Færsluflokkur: Bloggar

Að búa til rými fyrir vorgleðina

6222773_xl_1236942.jpgNú er vorið loksins alveg búið að syngja burtu veturinn og sumarið framundan. Íslenska sumarið er okkur dýrmætt - það varir svo stutt og er fullt af birtu og endurnærandi orku. Vorið er góður tími til að hreinsa bæði líkamann og hugann, að létta á farangrinum sem við burðumst með. Það er svo miklu auðveldara að taka sumrinu opnum örmum með opinn huga.

Við í Andartaki erum búin að eiga dásamlega vorhreinsun saman á námskeiðinu “Sterk ára, tær hugur, blómstrandi heilsa.” Þar sem við einbeittum okkur að því að fyrirgefa og sleppa, og lifa í núinu í stað þess að halda fast í söguna okkar. Við höfum tilhneigingu til að halda í gamlar sögur, oft erfiðu sögurnar okkar - að segja þær aftur og aftur – og þannig halda þær áfram að lifa. Á þennan hátt erum við jafnvel að endurskapa þær. Það er mikill léttir að sleppa gömlum höftum. Við eigum örugglega eftir að endurtaka þetta námskeið – það var svo skemmtilegt.

Systurvísindi jógafræðanna - Ayurveda – kenna okkur mikilvægi þess að lifa í takti við náttúruna, hlusta á hvað hún hefur að segja og fylgja ráðum hennar. Ayurveda – vísindi og viska lífsins- fjalla meðal annars um eiginleika innra með okkur – vata, pitta og kaffa - sem við geymum í mismunandi hlutföllum. Þessir eiginleikar lýsa frumöflunum – vata er loftið og rýmið innra með okkur, pitta er eldurinn sem drífur meltinguna og skýra kraftmikla hugsun, kaffa er ílátið sem geymir eldinn og vatnið, og gefur okkur festu og kyrrð. Fyrir þá sem ekki þekkja til Ayurveda er hér hægt að lesa meira.  Á vorin þurfum við að hugsa sérstaklega vel um kaffa. Þegar kaffa er í jafnvægi finnum við styrk okkar og stöðugleika. Ef kaffa fer úr jafnvægi erum við oft syfjuð eða með sljóan huga og jafnvel þunglynd. Það gæti líka fylgt því aukið slím í lungum eða kinnholum, ógleði og vatnssöfnun eða þungi í útlimum.  Það er sérstaklega mikilvægt að koma jafnvægi á kaffa á vorin því kaffa safnast upp á veturna og getur valdið veikindum þegar vorið kemur.  Vetrinum fylgir kuldi og raki og þá speglum við þessa eiginleika í okkur sjálfum og höfum tilhneigingu til að borða og sofa meira, sitja inni og búa okkur þannig til vetrarkápu til að einangra okkur gegn kuldanum. Á vorin þurfum við að varpa af okkur þessari kápu af kaffayfirflæði – annars eigum við það á hættu að fá vorkvef og alls kyns ofnæmi – eða við gætum fundið fyrir framtaksleysi og tilfinningaþyngslum. 

Meðal vorsins samkvæmt þessum aldagömlu vísindum er að búa sér til takt og rútínu fyrir daginn sem hjálpar okkur að létta okkur líkamlega, huglægt og tilfinningalega án þess að trufla stöðugleika kaffa. Best er að nálgast þetta frá mörgum hliðum: Borða létt fæði, hreyfa sig – fara út í náttúruna. Jóga er mjög gagnlegt á þessum tíma og þá ekki síst öndunaræfingar og hugleiðsla. Í kundalini jóga er fullt af kríum sem hreyfa við orkunni og opna orkuflæðið.

Guðrún Darshan. Andartak jóga- og heilsustöð / andartak@andartak.is


Ósýnilegir töfrar lífsins

 

 

 

images-5.jpgVið erum öll með áru eða rafsegulsvið í kringum okkur, hvort sem við skynjum hana eða ekki. Áran gefur okkur næmni og vernd. Í gegnum það að skynja áruna okkar getum við líka lært að skynja fíngerðari víddir í okkur sjálfum. Sterk ára verndar okkur og gefur okkur geislandi nærveru.

Árið 2014 er samkvæmt jógískri talnaspeki ár árunnar. Áran tengist tölunni sjö- en hún fæst með því að leggja saman tölurnar í árinu – þversumman af 2014 er sjö.


Jógísk talnaspeki á rætur sínar í fornri speki jógafræðanna og var þróuð áfram til að hjálpa okkur að skilja betur lífsferðalag okkar, styrk okkar og veikleika og hvernig við getum nært sambandið við okkar innra og æðsta sjálf.  

Kundalini jóga býður upp á virk tæki til þess að nýta talnaspekina á praktískan hátt. Í gegnum það að þekkja tölurnar okkar getum við styrkt veika þætti í okkur sjálfum og nært styrkleika okkar með jógaiðkun og hugleiðslu.

Talan sjö í Kundalini jógafræðunum stendur eins og áður sagði meðal annars fyrir áruna okkar.  Áran gefur okkur vernd og næmni fyrir umhverfinu. Þegar við lifum hratt og gefum okkur ekki tíma til að upplifa og vinna úr hlutum – þá verður hugurinn ofhlaðinn – og það sést í árunni. Áran okkar birtir það sem við höfum ekki náð að vinna úr. Eitt af því sem styrkir áruna er því að fyrirgefa – fyrirgefa okkur sjálfum og öðrum – hvað sem það er sem við höfum ekki náð að sleppa úr vitund okkar.

Það eflir líka áruna að setja okkur markmið
– að lyfta huga okkar hærra og gefa lífi okkar tilgang. Og að sjá það sem er og dvelja í andartakinu í stað þess að vera alltaf að leita að einhverju öðru en því sem við höfum - að upplifa í stað þess að vera fangar hugans.

Þetta er ár til þess að skipta út sektarkennd fyrir heilbrigða skynsemi. Að fyrirgefa og tengja okkur þannig á nýjan hátt við fortíðina. Að eiga samband við fortíðina sem er laust við þörf fyrir að amast út í okkur sjálf eða aðra.

Þrátt fyrir að við vitum að enginn annar ber ábyrgð á okkar eigin upplifun þá eigum við það flest til að falla í þá gildru að ásaka aðra og dæma. Og jafnvel þó við finnum ekki fyrir þessum eiginleikum í dag þá eru mynstur þeirra til í undirvitund okkar – og í árunni okkar.  

Þess vegna þjónar það tilgangi að hreinsa til í huganum – og í árunni þar með. Það er ekki síður mikilvægt að hreinsa til í huganum en að baða líkamann. Það er mjög nærandi venja að hugleiða daglega. Það þarf ekki að taka langan tíma.  Hægt er td að byrja á 3ja mínútna daglegri hugleiðslu. Hugleiðslan "kirtan kriya" kemur jafnvægi á hugann og á áruna og er mjög aðgengileg fyrir óvana hugleiðsendur. Hér má lesa um hana.

Fyrir árið 2014 er hægt að velja hugleiðslur sem hjálpa okkur að fyrirgefa, hreinsa burtu drauga fortíðarinnar, hugleiðslu fyrir aukinn styrk hugans, fyrir tæran huga og hugleiðslu sem hjálpar okkur að sjá hið óséða og þekkja hið óþekkta.  

Ef við gefum okkur það að eiga daglega stund með okkur sjálfum – hvaða form sem við veljum að setja henni – verðum við sterkari og hamingjusamari.  

Það er líka góð iðkun að skrifa – og tæma þannig hugann og sjá hugsanir okkar í skýrara ljósi. Til að endurskipuleggja hugmyndir okkar um veruleikann til að hefja okkur upp yfir vandamálin og sjá þau minnka með yfirsýninni.  

Lífið er svo ríkt af ósýnilegum töfrum. Ef við reynum að skilja allt og skilgreina þá verður lífið svo grátt og litlaust. Áran og víddirnar innra með okkur tilheyra þessum djúpu óleystu ráðgátum sem við getum notið þess að upplifa og skynja og kannski getum við lært eitthvað nýtt um okkur sjálf og lífið í leiðinni.

 

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð  andartak@andartak.is


Gjöfin að vera kona - dóttir, móðir, amma, gyðja

12134476_xxl.jpgKonur eru alltaf að takast á við breytingar í gegnum ævina. Í hverjum mánuði með mismunandi hormónaflæði og í gegnum ævina í þeim mismunandi hlutverkum sem konan gegnir. Dóttir, móðir, amma – konur samsama sig mjög sterkt með hlutverkum sínum – mun sterkar en karlar gera – og þess vegna hafa þessar breytingar mjög djúp áhrif á okkur. 

Konur eru í eðli sínu mjög sterkar – á annan hátt en karlar. Þær búa yfir ríku innsæi, sköpunarkrafti og tilfinningalegum styrk. Ef innsæið er sterkt þá finnum við ekki til ótta heldur treystum okkar innri leiðsögn og vitum hvert við stefnum. Til þess að nýta þennan innra styrk okkar þurfum við að vera meðvitaðar um hann og geta sótt hann innra með okkur. Þess vegna er öll andleg rækt mjög mikilvæg fyrir konur.

Konur þurfa að næra andann til að upplifa hamingju. Þær geta gert það í gegnum það að vera skapandi, með því að upplifa náttúruna og svo er hugleiðsla mjög holl og góð fyrir konur. Hugleiðsla kennir okkur að skynja dýptina innra með okkur og gefur okkur sjálfstraust. Og hún hjálpar okkur að hreinsa undirvitundina. Konur sækja öryggi sitt í víddina innra með sér og finnst því oft eitthvað vanta í líf sitt þó þær njóti veraldlegs öryggis ef þennan þátt vantar. Ef þær gefa sér ekki tíma eða rými til að næra þetta samtal við vitru konuna hið innra.

Konur hafa í gegnum kvennabaráttuna haft tilhneigingu til þess að reyna að herma eftir styrk karlmanna og reyna að verða sterkar á þeirra forsendum en ekki sínum eigin. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur konur að læra að átta okkur á hvað það merkir að vera sterkar og halda samt áfram að vera konur - ekki herma eftir þessari ímynd af sterkum karlmanni. 

Kona getur haft mikil og jákvæð áhrif í kringum sig ef hún er í góðu jafnvægi en að sama skapi getur hún haft mjög neikvæð áhrif á umhverfi sitt ef hún er það ekki. Þetta getur brotist út sem nöldur eða óánægja þar sem við gleymum að meta það sem við höfum. Þegar kona er neikvæð hefur það margfalt meiri áhrif en þegar karlmaður gerir það af því hún er hjarta heimilisins. Við þurfum að átta okkur á ábyrgðinni sem felst í því að vera kona. Það sem er styrkur konunnar ef hún er í jafnvægi getur snúist gegn henni ef hún er í ójafnvægi og gert hana óstöðuga og óánægða.

Einn af veikleikum konunnar er þegar henni finnst hún þurfa að fá viðurkenningu frá umhverfi sínu í stað þess að meta sig sjálf að verðleikum. Jógafræðin kenna okkur að mótvægið liggi í því að finna til þakklætis.

Kundalini jógafræðin búa yfir miklu flæði af visku fyrir konur – um það hvað það þýðir að vera kona – um styrk hennar og veikleika, um það hvernig hún getur átt innihaldsríkari samskipti við sína nánustu og um hæfileika konunnar til að skapa sinn eigin veruleika.  Eitt af því sem jógafræðin fjalla um sem er mjög heillandi eru “Mánasvæði konunnar”.  Ellefu svæði á líkama konunnar sem eru virk í tvo og hálfan dag í senn. Hverju mánasvæði fylgir ákveðin tilfinning eða tjáning. Mánasvæðin eru ein leið til að skilja þær miklu sveiflur sem konan ferðast í gegnum í hverjum mánuði. 

Yogi Bhajan, meistari í Kundalini jóga hafði oft að orði að siðferðisstyrkur hverrar þjóðar birtist í andlitum kvennanna. Hann átti við að þegar karlmenn heimsins bera virðingu fyrir konum og börnum þá yrði friður á jörðinni. Og að þegar konur sýna hver annnarri vinsemd og kærleika þá þorna tárin. “Þú heldur kannski að konan sé fótaþurrka við útidyrnar”, sagði Yogi Bhajan, “en ég held að hún sé hliðið að himnaríki. Þú heldur kannski að konan sé “chick” (gella / skvísa) en ég trúi að hún sé eins og örn. Þokkafullar hreyfingar hennar halda jörðinni á sporbaug sínum.”

Það er afar mikilvægt fyrir konur að leita leiða sem henta hverri og einni til að koma sér í jafnvægi svo hún geti dvalið í styrk sínum, flogið hátt og blómstrað og haft jákvæð áhrif á samfélagið í leiðinni. 

 Jógafræðin eiga svo sannarlega erindi til kvenna í dag og geta kennt okkur að hlusta og skilja okkur sjálfar betur og finna okkar sanna styrk. Við í Andartaki bjóðum upp á námskeið sem gefa konum færi á að kynnast visku jógafræðanna fyrir konur. Hægt er að lesa nánar um það á heimasíðu Andartaks - sjá hér: Dansaðu, lifðu, hlæðu, elskaðu - og slakaðu á.

Guðrún Darshan Andartak jóga- og heilsustöð  gudrun@andartak.is


Dragðu djúpt inn andann

Andartakið endurspeglar hugarástand okkar og innri líðan. Lífið býr í andardrættinum - við öndum að okkur súrefni og um leið lífsorku og nærum hugann með djúpum andartökum. Þegar andardráttur okkar verður grunnur þá verður hugurinn og tilfinningar okkar að sama skapi grunnar og yfirborðskenndar og við missum einbeitinguna. Við hættum að njóta lífsins og verðum fangar hugans.
 
Öndunin er lykill að því að því að ná valdi yfir huganum, stýra viðbrögðum okkar og að glíma við streitu og álag. Meðvituð öndun  opnar vitund okkar fyrir því sem bærist innra með okkur - og við förum að njóta andartaksins til fulls.  
 
Streita er stærsta vandamálið í heiminum í dag. Einkenni streitu eru til dæmis kvíði, einbeitingarskortur, neikvæðar hugsanir, hækkaður blóðþrýstingur, lélegt ónæmiskerfi og hraðari öldrun.
 
Þeir sem stunda jóga reglulega tala um miklar breytingar á andlegri og líkamlegri líðan. Til dæmis tala þeir um að þeir finni síður fyrir skammdegisþunglyndi.  Annað sem reglulegir jógaiðkendur tala um er aukin orka, meiri lífsgleði. aukinn hæfileiki til að slaka á.

Streita er ekki sjúkdómur heldur ástand sem er í grunninn mjög huglægt. Ef við ætlum að hafa áhrif á þetta ástand er nauðsynlegt að dýpka andardráttinn. Um leið og við dýpkum andardráttinn þá fylgir hugurinn eftir og dýpkar upplifun sína – við förum að finna í stað þess að vera fangar hugans.  Förum að taka eftir því sem er í kringum okkur og að beina athyglinni inn á við.  Öndunaræfingar eru mjög öflug leið til þess að fá hugann til að slaka á. Það sést í augunum á þeim sem stunda reglulega öndunaræfingar – þau fá glampa og lífsorku.
 
Hér er öndunaræfing sem er um leið hugleiðsla og er mjög gagnleg gegn streitu:
 
Hugleiðsla fyrir friðsælt hjarta

unknown-1.jpgSittu með krosslagða fætur og hálsloku á – þ.e.a.s. hökuna að bringu án þess að horfa niður. Lokaðu augunum eða horfðu beint fram með augun 1/10 opin.

Settu vinstri höndina á hjartað, lófann flatan upp við brjóstið og fingurna lárétt við gólf – í átt til hægri.  Hægri hendin er í Gyan mudra (fingurgómar vísifingurs og þumalfingurs snertast og hinir vísa beint upp).  Lyftu hægri hönd upp til hægri við þig eins og þú værir að sverja eið.  Lófinn snýr fram.  Olnboginn slakur við síðuna.

Einbeittu þér að önduninni. Andaðu meðvitað alla leið inn og alla leið út. Andaðu hægt og djúpt inn um nefið, lyftu brjóstinu og haltu loftinu inni eins lengi og þú getur.  Andaðu þá frá, mjúkt, hægt og alveg út.  Þegar þú hefur andað alveg frá, haltu þá loftinu úti eins lengi og þú getur.

Haltu þessari löngu djúpu öndun áfram í 3-31 mínútu. Ljúktu hugleiðslunni með því að anda djúpt og kröftugt inn 3svar sinnum.  Slakaðu á.

Umsögn: Hið rétta heimili fíngerðu orkunnar, prönunnar (lífsorkunnar) er í lungum og hjarta. Vinstri lófinn er staðsettur við eðlislægt heimili prönunnar, og skapar þannig djúpa kyrrð í hjartanu. Hægri höndin sem við tengjum við framkvæmd og skilgreiningu er í móttækilegri, afslappaðri stöðu. Þessi staða handarinnar stendur fyrir frið. Öll líkamsstaðan kallar fram friðartilfinningu. Tæknilega skapar hún kyrrstöðupunkt fyrir prönuna við hjartastöðina. 

Í tengslum við tilfinningar skapar þessi hugleiðsla skýra sýn á samskipti og samband þitt við sjálfa-n þig og aðra.  Ef þú ert í uppnámi í vinnunni eða í samskiptum við þína nánustu, þá skaltu sitja í hugleiðslunni í 2-15 mínútur áður en þú ákveður hvernig þú ætlar að bregðast við.  Gerðu svo það sem hjartað býður. Lungu og hjarta styrkjast einnig.

Þessi hugleiðsla er fullkomin fyrir byrjendur. Hún eflir meðvitund okkar fyrir önduninni og hún styrkir og nærir lungun.  Þegar þú heldur andanum eins lengi og þú getur inni eða úti er ekki átt við að gera það svo duglega að þú sért alveg að kafna eða í spennu á nokkurn hátt þegar þú andar aftur.

Þú getur reynt að gera hugleiðsluna 3svar sinnum í 3 mínútur og tekið 1 mínútu hvíld á milli í samtals 11 mínútur á meðan þú ert að byggja upp þol og venjast því að hugleiða.  Fyrir lengra komna og þá sem vilja þjálfa einbeitingu og fylla sig af nýrri orku og æskukrafti er hægt að byggja tímann upp í 31 mínútu. 

Nánar um hugleiðsluna

Guðrún Darshan Andartak jóga- og heilsustöð  gudrun@andartak.is


Nýárssól og nýtt upphaf

Janúar er upphaf á nýju ári. Hann markar nýtt upphaf sem fæðir af sér marga hluti eins og ný áform, nýja sýn á hlutina og tilfinningu fyrir endurnýjaðri skuldbindingu við líf okkar.

Janúar er góður tími til að skapa sér nýja framtíð. Til þess að taka á móti nýjum venjum þurfum við að sleppa þeim gömlu sem oft getur verið átak. Ef við hugsum um það sem við viljum fá í staðinn fyrir það sem var þá er það oft auðveldara. Ef við sjáum fyrir okkur að við séum að skuldbinda okkur til að sinna okkar eigin vellíðan, hamingju og tilgangi í lífinu þá verður það mun auðveldara en að hugsa um það sem okkur finnst neikvætt og þarfnast breytinga. Skuldbinding er fyrsta skrefið í átt að nýju sjálfi – skuldbinding við það besta í okkur sjálfum.

Janúarmánuður getur verið mjög notalegur með sína fallegu, dularfullu birtu.  Þetta er tími til að horfa fram á eitthvað nýtt, að horfa til framtíðar. Við getum látið okkur dreyma um vorið, um blóm og ný græn lauf – um nýtt líf.  Og við getum einbeitt okkur að því að vekja ljósið innra með okkur – og horfast í augu við myrkrið. 

Margir eiga erfitt með að sættast við þessa stuttu og oft vindasömu daga og verða þungir og þreyttir. Þá er svo mikilvægt að anda að sér vindinum og gefa sér tíma fyrir sjálfan sig.

Á veturna er gott að hugsa um að endurnýja kraftana og endurnærast. Í jógafræðunum er til hugtak sem kallast “Ojas”og þýðir kraftur eða hreysti og er afleiðing af góðri meltingu og lífsstíl sem styður okkur og styrkir. Þessi innri kraftur gefur okkur gott ónæmiskerfi og hjálpar okkur að tengja við okkar æðri vitund, kærleika og hreinar hugsanir. Einmitt á þessum tíma árs er “Ojas” að endurnýja sig í líkamanum.  Við getum hjálpað til með þvi að gefa okkur tíma til að taka því rólega og hugsa vel um okkur sjálf, hvað við borðum og reyna að draga úr áreitinu eins og við getum.

Janúar er kannski ekki sá tími sem við notum til að taka til í bílskúrnum – þetta er tími breytinga.  Þetta er árstími nýs upphafs og endurnýjunar á okkur sjálfum og í lífi okkar.  Þú gætir til dæmis tekið þér stund til að skrifa niður drauma þína og jákvæðar áætlanir. Þú getur búið til úr þeim staðhæfingar sem þú segir upphátt þegar þú vaknar. Þetta er tími til að taka því rólega, að hafa hlýtt og notalegt í kringum sig og skemmtilegan félagsskap. Tími til að leyfa kærleikanum í hjartanu að vaxa og blómstra í hversdagslífinu. 

Andartak jóga- og heilsustöð    andartak@andartak.is


Tíu heilræði úr viskubrunni jóganna

Nú er komið nýtt ár og margir hafa þann sið að strengja áramótaheit. Áramót eru ágætur tími til að horfa yfir farinn veg og setja okkur ný markmið. Málið fer hins vegar að vandast ef við ætlum okkur meira en við getum staðið við. Þá bætist samviskubit ofan á álagið sem fyrir er. Og ekki þjónar það okkur.

Einhvers staðar rakst ég á lista yfir tíu algengustu áramótaheitin: Þar voru mjög hátt á listanum áform um að koma sér í gott form, borða hollari mat og að grennast. Flest höfum við tilhneigingu til að vilja taka hlutina með áhlaupi og sjá árangurinn strax í gær, helst.

Jóga býður okkur að horfa á heildarmyndina og sinna öllum þáttunum í okkur sjálfum – og finna þannig styrkinn aukast innan frá – líka viljastyrkinn – og þá getum við betur staðið með okkur sjálfum. Kundalini jóga er sérstaklega öflug leið til að byggja upp sterkt taugakerfi, innkirtlakerfi og ónæmiskerfi – og vöðva líka. Jóga er nefnilega ekki bara teygjur og slökun, þó það sé vissulega með líka. Á þennan hátt öðlumst við innri styrk til að takast á við það sem að höndum ber. Jóga kennir okkur líka leiðir til að lifa lífinu í meira jafnvægi og hvernig við getum lært að hlusta á líkamann og finna þannig hvað hentar okkur og hvenær við erum að ætla okkur um of.

Lífsstíll jógans byggir á daglegri iðkun – sem ekki þarf alltaf að vera jógaiðkun í hefðbundnum skilningi. Hún þarf heldur ekki að taka langan tíma. Þegar við iðkum jóga erum við líka að búa okkur undir að takast á við lífið. Hluti af þessari daglegu iðkun eru ýmsar venjur sem við lærum að tileinka okkur og sem þjóna bæði huga líkama og sál og gera okkur það auðveldara að velja það sem lyftir okkur upp í stað þess að halda í gamlar venjur sem draga okkur niður.

HÉR Á EFTIR FARA NOKKUR HEILRÆÐI sem byggja á jóga og systurvísindum þeirra - ayurveda* ("vísindin um verundina") til þess að auka gleði og hamingju á nýju ári:

ANDAÐU DJÚPT – andaðu meðvitað, njóttu þess að anda að þér lífsorku.
TENGDU INN Á VIÐ – hugleiddu, farðu með bæn, hlustaðu á þögnina innra með þér á hverjum degi – gönguferð er ágæt leið til að eiga stund með sjálfum sér.
HRESSTU ÞIG VIÐ: Skvettu framan í þig köldu vatni – eða farðu í kalda sturtu á morgnana
ENDURNÆRÐU ÞIG: Finndu þér leiðir til að auka orkuflæðið þitt á hverjum degi – ayurveda mælir með því að bera olíu á líkamann á hverjum degi og leyfa húðinni að drekka hana í sig og fara svo í sturtu.
VÖKVAÐU LÍKAMANN Byrjaðu daginn á að fá þér glas af vatni við stofuhita og bættu út í hann safa úr hálfri sítrónu.
HREYFÐU ÞIG: byrjaðu daginn á hreyfingu – gönguferð, jóga, dans, sund – og finndu hjartað taka kipp af lífi og gleði:-)
ÖRVAÐU MELTINGARELDINN: Drekktu fennelte eftir matinn til að örva meltinguna. Það getur líka verið gott að drekka engiferte með eða fyrir matinn.
UMFAÐMAÐU ÁRSTÍÐIRNAR – ræktaðu hlýju og ró á veturna, hita og hreyfingu á vorin, hægðu á þér á haustin og á sumrin getum við tekið lífinu létt og leikandi. Það er ágætt að reyna að borða sem mest af fæðu sem fylgir hverri árstíð.
SOFÐU VEL. Best er að fara að sofa fyrir 10 og sofa í 8 tíma. Það hjálpar að hlusta á fallega tónlist eða fara í rólega gönguferð fyrir svefninn.
ÞAKKAÐU FYRIR – bæði það góða og líka erfiðleikana. Þeir eru bestu kennararnir okkar.

Ferðalagið okkar á lífsleiðinni verður svo miklu skemmtilegra ef við náum að njóta þess og taka það eitt skref í einu. Viskupunktarnir hér að ofan eru líka til að njóta einn í einu – og bæta við og draga frá eins og hjartað býður:-)

www.andartak.is        gudrun@andartak.is

* Ayurveda eru systurvísindi jógafræðanna og hægt að lesa sér meira til um þau hér: http://andartak.is/frodleikur/ayurveda


Hinn sanni jólaandi og jógaiðkun

Jólin nálgast óðum. Mér finnst ég stundum vera í kapphlaupi við tímann fyrir jólin. En þar sem ég er svo rík að búa yfir daglegri hugleiðsluiðkun, þá staldra ég við á hverjum morgni og anda að mér jólailminum innra með mér. Og þrátt fyrir að dagurinn sé stundum tóm hlaup og mikið að gera þá er oftast einhver hluti af mér sem man eftir innra rými sem er mun stærra en stærsta Bónusverslun eða umferðaráin sem lötrast eftir Miklubrautinni. Það er þrátt fyrir allt mjög nærandi.

Ég bý líka við þau forréttindi mitt í jólaamstrinu að búa með litlum anga sem gefur mér innsýn inn í töfraveröld jólanna með opnum huga og gleði yfir litlum hlutum. Eins og púslinu sem hann fær á hverjum morgni í jóladagatalinu sem við keyptum í Ikea. Og hann minnir mig á þennan hluta í mér sem kunni að njóta þess sem við lærum síðar að líta á sem sjálfsagðan hlut. Og sem kunni að gleðjast yfir litlu.

Jólin eru hátíð barnanna og barnsins sem býr innra með okkur öllum. Og við fullorðna fólkið sem eigum það til að gleyma töfrunum sem búa í núinu getum eftir sem áður rifjað það upp í gegnum augu barnanna okkar - ef við gefum okkur tíma til þess.

Á jólunum höldum við hátíð ljóssins og fögnum því að sólin tekur að rísa hærra og hærra með hverjum degi úr hyldýpi myrkursins. Ljósið fæðist enn á ný og sigrar myrkrið. Eftir það tekur daginn að lengja hröðum og öruggum skrefum.

Um leið og fæðing Jesú er tákn fyrir þessa fæðingu ljóssins á nýju ári þá táknar hún líka fæðingu okkar eigin vitundar. Fæðingu ljóssins sem við geymum innra með okkur. Stundum nefnt Kristsvitund.

Jógaiðkun hefur þann tilgang æðstan að vekja þessa meðvitund og kveikja þannig á ljósinu innra með okkur. Jóga þýðir sameining – samruni huga, líkama og sálar. Í gegnum jógaiðkun og hugleiðslu lærum við að upplifa óendanleikann innra með okkur sjálfum. Ef við leyfum huganum reglulega að upplifa óendanlegan sjóndeildarhring þá er auðveldara að sjá stóru myndina í öllum samskiptum og lífið verður einfaldara.

Við búum flest við mikinn hraða og álag. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að kunna að hlaða batteríin og rækta með sér leiðir til að styrkja allar hliðar þess að vera manneskja. Það er ekki nóg að stunda líkamsrækt og byggja upp vöðvamassa ef við erum síðan í ójafnvægi og eigum erfitt með að höndla daglegt líf.

Kundalini jóga er ævagamalt form af jóga sem hefur notið sívaxandi vinsælda um allan heim. Þetta jógaform er aðeins nýkynnt hér á landi en hefur nú þegar öðlast stóran aðdáendahóp. Kundalini jóga byggir á mjög markvissri tækni sem hjálpar okkur að standa sterk í gegnum álag og komast í snertingu við kyrrðina innra með okkur á fljótvirkan hátt.

Með því að iðka Kundalini jóga fáum við tæki til þess að koma jafnvægi á innkirtlastarfsemina, styrkja taugarnar, auka lungnaþol og hreinsa blóðið. Við lærum að öðlast jákvæða, sjálfseflandi hugsun og byggja með okkur innri styrk svo við getum náð árangri í lífinu hvort sem er í samskiptum eða verkefnum hversdagsins.

Ef við nýtum okkur þau verkfæri sem jóga getur fært okkur þá eigum við auðveldara með að tengja við það sem skiptir máli og njóta þess að vera með fjölskyldunni okkar hvort sem er um jól eða páska – eða á venjulegum mánudegi.

Þegar við skoðum jólin í þessu ljósi, þá verður það kannski skýrara fyrir okkur hvernig jólahátíðin getur dregið fram það besta í okkur. Kristur gaf okkur fyrirmynd til að lifa eftir – ekki til að við tilbæðum hann, heldur til að sýna okkur hvað við getum verið ef við gerum okkar besta.

Ef við kunnum leiðir til að tengja við þennan hluta okkur sjálfum getum við glatt okkar nánustu og lýst upp okkar eigin meðvitund. Við getum kannski byrjað á að leggja aðeins minni áherslu á að gefa efnislegar gjafir og meiri áherslu á að vekja okkar innri mann. Við getum um jólin hugsað um að gefa gjafir eins og gagnkvæman skilning, fyrirgefningu og umburðarlyndi. Í stað þess að hlaupa milli búða gætum við þjappað saman orkunni okkar og leitað djúpt innra með okkur eftir innri friði og ljósi Kristsvitundar okkar. Það sem endurspeglast í þessum gjöfum er fullkomin gjöf til fjölskyldu, vina og samfélagsins. Þá komumst við kannski í snertingu við hina sönnu jólagleði.

Fyrir þá sem vilja nýta sér gjafir jógaiðkunar á aðventu er hægt að sjá nokkur stutt myndbönd á heimasíðu Andartaks: http://andartak.is/youtube/jola-joga/

Guðrún Darshan      www.andartak.is


Ertu meistari huga þíns?

Hugurinn er okkar mikilvægasti félagi. Við þurfum að vera í góðu sambandi við hugann til blómstra og lifa hamingjusömu lífi.  Jógarnir segja að með því að sigrast á huganum getirðu sigrað heiminn.

Það eru tvær leiðir til að eiga samband við hugann; annað hvort stjórnar þú huganum eða hugurinn stjórnar þér!  Ef hugurinn fær að ráða þá verðum við stefnulaus – eins og lauf í vindi – og förum að láta tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur.

Lífið er ekki undir þinni stjórn og hugurinn ekki heldur.  En hugurinn hlýðir einu – og það er öndunartakturinn – það hversu hratt eða hægt þú andar. Um leið og þú hægir á önduninni þá hægist á huganum.  Og líkaminn fer að slaka á.

Við höfum yfirleitt flest þörf fyrir að tengja við óravíddirnar innra með okkur annað slagið. Að upplifa og næra þögnina í hjartanu svo við getum sótt þangað orku þegar við þurfum að takast á við lífið. Sumir gera þetta í gegnum það að hlusta á tónlist, aðrir í gegnum það að fara út að ganga. Hugleiðsla er enn ein leið. Hún hefur þann viðbótarkost að hún hjálpar okkur að hreinsa undirvitundina og gefur okkur virkt samband við hugann. Og það sem meira er – þegar við ræktum þannig hugann í gegnum reglulega íhugun, njótum við þess enn betur að ganga og hlusta á fallega tónlist.

Hugleiðsla hreinsar undirvitundina og áruna okkar. Okkur finnst öllum sjálfsagt að fara reglulega í bað.  Það er jafn mikilvægt að hreinsa hugann – annars verður hann ofhlaðinn. Með því að hreinsa undirvitundina reglulega gefum við sjálfum okkur færi á að vinna úr reynslu okkar og takast á við nýjan dag af opnum huga.  Hugurinn verður meira skapandi og við förum að geta betur stýrt venjum okkar. Samskiptin við okkar nánustu verða betri og við förum að lifa í stærri og áhugaverðari heimi.

Regluleg hugleiðsla er eins og góður vinur sem nærir okkur og gefur góð ráð. Í hugleiðslu uppgötvar þú heilan heim af þér.  Í þeim heimi, í þínu dýpsta eðli er hugurinn þjónn þinn en ekki meistari.

gudrun@andartak.is              www.andartak.is


Að höndla lífið á öld upplýsinganna

Ég kynntist fyrir nokkrum árum jógaiðkun sem kallast Kundalini jóga og er kennd eftir forskrift jógameistarans Yogi Bhajan. Ég heillaðist strax af þessu heildræna æfingakerfi sem var að mörgu leiti ólíkt þeirri jógaiðkun sem ég hafði áður kynnst.  Það sem heillaði mig mest voru þau djúpu áhrif sem ég varð fyrir strax af iðkuninni. Fyrir mig var þetta ást við fyrstu sýn og ég ákvað mjög fljótt að læra að verða kennari í Kundalini jóga. 

 

En þar sem enginn kennari var hér á landi hafði ég ekki mikla reynslu af ástundun þess þegar ég fór í námið. Í náminu var fljótlega farið að fjalla um öld Vatnsberans. Ég kveikti ekki mikið á þeirri umræðu til að byrja með.

 

Eitt af því sem vakti samt athygli mína var sú mynd sem Yogi Bhajan hafði dregið upp fyrir nokkrum áratugum af okkar tímum og birtist mér sem lifandi lýsing á því sem ég þekkti sjálf. Svo ég ákvað að hlusta með opnum huga og sjá hvað ég gæti lært. 

 

Breytingarnar á okkar tímum eru hraðari en nokkru sinni fyrr og lífsstíll okkar og samskipti eru að breytast líka. Amma mín sem er að verða hundrað og tveggja ára í næsta mánuði þurfti vissulega að takast á við erfiðleika – en þeir voru allt annars eðlis en þeir sem við fáum í fangið.  Þó líf hennar hafi verið að mörgu leiti harðara og lífsbaráttan strangari þá var það líka einfaldara líf sem hún lifði og áreitið mun minna.

 

Ég ætla að vitna í Yogi Bhajan sjálfan úr fyrirlestri sem hann hélt árið 1999: “Árið 2013 verður mannkynið búið að ná 7 billjónum. Tæknibreytingar, andlegar og félagslegar breytingar verða verulegar. Mikið magn af upplýsingum sem verður aðgengilegt á tölvuöld eiga eftir að gera fólki erfitt fyrir í daglegu lífi.  Mennirnir þurfa að “skipuleggja” líkama, huga og sál til að mæta þessum aðstæðum.“

 

Við getum líklega alveg tekið undir þessa lýsingu á 21. öldinni og líka þá miklu aukningu í geðsjúkdómum og andlegum vandamálum alls konar sem var spáð að myndi einkenna okkar tíma.

 

Það er undir okkur sjálfum komið hvort við náum að höndla hraðann og álagið sem við lifum við.  Lífið er stöðugt flóknara og við þurfum að læra að takast á við flækjurnar. Þetta eru tímar mótsagna. Við búum við aukna heimsmenningu og lika meiri einstaklingshyggju. Allt gerist hraðar og við höfum minni tíma. Líf okkar flestra er litað af því óöryggi sem ríkir í heiminum í dag og margir finna hjá sér þörf fyrir að næra andlegu hliðina án þess að hafna því efnislega. Við þurfum að rækta með okkur andlegan styrk til að geta gefið lífinu gildi og tilgang.  í Kundalini jóga er sérstök áhersla á að styrkja taugakerfið og næra andann.

 

Við erum sem samfélag mjög háð því að það sé stöðugt verið að hafa ofan af fyrir okkur með alls kyns skemmtiefni, vinnu eða öðru sem grípur hugann. Þetta verður í mörgum tilfellum til þess að við förum að upplifa ákveðið tómarúm innra með okkur. Við hættum jafnvel að eiga frumkvæði og að hafa brennandi áhuga á lífinu.  Yogi Bhajan kallaði þetta “kalt þunglyndi” og lagði áherslu á að þörfin fyrir fyrir tæran huga og andlegan styrk myndi aukast til að við gætum horfst í augu við lífið.  Ein besta leiðin til þess er í gegnum jógatækni þar sem við lyftum huga, líkama og sál upp í hærri hæðir.  Þess vegna á jóga eftir að blómstra í framtíðinni.

 

gudrun@andartak.is              www.andartak.is

 

Kundalini jóga gegn streitu og álagi

Flest okkar erum að glíma við streitu og álag hvort sem það er heima fyrir eða í vinnunni. Streita birtist á ólíka vegu hjá okkur. Sumir verða kvíðnir, aðrir pirraðir, sumir fá vöðvabólgu og enn aðrir eru sífellt þreyttir. Streita veldur því að hugsanir fara að hringsóla í höfðinu og við hættum að geta einbeitt okkur. Hún hefur áhrif á meltinguna, hormónastarfssemina, ónæmiskerfið og hæfileika líkamans til að endurnýja sig. Í hraða og amstri dagsins er nauðsynlegt fyrir okkur öll að kunna aðferðir til að lifa með streitu.

Kundalini jóga er aldagamalt form af jóga og býður upp á virkar leiðir til að takast á við streitu og álag nútímans. Það getur verið erfitt fyrir okkur mörg að setjast niður og slaka á þegar búið er að vera mikið að gera og hugurinn er á flögri um víðan völl. Kundalini jóga byggir á taktföstum hreyfingum í takti við öndun og það er einmitt takturinn í æfingunum sem hjálpar huganum að sleppa streitunni og spennunni sem eru búnar að byggjast upp í annríkinu. Það er minni áhersla á teygjur og kyrrstöðu og meiri áhersla á að hreyfa við orkunni í gegnum öndun og takt. Hugleiðsla í kundalini jóga er mjög aðgengileg og gerir okkur kleift að hreinsa og kyrra hugann. Kundalini jóga getur hjálpað iðkendum að umbreyta neikvæðum hugsunum og mynstrum sem hindra þá í lífinu og koma sér upp heilbrigðari venjum og hugmyndum um sjálfa sig.

Jóga er nefnilega ekki bara eitthvað sem við gerum á jógadýnu. Það er í raun aðeins  undirbúningur fyrir lífið sjálft. Jógarnir segja að æðsta form af jóga sé hjónabandið og upplyftandi samskipti við okkar nánustu. Það sem hindrar okkur í því að vera í okkar besta formi eru ekki aðstæðurnar sem við búum í heldur okkar eigin hugur og innri takmarkanir. Hugur okkar býr yfir óendanleikum möguleikum. Við þurfum bara að þjálfa hann og rækta svo hann þjóni okkur. Þá getum við verið meistarar í eigin lífi. Og samfélagið hefur svo sannarlega not fyrir heilsteipta og sterka einstaklinga.

gudrun@andartak.is   www.andartak.is


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband