Gjafir sumarsins

4084594_mÞað er að koma haust. En sumarið er samt enn að senda geisla sína inn í hjörtu okkar og hlýja okkur og stríða á víxl. Ég er búin að njóta þess að vera í sveitinni undanfarið. Að fara í feluleik í skóginum, sækja salat í matjurtagarðinn og baka brauð með krökkunum yfir eldi á veröndinni á kvöldin. Að sitja úti eins og núna og skrifa, lesa og drekka í mig sólargeislana. Þegar sólin skín er eins og allt verði auðveldara. Líka það að finna fyrir kyrrðinni og heyra þytinn í laufinu. Og í rigningunni hjúfra ég mig bara lengra undir skyggnið og held áfram að njóta og anda og skrifa.

Þessar stundir eru svo verðmætar og halda áfram að næra mig inn í veturinn. Þegar ég fæ svona góða fjarlægð á verkefnin sem þarf að klára og tímapressuna sem fylgir álagi vetrarins þá man ég hvernig það er að hvíla svona vel í mér. Og þá geri ég mér grein fyrir því að þrátt fyrir góðan ásetning þá á ég það til mitt í álaginu að telja mér trú um að hraðinn innra með mér og eirðarlaus hugur séu óaðskiljanlegur hluti af mér.

Og í álaginu hætti ég að taka eftir því hvernig streituröddin innra með mér tekur völdin. Þessi sem ýtir mér áfram og segir mér að ég þurfi að koma meiru í verk, að þetta sé ekki nóg, að það sé ekki tími fyrir neitt slór. Þessi ósýnilegi yfirmaður sem aldrei virðist sáttur við frammistöðu mína. Ég hætti að taka eftir honum og bara hlýði.

Og nú þegar hugurinn er viðráðanlegur, þá sé ég skýrar en áður hvernig þessi fókus á árangur kemur úr mínum eigin huga. Og stafar af því að ég fer að trúa hugsunum mínum. Og þá finn ég líka hvernig það er jógaiðkunin mín og hugleiðslan sem halda mér gangandi í gegnum álagið. Sem minnir mig á að finna mig í stærra samhengi. Kennir mér smátt og smátt að vera ekki alveg svona auðtrúa á hugsanirnar mínar.

Við búum við sífellt meira álag. Meiri hraða. Allt þarf að gerast strax í gær og helst fyrr. Og af því það eru flestir í kringum okkur að glíma við þetta sama förum við að ímynda okkur að það sé eðlilegt og sjálfsagt að vera alltaf á hlaupum og að vera í streituástandi. En það þarf ekki að vera þannig.

Í því samfélagi sem við erum búin að skapa okkur er blátt áfram nauðsynlegt að kunna leiðir til þess að slaka á og næra andann. Og ég veit ekki hvar ég væri ef ég kynni ekki leiðir til að kyrra hugann og beina honum í nýjan farveg. Ég veit ekki neina gjöf sem er betri til að gefa sjálfri mér.

Andartak jóga- og heilsustöð

Guðrún Darshan - gudrun@anadartak.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband