. 

Þetta er góður tími til að skoða árið sem er að líða, velta upp hvað við eigum eftir óklárað – verkefni, samskipti, áramótaheit síðustu áramóta og einnig til að undirbúa nýja árið. Þetta er líka tími til að njóta þess góða sem myrkrið færir okkur – kyrrð, frið og endurnýjun.

Á þessum árstíma getum við byggt upp styrk, hreysti og lífsorku. En þetta er líka tími sem er gott að fara sér hægt, njóta þess að vera heima – taka til og gera fallegt í kringum sig. Þetta er góður tími til að taka til í huganum, vinna úr tilfinningum og málum sem við höfum ekki gert upp. Tími til að taka á móti vinum og fjölskyldu, njóta þess að gleðjast og vera saman. Góður tími til að dansa, eiga skemmtilegar stundir – og til þess að fara í jóga og hugleiða. Hugleiðsla hreinsar hugann og hjálpar okkur að vinna úr hlutum.

Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna kenna okkur að á þessum árstíma sé  líkaminn að endurnýja sig og byggja sig upp. Góð næring er því mjög mikilvæg og hreyfing hjálpar líka til við að byggja upp heilbrigðan vef í líkamanum.  Létt mataræði er best, en eins og við vitum þá er jólamáltíðin stundum dálítið þung í maga. Þá getur til dæmis verið gott að nota krydd eins og engifer og fennel til að hjálpa meltingunni. Það má t.d. skera þunna sneið af engiferi fyrir matinn –  setja á hana nokkra sítrónudropa og smá salt. Og tyggja svo vel.  Fennelte eða að tyggja fennelfræ eftir matinn hjálpar líka meltingunni. Meltingarensím er hægt að fá í heilsubúðunum. 

Vetrarsólstöður og það að lifa með myrkrinu hefur haft áhrif á líf fólks í gegnum aldirnar og hefur fengið fólk til að búa sér til helgisiði sem snérust um að fagna sigri ljóssins og lífsins yfir myrkrinu og kuldanum. Ferðalagið úr dái gleymskunnar yfir í allsnægtir, úr meðvitundarleysi yfir í meðvitund, úr myrkri yfir í ljós sækist seint og krefst þolinmæði. Okkur er boðið að leita inn á við, að leita eftir ljósinu innra með okkur til að lifa af. Við sofum meira, hægjum á okkur og bíðum.

Shakespeare sagði; "Myrkrið á sínar góðu hliðar”. Þegar skýin hörfa og stjörnurnar og norðurljósin lýsa upp himininn, þá vaknar hugurinn og við finnum vakna innra með okkur þessa þrá eftir einhverju stærra og meira. Við finnum til smæðar okkar sem einstaklingar og skynjum víddirnar innra með okkur. Megum við öll finna það hugrekki og traust sem við þurfum til að takast á við myrkrið, tengja við ljósið innra með okkur og finna leiðina heim.

Guðrún Darshan Andartak jóga- og heilsustöð gudrun@andartak.is

 


Meistaramánuður - áskorun til þín

sjore_04092014_mg_7644_pp.jpgÉg kynnti mér nýlega hugmyndina um “Meistaramánuð" og komst að því að hún snýst um að hvetja okkur til að taka höndum saman um að víkka út þægindarammann og setja okkur markmið. Það er auðveldara að gera hlutina saman en hvert í sínu horni. Við í Andartaki ákváðum að nota tækifærið og hvetja jógaiðkendur og aðra sem vilja vera með – að koma sér upp daglegri hugleiðsluiðkun í Meistaramánuði.  Í jóga tölum við um að það taki 40 daga að koma sér upp nýjum venjum.

Ef við ætlum að tileinka okkur nýjan lífsstíl er gott að muna að það gerist ekki á einum degi. Það getur verið ágætt vegarnesti að hafa næga þolinmæði gagnvart sjálfum sér og færast ekki í fang meira en við teljum okkur geta staðið við.

Til þess að taka upp nýja siði þurfum við að sleppa gömlum og oft rótgrónum venjum og taka upp nýjar venjur sem þjóna okkur betur. En gömlu venjurnar urðu ekki til á einum degi.

Venjumynstrum okkar mætti líkja við árfarveg sem myndast við flæði vatns eftir sama farvegi ár eftir ár. Þessi mynstur eru til í undirvitund okkar og mynduðust á löngum tíma. Við endurtökum þessi hegðunarmynstur sjálfkrafa og vegna þess hve þau eru rótgróin í okkur er erfitt að sleppa þeim. Til þess er í raun nauðsynlegt að búa okkur fyrst til nýjar venjur. Það er líka mun skemmtilegra að einbeita sér að þvi að koma sér upp nýjum, jákvæðum og uppbyggjandi venjum en að því að losa sig við “slæma” og eða niðurrífandi ávana.

Það er mjög mikilvægt að gera hlutina á eigin forsendum – að finnast við vera við stjórnvölinn. Þetta er í grunninn spurning um viðhorf. Það verður allt miklu auðveldara ef við tökum sjálf ábyrgð á eigin lífi.

Jóga kennir okkur að hlusta á okkur sjálf og að takast á við hugann. Ef við erum ekki meðvituð um spennuna innra með okkur eða það hvernig okkur líður getur lífið orðið svo innantómt og flatneskjulegt. Jóga hjálpar okkur að nálgast dýptina innra með okkur. Flestir anda til dæmis allt of grunnt. Of grunn öndun veldur streitu, gerir okkur einbeitingarlaus og óöguð. Við hættum að upplifa og njóta og förum að gera hlutina ómeðvitað og án gleði.

Jógaiðkun getur hjálpað okkur að taka upp nýjar venjur. Þegar við lærum að takast á við hugann og förum að slaka meira á fylgir því löngun til að gera fleira sem er gott fyrir okkur. Fyrir hverja nýja og  upplyftandi venju sem við tileinkum okkur fylgja yfirleitt margar í kjölfarið.

Dagleg hugleiðsla gefur okkur aukna einbeitingu, dregur úr streitu og kvíða, bætir ónæmiskerfið og eykur sjálfstraustið. Við förum að sjá betur hvert við stefnum og hvað við viljum í lífinu og öðlumst aukið þol fyrir breytingum og erfiðleikum.

Þeir sem vilja taka þátt í áskoruninni geta sent okkur póst á andartak@andartak.is eða bara komið og verið með í fyrstu hugleiðslunni miðvikudaginn 1. okt. kl 16.30 í Andartaki, Skipholti 29A. Hægt er að fræðast meira á Andartak.is

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð / gudrun@andartak.is
 


Hugurinn og hugleiðsla

Hugurinn er okkar mikilvægasti félagi. Við þurfum að vera í góðu sambandi við hugann til blómstra og lifa hamingjusömu lífi.  Jógarnir segja að með því að sigrast á huganum getirðu sigrað heiminn.

Það eru tvær leiðir til að eiga samband við hugann; annað hvort stjórnar þú huganum eða hugurinn stjórnar þér!  Ef hugurinn fær að ráða þá verðum við stefnulaus – eins og lauf í vindi – og förum að láta tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur.

Lífið er ekki undir þinni stjórn og hugurinn ekki heldur.  En hugurinn hlýðir einu – og það er öndunartakturinn – það hversu hratt eða hægt við öndum. Um leið og við hægjum á önduninni þá hægist á huganum.  Og líkaminn fer að slaka á.

Við höfum öll þörf fyrir að tengja við óendanleikann innra með okkur annað slagið. Að næra þögnina innra með okkur svo við getum sótt þangað orku þegar við þurfum að takast á við lífið. Sumir gera þetta í gegnum það að hlusta á tónlist, aðrir í gegnum það að fara út að ganga. Hugleiðsla er enn ein leið. Hún hefur þann viðbótarkost að hún hjálpar okkur að hreinsa undirvitundina og gefur okkur virkt samband við hugann.  Og það sem meira er – þegar við ræktum þannig hugann í gegnum reglulega íhugun, njótum við þess enn betur að ganga og hlusta á fallega tónlist. Í Kundalini jóga er auk þess hægt að sameina þetta allt. Hugleiðsla í kundalini jóga er nefnilega oft gerð í gegnum söng og sömuleiðis er hægt að hugleiða og ganga á sama tíma – gönguíhugun.

Hugleiðsla hreinsar undirvitundina og áruna okkar. Okkur finnst öllum sjálfsagt að fara reglulega í bað.  Það er jafn mikilvægt að hreinsa hugann – annars verður hann ofhlaðinn. Með því að hreinsa undirvitundina reglulega gefum við sjálfum okkur færi á að vinna úr reynslu okkar og takast á við nýjan dag af opnum huga.  Hugurinn verður meira skapandi og við förum að geta betur stýrt venjum okkar.  Samskiptin við okkar nánustu verða betri og við förum að lifa í stærri og áhugaverðari heimi.

Regluleg hugleiðsla er eins og góður vinur sem nærir okkur og gefur góð ráð. Í hugleiðslu uppgötvar þú heilan heim af þér.  Í þeim heimi, í þínu dýpsta eðli er hugurinn þjónn þinn en ekki meistari.

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð - gudrun@andartak.is


Ertu að setja sjálfa-n þig í fyrsta sæti?

dagmar_2_1243745.pngAð setja sjálfa-n sig í fyrsta sæti þýðir ekki að gleyma öllum hinum. Ef við munum eftir að sinna okkur sjálfum og gefum okkur stundir til að endurnærast þá erum við meira í stakk búin til þess að gefa af okkur. Það að gefa af okkur er það sem gefur okkur lífsfyllingu og gleði - og gleðinni fylgir frelsi. Frelsi til að vera við sjálf.

Nú fara skólarnir að hefjast og þá kemst allt í sitt fasta form. Stundum eigum við það til að leyfa annríkinu að gleypa okkur og gleymum hvað það er mikilvægt að eiga líka stundir með okkur sjálfum.

Sumarið skartar enn sínu fegursta og leitast við að gefa okkur innblástur af bjartsýni og gleði. Á meðan við undirbúum okkur í huganum fyrir komu haustsins getur verið ágætt að velta því upp hvernig okkur hefur  gengið hingað til að flétta saman gleði og skyldustörf. Og hvort það sé ekki kominn tími til að setja sjálfa-n sig í fyrsta sæti:-)

Sumarið gefur okkur stundum tækifæri til þess að hlaða batteríin. Og þá ef til vill að finna hvað það er sem skiptir okkur máli í lífinu.  Oft eigum við það þó til að gera of miklar væntingar í sumarfríinu og ætla okkur að gera of mikið. Sem getur jafnvel leitt til þess að við verðum þunglynd og pirruð.

Það er svo mikilvægt að læra að hlusta á okkur sjálf og finna hvað það er sem við þurfum og þráum. Til þess þurfum við stundum að einfalda líf okkar og læra leiðir til að anda og hlusta inn á við. Jóga og hugleiðsla eru afbragðs leiðir til að kenna okkur þetta. 

Jóga er fyrir alla. Það geta allir notið þess að stunda jóga – sama í hvernig líkamsformi þeir eru og engin þörf á að vera sérstaklega liðugur. Markmið jóga meðal annars er að koma á innra jafnvægi og vellíðan í líkamann svo við getum betur gefið okkur af heilu hjarta í allt sem við erum að gera. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda jóga reglulega eiga auðveldara með að ná markmiðum sínum og að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Nú er jóga- og heilsustöðin Andartak að opna aftur eftir sumafrí og allir velkomnir að kíkja við. 

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð / gudrun@andartak.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband