Að eignast andardráttinn

dreamstime_m_39899517"Þegar þú eignast andardráttinn þinn þá getur enginn rænt friðsæld þinni.”

Andardrátturinn er eitthvað sem flestir hugsa sjaldnast um í daglegu lífi. Hann bara er þarna. En samt getum við ekki lifað án hans nema í örstutta stund.
 
Ég á minningu frá ferðalagi með fjölskyldunni. Við sátum í aftursætinu í bílnum og vorum búin að keyra langa leið þegar systir mín sagði allt í einu upp úr þurru: “Mamma. Ég gerði svona (og svo andaði hún djúpt inn og út) og núna get ég ekki hætt því.”  Mér sem stórusystur fannst þetta mjög sniðugt og hló mikið að henni. Hún var að uppgötva að hún andaði.

Í jóga lærum við að taka eftir andardrættinum og finna þannig meðvitað fyrir lífinu og andartakinu. Þegar við öndum meðvitað förum við að finna að öndunin snýst ekki bara um líkamlega öndun heldur líka hinn fínlega þátt öndunar sem fyllir okkur af lífsorku. Við lærum að brjóta upp þann vana að horfa fram hjá önduninni.

Öndunin er lykill að því að ná valdi yfir huganum og að því að glíma við streitu og álag.

Öndun og hreyfing hennar tengist hreyfingu allra tilfinninga og hugsana. Margar af þeim hugleiðslum sem kenndar eru í Kundalini jóga ganga út á að ná valdi yfir andardrættinum. Til dæmis með því að fá okkur til að anda hægar eða halda andanum inni eða úti. Þetta styrkir lungun, eykur úthald. Auk þess að gefa okkur meira vald yfir huga og líkama. Hugurinn fylgir önduninni. 
 
Grunnurinn að orkumiklu og skapandi lífi býr í önduninni

Öndunin er mælikvarði á það hversu mikla orku við höfum til afnota daglega og hversu mikinn aukaforða við höfum ef neyðarástand skapast.
 
Algengt er að anda grunnt og upp í efra brjóstið. Ef við lærum að anda djúpt og til fulls er það líklega öflugasta tækið sem við höfum af öllu því sem við getum gert til að rækta okkur sjálf. Til að hækka vitundina og til að auka heilbrigði, lífsorku og tengingu við annað fólk.

Löng djúp öndun eykur súrefnisupptöku og hreinsar lungun af eiturefnum sem geta valdið sýkingum og sjúkdómum.
 
Í langri djúpri öndun öndum við fyrst niður í kviðinn, svo í mitt brjóstið og endum á að fylla efsta hluta brjóstsins. Leyfðu kviðnum að víkka út í allar áttir eins og að fylla blöðru með lofti. Ef magavöðvarnir eru spenntir, reyndu þá meðvitað að slaka a þeim og leyfa þeim að þenjast út. Með því að þjálfa þig í þessu getur þú víkkað út lungnaþan þitt margfalt og öðlast úthald og þolinmæði.

Djúp öndun mýkir upp brynjuna sem við höfum myndað til að verja okkur. Við förum að finna betur hvernig okkur líður. Við eigum auðveldara með að njóta andartaksins og tengja við fólkið og aðstæðurnar í lífi okkar.

Tilfinningar koma og fara eins og ský á vindasömum himni. Meðvituð öndun er akkeri mitt. Thich Nhat Hanh.

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak - jóga og heilsa

gudrun@andartak.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband