Dýrmæt skref

Skjáskot-4Eitt af því sem ég hef lært í gegnum mína jógaiðkun er að þrátt fyrir áskoranir og erfiðleika þá á ég alltaf það sem þarf til að standast álagið. Ég þarf bara að muna eftir að nýta mér þær leiðir sem ég kann. En eins skrýtið og það virðist þá er það samt ekki alltaf auðvelt að koma mér á staðinn, að taka skrefið og fara í jóga, að setjast niður og hugleiða. Algengasta afsökunin sem hugurinn minn gefur mér er: "Ég hef ekki tíma." Þegar streitan og álagið eykst og þegar ég þarf mest á því að halda er stundum eins og hugurinn taki yfir og gefi mér upp allar mögulegar ástæður fyrir því að gera ekki það sem ég veit að hjálpar mér.

Ég hef oft séð það í mínu eigin lífi og annarra hvernig streita getur læðst aftan að okkur mjög hljóðlega. Þegar við erum ekki með skýr mörk á milli vinnu og heimilis. Þegar við erum alltaf að skjóta verkefnum inn á milli þegar það er laus stund. Þá fer það að verða munaður að eiga tíma fyrir okkur sjálf og njóta líðandi stundar. Ég fer að fá samviskubit þegar ég er ekki að "koma einhverju í verk". Þetta er oft mjög ómeðvitað en ég veit að það hefur djúp áhrif á mig. Að gera marga hluti í einu gæti virst spara tíma en rannsóknir sýna að það er mjög skaðlegt fyrir heilann. Það veikir minnið og eykur streitu.

Þegar ég næ ekki að höndla vel streitu fer hún að valda alls konar vandamálum eins og svefnleysi og meltingartruflunum. Hún getur valdið samskiptaerfiðleikum og jafnvel kvíða. Og venjur sem eru ekki að næra mig fara að taka yfir.

Jógaheimspekin gefur okkur mjög gagnlega sýn á streitu sem mér hefur fundist hjálpa mér mikið þegar lífið verður erfitt. Þegar álagið eykst eða þegar ég upplifi andlega eða líkamlega vanlíðan. Í grunninn á öllu jóga liggur sú trú að innra með okkur öllum sé kjarni sem er alltaf friðsæll, bjartur, fullur af gleði, kærleika og samkennd. Þessi kjarni býr yfir óendanlegri visku og hann getur ekki skaðast. Þessi kjarni er tæra sjálfið okkar, okkar sanna eðli eða Sálin.

Jóga þýðir eining. Að tengja saman mismunandi hluta af okkur sjálfum svo við upplifum okkur ekki tvístruð eða aðskilin frá öðrum. Í jóga og í djúpslökun fáum við að upplifa þessa uppsprettu innra með okkur. Um leið og við lærum að höndla betur álagið fáum við líka tækifæri til að skilja okkur sjálf í nýju ljósi og endurskoða hvernig við nálgumst lífið, hvað er mikilvægt og hvað ekki.

Ég hef í gegnum mína jógaiðkun lært að vera minn eigin sálfræðingur, lært að hlusta á sjálfa mig og fengið tækifæri til að vinna úr erfiðum hlutum. Lífið er ekki alltaf auðvelt en það er ómetanlegt að hafa aðgang að leiðum til að takast betur á við erfiðleika og finna eigin styrk. Og enn ómetanlegra að taka skrefið og nýta sér þær leiðir sem bjóðast. Hverjar eru þínar leiðir?

Ég býð þér að koma og prófa. Það er að byrja nýtt námskeið í Djúpslökun í dag. Enn eru örfá pláss laus. Sjá nánar hér. Og svo er námskeiðið Lífsorka, hamingja og hugleiðsla opið fyrir nýjum iðkendum. Þar erum við að skoða leiðir til að takast á við álag og streitu. Þetta eru tímar í Kundalini jóga og Gong slökun - fyrir innri styrk og jafnvægi. Nánar hér. Vertu hjartanlega velkomin-n að koma í prufutíma og upplifa af eigin raun.

Guðrún Darshan - jógakennari, hómópati og markþjálfi

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband