Við erum öll friðsæl, glöð, vitur og kærleiksrík
6.2.2018 | 22:31
Ég átti samtal við dóttur mína nýlega á netinu og hún gerði þá athugasemd að ég væri of stutt í spuna og notaði ekki nægilega mikið af brosköllum og myndum til að tjá mig. Mér fannst þetta pínu fyndið og ég varð að játa að ég hef ekki öðlast hennar leikni í netsamskiptum. Ég velti þvi fyrir mér hvernig þetta myndi birtast í daglegu lífi. Að segja bara það mikilvægasta og gleyma að láta bros fylgja með eða hlýja strauma. Undir álagi held ég að þetta séu mjög algeng samskipti hjá okkur flestum. Mjög oft án þess að við tökum eftir því þegar þetta gerist.
Streita er orðin svo fastur þáttur í daglegu lífi okkar flestra að við veitum henni ekki lengur eftirtekt. Streita getur verið hvetjandi þegar við þurfum að klára verkefni og gera okkar besta. En ef við náum ekki að höndla hana vel þá getur hún valdið alls konar vandamálum eins og ýmis konar verkjum, svefnleysi, samskiptaerfiðleikum, fíkn, mataróreglu og kvíða að ótöldum öllum þeim sjúkdómum sem vitað er að eru bein afleiðing langvarandi streitu.
Flest okkar sem búum í nútímasamfélagi erum ekki í góðri þjálfun þegar kemur að því að einbeita okkur. Það er auðvelt að dreifa athygli okkar. Við reynum að gera of margt á of stuttum tíma til að komast í gegnum verkefnalistann. Þegar álagið er yfir meðallagi þá stökkvum frá einni hugsun til annarrar, frá einu verkefni til annars og á milli mismunandi tilfinninga eins og við værum þátttakendur í spennumynd. Það er erfitt að halda einbeitingu þegar lífið kemur að okkur úr öllum áttum. Þannig er athyglin okkar að verða meira og meira dreifð í allar áttir.
Að gera marga hluti í einu gæti virst spara okkur tíma en í raun er það mjög skaðlegt fyrir heilann okkar. Það veikir minni okkar og eykur streitu. Streita getur læðst aftan að okkur mjög hljóðlega. Þegar við erum ekki með skýr mörk á milli vinnu og heimilis. Þegar við erum alltaf að skjóta verkefnum inn á milli þegar það er laus stund þá fer það að verða munaður að eiga tíma fyrir okkur sjálf og njóta líðandi stundar. Við förum jafnvel að fá samviskubit þegar við erum ekki að koma einhverju í verk. Þetta er oft mjög ómeðvitað en það hefur mjög djúp áhrif á okkur.
Slökun ein og sér er misskilin og vanmetin í okkar samfélagi. Hún er oft tengd við það að sóa tímanum. Hún er oft álitin óþörf jafnvel þó slökun sé í raun lífsnauðsynleg fyrir heilsu okkar og hamingju. Það er mjög algengur misskilningur að við getum slakað á með því að horfa á sjónvarpið eða fara á samfélagsmiðla, með því að drekka áfengi eða borða þegar við verðum eirðarlaus. Þetta eru flóttaleiðir frá því að finna streituna en hafa alls ekki slakandi áhrif í raun.
Ein mikilvægustu skilaboðin í jógafræðunum felast í því að minna okkur á að innst í órjúfanlegum kjarna okkar þá erum við öll friðsæl, glöð, vitur, björt og kærleiksrík. Þessi kjarni er sálin eða okkar sanna sjálf. Í jóga erum við því ekki bara að læra að höndla streitu heldur ennfremur að fá djúpa upplifun á þessum stað innra með okkur. Ef við fáum þessa upplifun reglulega þá fær hún meira rými innra með okkur og verður að viðmiði sem við getum borið daglega líðan okkar saman við.
Regluleg slökun hefur nært mig meira en orð fá lýst. Ég veit ekki hvar ég væri án þess að hafa lært upp á nýtt að slaka raunverulega á. Regluleg jógaiðkun hefur gefið mér aukna meðvitund fyrir eigin líðan þannig að ég tek frekar eftir því þegar ég er komin langt frá friðsæla kjarnanum innra með mér. Það þarf oft ekki mikið til. Nokkrir djúpir andardrættir, að standa upp og fá mér vatnsglas, að fara í stuttan göngutúr eða að gefa mér tíma til að hitta vini mína og ég er endurnærð og lífið verður aftur að ævintýri.
Streita er komin til að vera í okkar samfélagi. Hún á væntanlega ekki eftir að minnka og ef eitthvað er þá er hún að aukast. Í mínum huga er það lífsnauðsynlegt að búa yfir leiðum sem hjálpa okkur takast á við álag svo við getum notið lífsins. Mér finnst mjög notalegt þegar ég get horft yfir daginn og fundið að minnsta kosti nokkra staði í deginum þar sem ég mundi eftir að njóta og þakka fyrir lífið.
Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati
gudrun@andartak.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.