Lífið í nýjum litum

Nýja árið er í startholunum og það gamla er ekki alveg farið úr kerfinu okkar. Þessi tími í byrjun árs er tilvalinn til þess að skoða hvað gamla árið kenndi okkur og hvernig við viljum fagna lífinu á nýjan hátt þetta árið. Í hvaða átt viljum við vaxa og blómstra? 

Ég hef tekið eftir því að um leið og ég fer að gefa því gaum hvert ég vil fara og hvernig ég vil ganga eftir stíg lífsins þá opnast ýmsir gluggar og ég fer að sjá möguleikana. Sem ég kannski tók ekki eftir áður. Þegar ég hlusta þá fer ég að heyra tónlistina og sjá litina sem ég vil hafa í lífi mínu. Það er svo dýrmætt að gefa sér tíma og rými til að hlusta og horfa út um gluggana sem opnast. Við getum haft miklu meiri áhrif á líf okkar en við höldum. 

Þegar við búum okkur til ásetning þá erum við að virkja ákveðinn hluta af heilanum. Ef við ákveðum ekki hvað er mikilvægt þá velur heilinn tilviljanakennt og byggir niðurstöðuna á því hvernig okkur líður þá stundina og þeirri orku sem við höfum. Þetta getur verið stöðugt að sveiflast frá einni stund til annarrar. Ef við erum ekki með ásetning þá fer heilinn að hluta til á sjálfstýringu. Þá erum við alltaf að endurtaka þau mynstur sem við höfum vanið okkur á. Sjálfsstýringin heldur okkur í sömu venjum og við svipaðar hugsanir. 

Ég heyrði einu sinni samlíkingu sem mér fannst mjög gagnleg til að skilja betur hvernig ásetningur virkar. Ímyndum okkur að heili okkar sé eins og vel þjálfaður leitarhundur sem getur leitað uppi þá sem hafa villst í óbyggðum. Fyrsta skrefið er að bjóða hundinum að þefa af einhverju sem tilheyrði þeim sem verið er að leita að. Ef þessu skrefi er sleppt þá hleypur hundurinn stefnulaust um víðáttuna og staldrar við allt sem vekur áhuga hans. Ásetningur er eins og lykt, stefna sem þú gefur heilanum þínum. Að hafa engan ásetning er eins og að senda hugann stefnulaust út í óbyggðir lífsins. Mörg okkar lifum lífinu þannig og veltum því fyrir okkur af hverju við höfum tilhneigingu til að festast í sama farinu. Ásetningur er eins og leið til að gefa alheiminum stefnu og tilgangurinn okkar fyrir lífið. Að gefa okkar innri heimi tón til að syngja út frá. Ef við erum ekki skýr hver við viljum vera, hvert við viljum stefna verður hugur okkar eins og hundur sem rásar stefnulaust.

Þegar ég fer inn á við og skoða hvað skiptir mig máli, hvaða drauma og venjur ég vil vökva þá kem ég aftur og aftur að tækninni. Sjónvarp, tölvur, símar. Ég finn fyrir þörf fyrir að setja skjánotkun meiri mörk. Að gefa lífinu í öllum sínum litum meira rými og vægi. Það að vinna heima getur haft sína kosti en líka galla. Skilin milli heimilis og vinnu verða óljósari. Streitan eykst og verður ósýnilegri. 

Um leið og ég fer að horfa á lífið í nýjum litum þá fer undirvitundin af stað og færir mér nýjar lausnir og hugmyndir. Myndir af stærra lífi. 

Og þegar ég horfi út um nýju gluggana sé ég meira rými til að rækta sambandið við mig sjálfa og mína nánustu. Ég sé hvernig þakklæti og gleði stækka mig. Og tlfinningin fyrir að tilheyra stærri heild. Einhverju sem er stærra en daglega sjálfið mitt. Þegar ég stækka þá verða vandamálin minni og viðráðanlegri. Streitan verður að gjöf sem fær mig til að gera mitt besta. Hvað sérð þú út um þína glugga?

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband