Að virkja uppsprettu lífsorkunnar
14.9.2022 | 12:32
Gott jafnvægi, seigla í lífsins ólgusjó, lífsgleði og sátt. Friðsælt hjarta. Öll viljum við geta höndlað hamingjuna þó ekki sé nema einstaka sinnum inn á milli. Það er svo margt sem hefur áhrif á það hvort okkur líður vel og hvernig okkur gengur að takast á við álag og erfiðu kaflana í lífinu.
Þegar ég fór fyrst að stunda kundalini jóga þá fann ég mjög fljótt aukið sjálfstraust og innri styrk. Ég tengdi þessa breytingu við tilfinningu fyrir að tilheyra einhverju stærra en ég. Ég upplifði aukið orkuflæði í líkamanum og mér fannst ég fá samband við kjarnann í sjálfri mér, miðjuna, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þungamiðja líkamans er í naflanum og þar fáum við aðgang að orkuuppsprettunni okkar. Þegar ég fór að vinna með þetta samband við naflann og að styrkja miðjuna færðist jörðin nær og heimurinn stækkaði. Ég fór að finna fyrir seiglu og stöðugleika. Lífið stækkaði og varð dýpra.
Í jóga tölum við um naflann eða naflapunktinn. Í austrænum bardagalistum er talað um Tan Den eða hara sem merkir hafsjór af orku. Megingjörð, belti Þórs gaf honum yfirnáttúrulegan styrk. Í jóga er talað um að við sækjum kraftinn okkar í naflapunktinn. Ef við ætlum að beita okkur rétt og hlýða lögmálum líkamans þá er mikilvægt að eiga samband við naflann. Allar orkubrautir líkamans liggja þarna í gegn. Gott jafnvægi í naflanum hefur áhrif á allt orkuflæði líkamans. Í móðurkviði fáum við næringu í gegn um naflastrenginn. Þegar klippt er á hann missum við sambandið við þessa mikilvægu orkuuppsprettu. Það má segja að naflinn sé ósýnilegt líffæri sem hefur alltaf verið innra með þér. Kjarni sem stækkar ef þú sýnir honum athygli. Þessi orkuuppspretta er sofandi nema þú virkir hana.
Naflinn er hluti af þriðju orkustöðinni. Hún tengist sjálfstrausti og innri styrk. Og hæfileikanum til að melta. Ef hún er í ójafnvægi getur það til dæmis birst í fullkomnunaráráttu og tilhneigingu til að vantreysta sjálfum sér og í sjálfsgagnrýni. Við gætum átt erfitt með reiðistjórnun. Lágt sjálfsmat, erfiðleikar við að taka ákvarðanir, þörf fyrir að stjórnast í öðrum eða þegar við leyfum öðrum að stjórna okkur eru allt merki um ójafnvægi í þriðju orkustöð.
Við erum öll miðja alheimsins. Kjarninn í okkur er aðeins til sem hluti af stærri heild og stærri heild er aðeins til sem hluti af kjarnanum. Þetta er leyndardómur sem ekki er hægt að leysa. Aðeins að upplifa.
Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann.
andartak@andartak.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.