Færsluflokkur: Bloggar

Við erum öll friðsæl, glöð, vitur og kærleiksrík

dreamstime_m_3249526Ég átti samtal við dóttur mína nýlega á netinu og hún gerði þá athugasemd að ég væri of stutt í spuna og notaði ekki nægilega mikið af brosköllum og myndum til að tjá mig. Mér fannst þetta pínu fyndið og ég varð að játa að ég hef ekki öðlast hennar leikni í netsamskiptum. Ég velti þvi fyrir mér hvernig þetta myndi birtast í daglegu lífi. Að segja bara það mikilvægasta og gleyma að láta bros fylgja með eða hlýja strauma. Undir álagi held ég að þetta séu mjög algeng samskipti hjá okkur flestum. Mjög oft án þess að við tökum eftir því þegar þetta gerist.

Streita er orðin svo fastur þáttur í daglegu lífi okkar flestra að við veitum henni ekki lengur eftirtekt. Streita getur verið hvetjandi þegar við þurfum að klára verkefni og gera okkar besta. En ef við náum ekki að höndla hana vel þá getur hún valdið alls konar vandamálum eins og ýmis konar verkjum, svefnleysi, samskiptaerfiðleikum, fíkn, mataróreglu og kvíða – að ótöldum öllum þeim sjúkdómum sem vitað er að eru bein afleiðing langvarandi streitu.

Flest okkar sem búum í nútímasamfélagi erum ekki í góðri þjálfun þegar kemur að því að einbeita okkur. Það er auðvelt að dreifa athygli okkar. Við reynum að gera of margt á of stuttum tíma til að komast í gegnum verkefnalistann. Þegar álagið er yfir meðallagi þá stökkvum frá einni hugsun til annarrar, frá einu verkefni til annars og á milli mismunandi tilfinninga eins og við værum þátttakendur í spennumynd. Það er erfitt að halda einbeitingu þegar lífið kemur að okkur úr öllum áttum. Þannig er athyglin okkar að verða meira og meira dreifð í allar áttir.

Að gera marga hluti í einu gæti virst spara okkur tíma en í raun er það mjög skaðlegt fyrir heilann okkar. Það veikir minni okkar og eykur streitu. Streita getur læðst aftan að okkur mjög hljóðlega. Þegar við erum ekki með skýr mörk á milli vinnu og heimilis. Þegar við erum alltaf að skjóta verkefnum inn á milli þegar það er laus stund þá fer það að verða munaður að eiga tíma fyrir okkur sjálf og njóta líðandi stundar. Við förum jafnvel að fá samviskubit þegar við erum ekki að “koma einhverju í verk”. Þetta er oft mjög ómeðvitað en það hefur mjög djúp áhrif á okkur.

Slökun ein og sér er misskilin og vanmetin í okkar samfélagi. Hún er oft tengd við það að “sóa tímanum”. Hún er oft álitin óþörf jafnvel þó slökun sé í raun lífsnauðsynleg fyrir heilsu okkar og hamingju. Það er mjög algengur misskilningur að við getum slakað á með því að horfa á sjónvarpið eða fara á samfélagsmiðla, með því að drekka áfengi eða borða þegar við verðum eirðarlaus. Þetta eru flóttaleiðir frá því að finna streituna en hafa alls ekki slakandi áhrif í raun.

Ein mikilvægustu skilaboðin í jógafræðunum felast í því að minna okkur á að innst í órjúfanlegum kjarna okkar þá erum við öll friðsæl, glöð, vitur, björt og kærleiksrík. Þessi kjarni er sálin eða okkar sanna sjálf. Í jóga erum við því ekki bara að læra að höndla streitu heldur ennfremur að fá djúpa upplifun á þessum stað innra með okkur. Ef við fáum þessa upplifun reglulega þá fær hún meira rými innra með okkur og verður að viðmiði sem við getum borið daglega líðan okkar saman við.

Regluleg slökun hefur nært mig meira en orð fá lýst. Ég veit ekki hvar ég væri án þess að hafa lært upp á nýtt að slaka raunverulega á. Regluleg jógaiðkun hefur gefið mér aukna meðvitund fyrir eigin líðan þannig að ég tek frekar eftir því þegar ég er komin langt frá friðsæla kjarnanum innra með mér. Það þarf oft ekki mikið til. Nokkrir djúpir andardrættir, að standa upp og fá mér vatnsglas, að fara í stuttan göngutúr eða að gefa mér tíma til að hitta vini mína og ég er endurnærð og lífið verður aftur að ævintýri.

Streita er komin til að vera í okkar samfélagi. Hún á væntanlega ekki eftir að minnka og ef eitthvað er þá er hún að aukast. Í mínum huga er það lífsnauðsynlegt að búa yfir leiðum sem hjálpa okkur takast á við álag svo við getum notið lífsins. Mér finnst mjög notalegt þegar ég get horft yfir daginn og fundið að minnsta kosti nokkra staði í deginum þar sem ég mundi eftir að njóta og þakka fyrir lífið.

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak - jóga og heilsa

gudrun@andartak.is


Láttu vindinn dansa fyrir aftan þig

dreamstime_m_42811315Nýtt ár markar nýtt upphaf. Ljósið hefur fæðst á ný í myrkrinu,sólin byrjar að hækka á himninum og daginn tekur að lengja smátt og smátt. Nýtt ár býður okkur að horfa á lífið í nýju ljósi og sá nýjum fræjum.

Ef við skoðum árið 2018 út frá talnaspeki þá færir árið okkur þörf fyrir stærri sýn á lífið. Við verðum ekki lengur ánægð með að hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið á neinu sviði lífsins. Þetta nýja ár snertir líka streng í okkur sem kallar á andlega rækt og þörf fyrir samhljóm. Samhljóm milli hugar og hjarta, þess sem við hugsum og gerum. Að stilla saman hina ýmsu þætti hversdagsins.

Í jógafræðunum er hægt að skoða líf sitt út frá tímabilum. Með því að skoða þau getum við horft á hvernig við höfum vaxið og þroskast í gegnum ævina. 7 ára tímabilið segir okkur hvernig meðvitundin hefur þroskast og 11 ára tímabilið segir okkur hvernig hugsun okkar hefur þróast. 18 ára tímabilið er tímabil lífsorkunnar. Á 18 ára fresti er okkur boðið að byrja á nýjum lífshring. Fyrstu 18 árin sækjum við lífsorkuna okkar að mestu í næringu, hormón og í taugakerfið. Seinna þurfum við að læra að sækja orkuna líka í gegnum hugann og lífsorkuna í andardrættinum og eftir 54 ára aldur þurfum við líka að geta sótt orkuna okkar inn á fínlegri sviðum sálarinnar. Þess vegna er svo gagnlegt að læra í gegnum lífið að nærast á því andlega og tengja við óendanleikann. Ekki bara sjálfið og veraldlega hluti.

Nú er að ljúka 18 ára tímabili sem hófst um aldamótin fyrir okkur sem samfélag. Þessi hringur sem er að lokast kallar á okkur að tileinka okkur loksins ákveðna hluti. Við þurfum að spyrja okkur; erum við búin að læra? Annars þurfum við að velkjast með þá amk næstu níu árin. Það er átak að koma sér upp úr gömlu fari. Hugleiðsla er eitt besta tækið sem ég þekki til að styðja við mig á þeirri leið. Að gefa mér tíma til að hlusta inn á við og heyra hvað sálin mín vill. Helst daglega.

Einn mikilvægasti lærdómurinn sem við erum að tileinka okkur sem samfélag snýst um kvenorkuna og það fínlega og óséða. Við sem konur þurfum að læra að finna kraftinn okkar í samskiptum, að læra að gera hlutina á okkar forsendum sem konur, að tileinka okkur sjálfstraust, finna að við eigum val, læra af reynslu annarra og hætta að endurtaka sama mynstrið.

Tala ársins 2018 er 11. Ellefu stendur fyrir sambönd – þar með talið samband okkar við Guð eða okkar æðra sjálf. Tengingin við uppsprettuna innra með okkur. Hún stendur fyrir hring sem lokast og um leið nýtt upphaf, nýtt fræ sem við sáum. Talan ellefu er líka hljómur óendanleikans eða uppsprettunnar. Við getum tengt við hann í gegnum möntrur. Möntrur eru öflug tæki til að hreinsa og breyta mynstrum sem liggja föst í undirvitundinni. Það getur verið mjög gefandi að vera með möntrutónlist á heimilinu, í vinnunni og á ferðinni í bílnum. Og að hugleiða á möntrur. Við getum sótt styrk og innri samhljóm í möntrum þegar álagið eykst.

Nýtt ár býður okkur að breyta gömlum mynstrum og koma okkur upp úr gömlu fari. “Andaðu inn og segðu í huganum orðið “sigur” og andaðu svo frá. Þú munt finna styrk frá hundrað englum fyrir aftan þig. Megi nýja árið og lífið vera eins gleðilegt og það getur orðið. Láttu vindinn dansa fyrir aftan þig, englana dansa með þér og vitund þína leiða þig til sigurs” Yogi Bhajan um áramót 1992

Guðrún Darshan, jógakennari, hómópati og markþjálfi

Guðrún Darshan kennir jóga í Bústaðakirkju. Hægt er að skoða námskeiðin á heimasíðu Andartaks: Andartak jóga og heilsustöð

gudrun@andartak.is


Dragðu andann djúpt

images-3Andartakið endurspeglar hugarástand okkar og innri líðan. Lífið býr í andardrættinum. Um leið og við öndum að okkur súrefni öndum við að okkur lífsorku og nærum hugann. Þegar andardrátturinn verður grunnur þá verður hugurinn og tilfinningar okkar að sama skapi grunnar og yfirborðskenndar og við missum einbeitinguna. Við hættum að njóta lífsins og verðum fangar hugans.

Meðvituð öndun hjálpar okkur að stýra viðbrögðum okkar og að glíma við streitu og álag. Hún opnar okkur fyrir því sem hreyfist og flæðir innra með okkur og við förum að njóta andartaksins til fulls.

Streita er stærsta vandamálið í hinum vestræna heimi í dag. Einkenni streitu eru til dæmis kvíði, einbeitingarskortur, neikvæðar hugsanir, hækkaður blóðþrýstingur, lélegt ónæmiskerfi og hraðari öldrun.
 Þeir sem stunda jóga reglulega tala um miklar breytingar á andlegri og líkamlegri líðan. Til dæmis að þeir finni síður fyrir skammdegisþunglyndi. Annað sem reglulegir jógaiðkendur tala um er aukin orka, meiri lífsgleði og aukinn hæfileiki til að slaka á.


Streita er ekki sjúkdómur heldur ástand þar sem ytra álag er orðið meira en innri lífsorka okkar ræður við. Jóga hjálpar okkur að hlaða batteríin, fá betri yfirsýn svo við eigum auðveldara með að forgangsraða og gefur okkur fjarlægð á vandamálin svo þau sýnast ekki alveg eins stór.

Bara það að dýpka andardráttinn getur haft mikil áhrif á líðan okkar og andlega næringu. Um leið og við öndum dýpra þá hægist á huganum og upplifun okkar á lífinu verður aðeins dýpri og innihaldsríkari. Það skerpist á einbeitingunni. Við förum að taka betur eftir því sem er í kringum okkur og það verður auðveldara að beina athyglinni inn á við. Hvernig væri að prófa núna – að anda nokkra djúpa meðvitaða andardrætti og sjá hvað gerist?



Darshan - Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og markþjálfi


Vorverkin í huga, líkama og sál


images-2_1302118.jpgVorið  er tími til að fæðast upp á nýtt og njóta þess að sjá lífið vakna í kringum okkur.

Tími til að sá fræjum og skjóta rótum svo við getum nærst í gegnum sumarið og haldið stöðugleika okkar. Þetta er upplagður tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur og koma okkur upp nýjum siðum sem þjóna okkur og næra.

Þó vorið sé kærkomið þá getur verið átak að hrista af sér vetrardoðann og margir eiga erfitt með að taka á móti vorinu af sama krafti og hugurinn myndi óska sér. Það er ekki óalgengt að fólk fái kvef og alls kyns ofnæmiseinkenni á vorin og þunglyndi tekur stundum aukadýfu einmitt á vorin þegar síst varir.
 
Ayurveda, systurvísindi jógafræðanna  fjalla um það hvernig veturinn getur safnast upp innra með okkur.

Vetrinum fylgir kuldi og raki og við speglum þessa eiginleika innra með okkur. Við höfum tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Á vorin þurfum við að varpa af okkur þessari kápu. Annars eigum við það á hættu að fá vorkvef og frjókornaofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum. 

Vetrinum fylgir ákveðinn drungi, dofi gagnvart lífinu og það geta myndast stíflur innra með okkur. Eins og í vorleysingum getur allt farið að losna þegar vorið birtist og stöku klakar geta strandað á steini úti í miðri á áður en þeir bráðna. Orkuflæðið okkar getur farið skrykkjótt af stað og drunginn getur verið búinn að koma sér þægilega fyrir og verið tregur að standa á fætur.
 
Á vorin er mikilvægt að hugsa sérstaklega vel um flæðið innra með okkur. Jóga gefur okkur verkfæri til þess að hreinsa og lyfta okkur upp í tærara flæði. Jógaiðkun á vorin er sérstaklega gagnlegur stuðningur við að sleppa því sem við þurfum ekki á að halda, opna fyrir lífsorkuflæðið og finna fyrir vorinu sem vex líka innra með okkur.
 
Samkvæmt ayurveda er meðalið eða mótvægið fyrir vorið að búa sér til takt og rútínu fyrir daginn sem hjálpar okkur að létta okkur líkamlega og tilfinningalega án þess að trufla stöðugleikann innra með okkur. Best er að nálgast þetta frá mörgum hliðum; borða létt fæði, hreyfa sig og fara út í náttúruna.

Jóga er mjög gagnlegt á þessum tíma og hjálpar okkur að nýta tækifærið sem býr í vorinu - tækifæri til að sá nýjum fræjum og umbreyta staðnaðri orku og virkja heilunarmátt líkamans. Þar koma  öndunaræfingar og hugleiðsla mjög sterkt inn. Kundalini jóga er einstaklega vel til þess fallið að efla orkuflæði líkamans og skapa þannig rými fyrir vorgleðina.

 

Guðrún Arnalds - Darshan - jógakennari og markþjálfi

 

Andartak - jóga og heilsa

 

gudrun@andartak.is

 


Lífsorka og streita

-dreamstime_m_39899517Einhver sagði einhvern tíma að það skipti ekki máli hversu lengi við lifum, heldur hversu full af lífsorku við erum í andartakinu. Ekkert okkar vill bara halda lífi. Við viljum finna lífið streyma um æðarnar og leyfa lífinu að finna fyrir okkur.

Í grískri goðafræði er sagt frá Eos, gyðju dögunar og Tithonus elskhuga hennar sem var mannlegur. Eos bað Seif um að gera elskhuga sinn eilífan svo þau mættu njóta eilífrar sælu saman. En Eos gleymdi að biðja um lífsorku og eilífa æsku handa Tithonusi. Svo hann lifði í eilífðinni og var fangi hennar og bað stöðugt um að dauðinn mætti taka hann.

Þetta er sterk lýsing á togstreitunni innra með okkur: löngunin til þess að lifa að eilífu og óttanum við ellina. Við óttumst skortinn á lífsorkunni meira en dauðann. Án lífsorkunnar er lífið bara skuggi tilvistarinnar.

Menning okkar vill fá okkur til að trúa því að lífsorka sé eitthvað sem tilheyri fyrst og fremst æskunni, eitthvað sem við getum fengið til baka með því að taka pillu, drekka orkudrykki eða borða einhvern sérstakan mat. Eitthvað sem við sækjum fyrir utan okkur sjálf.

Jógafræðin kenna okkur að lífsorkan sé hluti af okkur – eiginleiki sem tilheyrir vitund okkar. Ekki eitthvað sem við sækjum okkur eða eigum, heldur gjöf sem er alltaf með okkur – gjöf sem við getum tekið á móti, nært og sleppt. Það er nóg af lífsorku, við þurfum bara að tengja við hana. Jógaiðkun gefur okkur samband við uppsprettuna innra með okkur og opnar fyrir orkuflæðið.

Lífsorka er ákveðin meðvitund. Lífsorka er mýkt og sveigjanleiki í líkamanum og viljastyrkur. Lífsorka er ástand líkama, hugar og sálar þar sem við getum alltaf gert okkar besta.

Margt getur hindrað flæði lífsorkunnar. Mikilvægir þættir sem viðhalda flæði orkunnar okkar eru til dæmis svefn, regla, nærandi fæða, jafnvægi í vinnu, gleði og jákvæður hugur. Grunnorkan okkar er eins og innistæða í banka. Ef við göngum á hana þarf að gæta þess að hlaða batteríin að nýju. Það er ekki alltaf auðvelt en það er hægt.

Jóga getur byggt upp lífsorku, hreyft við orkunni sem við erum þegar með og losað um hindranir sem stöðva okkur í að finna eigin orku. Takmarkið er að nota orkuna sem er alltaf með okkur. Við getum endurhlaðið orkubatteríin okkar á 15-20 mín. Af því lífsorkan er hluti af okkur.

Streita er kraftur eða áhrifavaldur sem heftir okkur. Við upplifum streitu eða álag þegar innri uppsprettan okkar er ekki næg eða svo stífluð að við getum ekki brugðist rétt eða vel við aðstæðum. Streita getur gert okkur hrædd, kvíðin og reið. Stundum eru viðbrögð okkar undir álagi ekki eins og við myndum vilja hafa þau. Jógarnir segja að 85% af hegðun okkar sé sjálfkrafa og ákvarðist af umhverfi okkar.

Lífsorkan okkar minnkar þegar við hindrum lífskraftinn – tökum ekki við honum. Þegar við afneitum tilfinningum okkar og bælum þær í stað þess að deila tilfinningunum og vinna úr þeim. Eins og fljót sem streymir til sjávar þurfum við að tengjast uppsprettunni, annars þornum við upp og hættum að hafa eitthvað til að gefa okkur sjálfum og öðrum.

Það er svo mikilvægt að finna sér leiðir til að endurnærast, hlaða batteríin í öllu því áreiti sem við búum við í daglegu lífi nútímans. Þannig fyrirbyggjum við orkuleysi, svefntruflanir, vöðvabólgu og önnur áhrif af langvarandi streitu og opnum fyrir flæði lífsorkunnar. Að fara út að ganga í hádeginu er góð leið til að skipta um gír á miðjum degi. Í jóga erum við að leyfa okkar eigin lífsorku – prönu – að endurnæra okkur. Við fáum frið frá skvaldrinu í huganum, tengjum við hjartað og styrkjum um leið sambandið við viskuna innra með okkur.

Jóga og endurnæring í Andartaki. Við bjóðum upp á tvö námskeið reglulega í Andartaki: Lífsorka, hamingja og hugleiðsla. Og Djúpslökun og hugleiðsla

Guðrún Darshan, jógakennari og markþjálfi

Andartak - jóga og heilsa

gudrun@andartak.is


Nýtt ár, nýtt ljós, nýr farvegur

ljos-stigi.jpgNýtt ár markar nýtt upphaf. Ljósið hefur fæðst á ný í myrkrinu, sólin byrjar að hækka á himninum og daginn tekur að lengja smátt og smátt. Við komum aftur til starfa eftir jólafrí, vonandi með endurnýjaða krafta og löngun til að takast á við áskoranir komandi árs. Nýtt ár er þannig tækifæri til að horfa á lífið í nýju ljósi og jafnvel velja og forgangsraða upp á nýtt.

Ef við skoðum árið 2017 út frá talnaspeki þá færir árið okkur nýtt upphaf, fræ sem við sáum, nýja vitund til að vaxa inn í, ný verkefni og nýjar víddir. Árið 2017 er ár til að rækta með þér sjálfstæði – að standa á eigin fótum, að vera þú sjálfur. Að sýna þér samkennd og kærleika og bjartsýni á eigin mátt og megin. Og að leyfa ljósinu innra með þér að sjást og skína, ár fyrir vaxandi meðvitund og ljóma.

Hugrekki

Árið 2017 stendur líka fyrir jafnvægi milli hugar og hjarta. Og hugrekki. Upprunaleg merking orðsins „hugrekki“ er að tjá hug sinn – að tala frá hjartanu. Það kallar á hugrekki að fylgja hjartanu, að hlusta á sálina og þora að leyfa ljósinu sínu að skína. Þetta ár átt þú valið – allt eða ekkert – ljós eða skuggi. Hvar viltu vera? Þetta er ár til að gefa þitt besta og uppskera margfalt.

Meðvitund og viðhorf

Meðvitund er skemmtilegt orð. Að vera með vitund. Að vera vakandi. Að heyra það sem skynfærin, hjartað, húðin segja mér. Ég finn það á mér. Ég veit í hjarta mér. Stundum (og allt of oft) eru hugur og hjarta ekki í takti. Hvaða sögu er ég að segja mér í kringum það sem ég upplifi? „Ég vil ekki þetta – ég vil hafa þetta öðru vísi“. Þarna kemur meðvitundin sterk inn. Að vera með því sem ég finn. Vera með því sem er. Ekki því sem huganum mínum finnst að ætti að vera. Þetta erum við að þjálfa í jóga. Að anda inn í það sem er, það sem við finnum.

Þegar vindurinn blæs á móti getum við þjálfað okkur í að dvelja ekki í því sem okkur finnst um vindinn – að dvelja ekki í því sem okkur finnst að. Við getum tekið eftir að eitthvað er erfitt og svo valið að anda inn í það. Við getum þjálfað okkur í því að finna til forvitni. Hvað er að vakna í mér? Hvað er ég að læra núna? Kannski er einmitt það sem er erfitt að vekja þig. Kannski er það einmitt eitthvað sem er að beina þér í rétta átt. Kannski er hægt að beina orkunni sem fer í að berjast á móti því sem er – í nýjan farveg. Væri það ekki spennandi? Að losa þannig fullt af orku úr læðingi?

Að hlusta á sálina

Við getum þjálfað okkur í að hlusta. Hlusta á hjartað og sálina. Þetta er verðugt verkefni sem við getum orðið betri í með tímanum. Að hlusta með opinn huga, án þess að bregðast við því sem við heyrum, án þess að segja söguna sem hugurinn segir okkur, án þess að hafa skoðun á því sem við heyrum.

Um leið og við lærum að hlusta á þennan hátt lærum við líka þá list að velja hugsanir okkar, taka eftir neikvæðu hugsununum þegar þær koma og beina huganum í nýjan farveg.

Því er það ekki það sem við upplifum sem gefur lífinu gildi? Það sem við finnum þegar við tengjum við aðra og tengjum við lífskraftinn okkar?

Við getum líka lært að forðast það sem tekur okkur úr sambandi við hjartað og býr til djúpa hólfarið sem við festumst í. Leyfa því sem nærir okkur að hafa pláss í lífinu. Mínar uppáhaldsleiðir til að næra mig eru gönguferðir í náttúrunni, að hugleiða, dansa, synda, mála, hlæja. Hverjar eru þínar leiðir?

Guðrún Darshan, jógakennari og markþjálfi

Andartak - jóga og heilsa

gudrun@andartak.is

 


Vetrarsólstöður og töfrar hversdagsleikans

Vetrarsólstöður og aðventa eru mjög heillandi tími og líka erfiður fyrir marga. Á þessum tíma fylgjumst við með hvernig myrkrið vex og vex, dagurinn styttist og nóttin lengist, þangað til sólin kemst ekki neðar og getur bara byrjað að rísa á ný. Þannig fæðist ljósið enn og aftur í myrkrinu og sólin fer að hækka á lofti. Nýtt upphaf og ný tækifæri.

Á þessum tíma er sagt að blæjan sem aðskilur hinn veraldlega heim frá heimi andanna og andans verði þynnri en venjulega. Að við eigum greiðari aðgang að ljósinu og myrkrinu sem býr innra með okkur og  undirvitundinni. Draugasögurnar eru ekki bara til í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Við erum líka með drauga innra með okkur í formi gamalla viðbragða og afstöðu til lífsins, gamalla hugsana sem þjóna okkur ekki lengur og sjálfsmyndar sem hefur staðnað.

Þessi tími er því tilvalinn til þess að fara inn í myrkrið innra með okkur og finna ljósið, að horfast í augu við skuggana og skúmaskotin í huga okkar og lýsa hann upp með nýrri visku og nýjum áherslum. Að velja hver við viljum vera og næra þann hluta af okkur sem við viljum standa fyrir. Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Við reitum arfann og sáum nýjum fræjum. Til að sleppa því gamla þurfum við að velja og vökva það sem við viljum fá í staðinn.

Í skóla sonar míns er mjög falleg athöfn á hverju ári í byrjun aðventu þar sem öll börnin ganga eitt og eitt í einu inn í miðjan spíral þar sem eitt kerti logar. Þau kveikja á sínu kerti inni í miðjum spíralnum og ganga svo hljóðlega út aftur og leggja kertið frá sér einhvers staðar á leið út úr hringnum. Þannig ganga þau inn í kyrrðina innra með sér og sækja þangað ljósið til að geta komið með það út í heiminn eins og sólin sem birtist á ný.  

Það þarf kjark til að breyta, til að halda áfram að vaxa, til að sleppa því sem við þurfum ekki og opna fyrir nýja hluti. Mikilvægur þáttur í þessu ferli er að sjá fyrir okkur hvernig við viljum hafa lífið, hvað við viljum standa fyrir í þessum heimi, hvaða drauma við viljum sjá rætast. Það getur verið skemmtilegur leikur á aðventu að taka fram liti og blöð og mála árið sem er að líða og nýja árið eða setjast niður í næði og skrifa bréf til stóra sjálfsins síns. Hvaða drauma vilt þú vökva á nýju ári?

Guðrún Arnalds - Darshan - gudrun@andartak.is 

Andartak jóga- og heilsustöð


Kanntu listina að slaka á?


slo_776_kun-klippt.pngÞað að kunna að slaka á er ekki sjálfgefið – að minnsta kosti ekki fyrir okkur sem lifum við álag og áreiti nútímalífs. Við erum misviðkvæm fyrir streitu og áreiti en flest eigum við það sameiginlegt að geyma streitu í líkamanum – líka þegar dagurinn er að kvöldi kominn og við gefum sjálfum okkur leyfi til að taka lífinu með ró. Þetta er oft djúpt liggjandi spenna í taugakerfinu sem erfitt getur verið að ná í og fá líkamann til að slaka á.

Í flestum tilfellum erum við ekki meðvituð um nema hluta af þeirri spennu sem við geymum i líkamanum. En eins og með allt annað getum við endurheimt hæfileikann til að slaka á – eins og við getum þjálfað aftur upp vöðva.

Heilabylgjur og slökun

Taugafrumur í heilanum senda frá sér bylgjur á mismunandi tíðni - og þannig er hægt að mæla stig slökunar. Þegar við erum vakandi sendir heilinn frá sér Beta-bylgjur. Flest okkar erum í beta ástandi þegar við erum að hugsa. Alfa bylgjur koma þegar við erum slök. Þær eru taldar hjálpa okkur að græða líkama og huga. Ef við slökum aldrei á, þá eru streituhormón í stöðugri virkni og hæfileiki okkar til að læra og vera skapandi minnkar. Þeta bylgjur koma þegar við erum í djúpum svefni, eða mjög djúpri slökun eða hugleiðslu. Þær hjálpa okkur að læra, vaxa og græða líkama og huga. Delta bylgjur eru líka til staðar þegar við erum sofandi eða meðvitundarlaus eða í djúpu hugleiðsluástandi. Gamma bylgjur koma fram þegar við erum óvenjulega vakandi og næm fyrir umhverfi og upplýsingum.

Djúp slökun og hugleiðsla geta aukið magn af alfa bylgjum og með aukinni þjálfun einnig aukið tíðni delta, þeta og gamma bylgna. Í kjölfarið verðum við hæfari til að takast á við álag, líkamleg og andleg heilsa okkar eflist og það verður auðveldara fyrir líkamann að græða og vinna úr hlutum sem hrjá okkur.

Á námskeiðinu "Djúpslökun og hugleiðsla" er lögð áhersla á að þjálfa okkur í að slaka djúpt á og skapa friðsæld innra með okkur. Námskeiðið er reglulega í boði í Andartaki í Bústaðakirkju.

Guðrún - Darshan

Nánar hér: Djúpslökun, heilun og hugleiðsla

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is

 


Taktur hjartans

ho_769_pur-i_769_-tre_769_-b_1293241.pngNú er komið haust og lífið að komast í skorður. Ég lagði af stað inn í haustið með skýrar fyrirætlanir um að leyfa sumarhvíldinni að fylgja mér inn í veturinn og að muna nú að láta ekki streituna ná tökum á mér. Það hefur gengið ágætlega hingað til en það gerist ekki alveg af sjálfu sér. Ég þarf að minna sjálfa mig á og taka mér stundir til að endurnærast bæði þegar lífið flæðir áreynslulaust og líka þegar álagið verður meira. Það gefur mér ekki bara frí frá amstrinu heldur líka innblástur og svör við spurningum mínum. Og þannig byggi ég líka upp sterkt ónæmiskerfi gagnvart neikvæðni og vantrú á sjálfa mig.

Það koma alltaf dagar sem ég gleymi mér og þar sem mér tekst ekki að halda í kyrrðina og lífskraftinn. Til dæmis ef ég er illa sofin eða hef ekki sinnt sjálfri mér - þá fer ég jafnvel að samsama mig með álaginu og finnast ég vera undir þrýstingi - að þetta og hitt verði að gerast strax - jafnvel þó ég sé í raun of þreytt eða úr takti við sjálfa mig til þess. Þá eiga neikvæðar hugsanir greiðari aðgang að mér og þá hætti ég að sjá og hugsa skýrt.

Hæfilegt magn af streitu er af hinu góða. Hún gefur okkur skýran fókus og hæfni til að bregðast við. En þegar streitan tekur völdin þá verður lífið svo bragðlaust og hugurinn lokast fyrir möguleikum og fegurð lífsins. Og þá er mjög auðvelt að missa móðinn. 

Þess vegna er svo mikilvægt að vera með stuðningsnet fyrir hamingjuna.

Mínar helstu endurnæringarleiðir eru jóga, hugleiðsla, gönguferðir í náttúrunni og sund. Og mér finnst mikilvægt að vera hluti af hóp sem styður mig. Að fara reglulega eitthvert þar sem ég sæki mér innblástur og að hafa það innbyggt í stundaskrána mína.

Þegar álagið er mikið þá þarf ég að geta sótt í eitthvað sem virkar hratt og örugglega. Þar finnst mér öndunaræfingar vera alveg ómissandi "endurlífgunartæki". Stutt stund,jafnvel bara þrjár til fimm mínútur af jafnvægisgefandi öndunaræfingum geta haft ótrúlega mikið að segja.

Jógaiðkun og hugleiðsla hafa á lengri tíma gefið mér mjög dýrmæta hluti - eins og meiri lífsorku og lífsgleði, bætt samskipti við mína nánustu og jákvæðara lífsviðhorf. Ég hef líka undanfarið verið að sjá mikilvægi þess að setja mér markmið og vera þannig í takti við það sem hjartað mitt dreymir og tilbúin að taka á móti framtíðinni þegar hún kemur.

Því er það ekki einmitt taktur hjartans sem gefur okkur líf?

Við í Andartaki erum að flytja okkur um set og verðum með námskeiðin okkar í Bústaðakirkju í vetur. Allir velkomnir!

Guðrún - Darshan

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is


Vorleysingar á huga og líkama

sjore_04092014_mg_7729_pp.jpgÞó vetur konungur sé enn ekki farinn að gefa okkur mjög skýr merki um að hann ætli að fara að láta af völdum þá vitum við samt í hjarta okkar að vorið er á næsta leiti.  Bjartir morgnar eru mjög kærkomnir eftir allt myrkrið og innan um snjóbreiðurnar má sjá í grænt gras sem heldur sjálfsagt að það sé að villast þegar það lítur í kringum sig. Sumir aðkomurunnar eru jafnvel farnir að bruma þó heimavönu birkinu finnist það sjálfsagt mjög glannalegt og óviturlegt.

En á meðan getum við að minnsta kosti farið í gönguferðir, hlustað eftir nýjum fuglahljóðum og látið okkur dreyma um vorið og sumarið. Þegar vorið bræðir veturinn nærumst við á birtunni og græna litnum - stundum fáum við ofbirtu í augun til að byrja með.

Þó við flest okkar tökum vorinu fagnandi þá getur verið átak að hrista af sér vetrardoðann og margir eiga erfitt með að taka á móti vorinu af sama krafti og hugurinn myndi óska sér.  Það er ekki óalgengt að fólk fái kvef og alls kyns ofnæmiseinkenni á vorin og þunglyndi tekur stundum aukadýfu einmitt á vorin þegar síst varir.

Mér fannst það mjög gagnlegt þegar ég kynntist heildrænni visku jógafræðanna að heyra að þetta ætti sér eðlilegar skýringar.  Jóga og systurvísindi þeirra – ayurveda kenna okkur um mikilvægi þess að lifa í takti við okkur sjálf og árstíðirnar og hlusta á líkama, huga og sál. Þau fjalla um það hvernig veturinn getur safnast upp innra með okkur. Vetrinum fylgir kuldi og raki og við speglum þessa eiginleika innra með okkur. Við höfum tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Á vorin þurfum við að varpa af okkur þessari kápu. Annars eigum við það á hættu að fá vorkvef og frjókornaofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum.  Vetrinum fylgir ákveðinn drungi, dofi gagnvart lífinu og það geta myndast stíflur innra með okkur. Eins og í vorleysingum getur allt farið að losna þegar vorið birtist og stöku klakar geta strandað á steini úti í miðri á áður en þeir bráðna. Orkuflæðið okkar getur farið skrykkjótt af stað og drunginn getur verið búinn að koma sér þægilega fyrir og verið tregur að standa á fætur.

Á vorin þurfum við að hugsa sérstaklega vel um flæðið innra með okkur. Þegar við erum í jafnvægi finnum við styrk okkar og stöðugleika.  Skortur á innra jafnvægi á vorin lýsir sér oft í því að við erum syfjuð eða með sljóan huga og jafnvel þunglynd. Það gæti líka fylgt því aukið slím í lungum eða kinnholum, ógleði og vatnssöfnun eða þungi í útlimum.  Þeir sem þekkja til ayurveda kannast kannski við að þetta er lýsing á of miklu kaffa.

Í ayurveda er meðalið ekki bara eitthvað sem þú tekur inn heldur líka lífsstíll og taktur í deginum. Meðalið eða mótvægið fyrir vorið er þá að búa sér til takt og rútínu fyrir daginn sem hjálpar okkur að létta okkur líkamlega og tilfinningalega án þess að trufla stöðugleikann innra með okkur. Best er að nálgast þetta frá mörgum hliðum; borða létt fæði, hreyfa sig – fara út í náttúruna. Jóga er mjög gagnlegt á þessum tíma og þá ekki síst öndunaræfingar og hugleiðsla. Í kundalini jóga er fullt af kríum sem hreyfa við orkunni og opna fyrir orkuflæðið.

Daglegar reglubundnar venjur eru nauðsynlegar til að halda góðri heilsu og til að okkur líði vel. Þær hjálpa okkur að lifa í takti við innbyggða líkamsklukku okkar og við náttúruna og að hlusta á okkur sjálf. Daglegar venjur gefa okkur sjálfstraust, sjálfsaga, innri frið, hamingju og langt líf.

Það er til dæmis himneskt að byrja daginn á að nudda líkamann upp úr olíu og fara svo í sturtu. Morgunganga eða örstutt jóga gefur okkur færi á að opna hugann fyrir nýjum degi og þeim tækifærum sem hann færir okkur. Og stutt hugleiðsla á eftir. Þriggja mínútna hugleiðsla hefur ótrúlega mikil áhrif ef hún er gerð daglega.

Létt  hreinsun er af hinu góða. Og ekki síður að sleppa öllu þessu sem íþyngir okkur – eins og gömul ágreiningsmál við aðra, sorgir sem við eigum eftir að vinna úr eða fyrirgefning sem bíður eftir að koma fram í dagsbirtuna. Við höfum tilhneigingu til að halda í gamlar sögur, oft erfiðu sögurnar okkar - að segja þær aftur og aftur – og þannig halda þær áfram að lifa. Á þennan hátt erum við jafnvel að endurskapa þær. Það er mikill léttir að sleppa gömlum höftum.

Vorið er tími til að fæðast upp á nýtt og njóta þess að sjá lífið vakna í kringum okkur. Tími til að sá fræjum og skjóta rótum svo við getum nærst í gegnum sumarið og haldið stöðugleika okkar. Þetta er upplagður tími til að hreinsa líkamann og sleppa því sem við þurfum ekki á að halda lengur og koma okkur upp nýjum siðum sem þjóna okkur og næra.

Jákvæð hlið vorsins er kærleikur, samkennd og breytingar – sem geta leitt af sér djúpa umbreytingu. Við getum notað vorið til að sá nýjum fræjum og tekið meðvitaða ákvörðun um að rækta með okkur gleði, samkennd og þakklæti og opnað þannig fyrir birtunni í hjartanu.

Andartak – jóga og heilsustöð
gudrun@andartak.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband