Jólameltingin
21.12.2022 | 16:11
Á jólunum komum við saman til að njóta samvista við okkar nánustu, styrkja böndin sem tengja okkur og borða góðan mat. Hér á eftir fara nokkrir punktar úr viskubrunni jóga og ayurveda til að hjálpa okkur að melta betur jólamatinn, sem stundum er dálítið þungur í maga. Þá getum við betur notið hans með góðri samvisku.
Engifer fyrir ónæmiskerfið og meltinguna
Á þessum árstíma erum við gjarnari á að fá kvef. Það er góð venja að byrja daginn á volgu vatni til að vökva likamann eftir nóttina og síðan bolla af fersku og kraftmiklu engifertei. Ef þú lætur engiferið sjóða í vatni í nokkrar mínútur þá verður það kraftmeira. Engiferte styrkir ónæmiskerfið og meltinguna.
Þú gætir síðan fengið þér annan bolla rétt fyrir stórar máltíðir. Ég ferðast stundum með te á hitabrúsa með mér þegar ég fer í heimsóknir.
Annað gott ráð er að skera þunna sneið af fersku engiferi á stærð við nögl á þumalfingri og setja 2 kristalla af grófu salti (eða dálítið af venjulegu salti) ofan á og 3-5 dropa af sítrónusafa. Settu þetta svo í munninn og tyggðu eins lengi og þú getur. Drekktu nokkra vatnssopa og borðaðu svo matinn beint á eftir. Þetta örvar meltinguna og maginn verður ánægður.
Vænn skammtur af grænmeti
Grænmeti er auðmeltara en kornmeti, kjöt og fiskur. Það blandast líka vel með öllum mat. Hálfur diskur af grænmeti og hálfur diskur af öllu hinu er fínt hlutfall.
Þú þarft ekki að klára allt á diskinum
Það er stundum erfitt að hætta þegar maturinn er góður. En þegar við borðum yfir okkur þá myndast ama (eiturefni) í líkamanum. Ama sést á tungunni sem skán á morgnana. Ég mæli með að eiga tungusköfu.
Drekktu volgt eða heitt vatn
Ekki drekka kalt vatn í kring um máltíðir. Best er að drekka volgt eða jafnvel heitt vatn. Og að dreypa á volgu vatni gegn um daginn. Það er mikilvægt að gefa líkamanum nægan vökva til að halda meltingunni gangandi og heitt vatn er þúsund sinnum betra en kalt vatn.
Hvað gerist ef við setjum vatn á eld? Eldurinn deyr út. Það sama gerist í meltingunni. Meltingareldurinn slokkar ef við drekkum of mikið í kringum máltíðir og ef við drekkum ískalda drykki. Þá sitjum við uppi með lélega meltingu og illa meltan mat (sem aftur leiðir af sér meira ama).
Ef þú drekkur vín með matnum, fáðu þér þá glas af volgu vatni (stofuheitt) fyrir hvert glas af víni sem þú drekkur. Og fáðu þér fennelte yfir daginn til að minnka sýruna í líkamanum.
Ef þú borðar yfir þig
Eftir stóra máltíð er gott að tyggja teskeið af fennelfræjum eins lengi og þú getur til að auka framleiðslu á munnvatni. Drekktu svo 1-2 sopa af vatni (ekki meira). Þú getur líka fengið þér fennelte háftíma eftir matinn. Fennel hjálpar meltingunni.
Næsta dag geturðu byrjað á að drekka engiferte. Best er að borða ekki fyrr en þú finnur til svengdar. Það gæti þýtt að þú þurfir að sleppa einni eða tveimur máltíðum. Og borða síðan létta súpu eða ávexti.
Ef þú hefur tilhneigingu til að finna til streitu á jólunum, er gott að muna að tilfinningar hafa gríðarleg áhrif á meltinguna. Til að forðast streitu og til að róa tilfinningarnar er gott að huga að önduninni. Til dæmis gera öndunaræfingar, eins og að anda hægt og djúpt og tæma alveg á fráöndun. Dagleg hugleiðsla er líka dásamlegur félagi að eiga í lífinu. Og gerðu svo allt sem gerir þig hamingjusama(n). Jóga, tónlist, söng, dans, hitta vini, hlæja, lesa, fara í göngutúra eða sund. Það sem virkar fyrir þig. Taktu frá tímann og leyfðu þér að eiga þessar stundir! Það er þess virði. Það græða allir á því ef það er ró, hamingja og fríður í hjarta þínu og í kringum þig.
Gleðilega hátið!
Guðrún Arnalds, jógakennari, heildrænn heilsuráðgjafi og markþjálfi. Leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld
andartak@andartak.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.