Nýtt ár, nýtt ljós, nýr farvegur
5.1.2017 | 12:37
Nýtt ár markar nýtt upphaf. Ljósið hefur fæðst á ný í myrkrinu, sólin byrjar að hækka á himninum og daginn tekur að lengja smátt og smátt. Við komum aftur til starfa eftir jólafrí, vonandi með endurnýjaða krafta og löngun til að takast á við áskoranir komandi árs. Nýtt ár er þannig tækifæri til að horfa á lífið í nýju ljósi og jafnvel velja og forgangsraða upp á nýtt.
Ef við skoðum árið 2017 út frá talnaspeki þá færir árið okkur nýtt upphaf, fræ sem við sáum, nýja vitund til að vaxa inn í, ný verkefni og nýjar víddir. Árið 2017 er ár til að rækta með þér sjálfstæði að standa á eigin fótum, að vera þú sjálfur. Að sýna þér samkennd og kærleika og bjartsýni á eigin mátt og megin. Og að leyfa ljósinu innra með þér að sjást og skína, ár fyrir vaxandi meðvitund og ljóma.
Hugrekki
Árið 2017 stendur líka fyrir jafnvægi milli hugar og hjarta. Og hugrekki. Upprunaleg merking orðsins hugrekki er að tjá hug sinn að tala frá hjartanu. Það kallar á hugrekki að fylgja hjartanu, að hlusta á sálina og þora að leyfa ljósinu sínu að skína. Þetta ár átt þú valið allt eða ekkert ljós eða skuggi. Hvar viltu vera? Þetta er ár til að gefa þitt besta og uppskera margfalt.
Meðvitund og viðhorf
Meðvitund er skemmtilegt orð. Að vera með vitund. Að vera vakandi. Að heyra það sem skynfærin, hjartað, húðin segja mér. Ég finn það á mér. Ég veit í hjarta mér. Stundum (og allt of oft) eru hugur og hjarta ekki í takti. Hvaða sögu er ég að segja mér í kringum það sem ég upplifi? Ég vil ekki þetta ég vil hafa þetta öðru vísi. Þarna kemur meðvitundin sterk inn. Að vera með því sem ég finn. Vera með því sem er. Ekki því sem huganum mínum finnst að ætti að vera. Þetta erum við að þjálfa í jóga. Að anda inn í það sem er, það sem við finnum.
Þegar vindurinn blæs á móti getum við þjálfað okkur í að dvelja ekki í því sem okkur finnst um vindinn að dvelja ekki í því sem okkur finnst að. Við getum tekið eftir að eitthvað er erfitt og svo valið að anda inn í það. Við getum þjálfað okkur í því að finna til forvitni. Hvað er að vakna í mér? Hvað er ég að læra núna? Kannski er einmitt það sem er erfitt að vekja þig. Kannski er það einmitt eitthvað sem er að beina þér í rétta átt. Kannski er hægt að beina orkunni sem fer í að berjast á móti því sem er í nýjan farveg. Væri það ekki spennandi? Að losa þannig fullt af orku úr læðingi?
Að hlusta á sálina
Við getum þjálfað okkur í að hlusta. Hlusta á hjartað og sálina. Þetta er verðugt verkefni sem við getum orðið betri í með tímanum. Að hlusta með opinn huga, án þess að bregðast við því sem við heyrum, án þess að segja söguna sem hugurinn segir okkur, án þess að hafa skoðun á því sem við heyrum.
Um leið og við lærum að hlusta á þennan hátt lærum við líka þá list að velja hugsanir okkar, taka eftir neikvæðu hugsununum þegar þær koma og beina huganum í nýjan farveg.
Því er það ekki það sem við upplifum sem gefur lífinu gildi? Það sem við finnum þegar við tengjum við aðra og tengjum við lífskraftinn okkar?
Við getum líka lært að forðast það sem tekur okkur úr sambandi við hjartað og býr til djúpa hólfarið sem við festumst í. Leyfa því sem nærir okkur að hafa pláss í lífinu. Mínar uppáhaldsleiðir til að næra mig eru gönguferðir í náttúrunni, að hugleiða, dansa, synda, mála, hlæja. Hverjar eru þínar leiðir?
Guðrún Darshan, jógakennari og markþjálfi
gudrun@andartak.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.